Eins og fram hefur komið á korkum ákvað Flugmálastjórn að
banna einka- og kennsluflug frá Reykjavíkurflugvelli
síðastliðinn sunnudag eftir að 15 af 23 flugumferðarstjórum á
vakt tilkynntu veikindi. Þetta gerðist á björtum og fallegum
sunnudegi í frábæru flugveðri. Þetta var einn af þessum
dögum þegar loftið yfir Íslandi ætti að vera fullt af
einkaflugvélum að njóta veðursins, en nú var það stöðvað
vegna kjaradeilu flugumferðarstjóra.

Nú ætla ég ekki að efa það að allir þessir flugumferðarstórar
hafi fengið svona líka bráðsmitandi flensu, en mér finnst
viðbrögð FMS skrýtin. Hefur FMS rétt til þess að gera svona
upp á milli áætlunarflug og einka- og kennsluflugs ?

Samkvæmt reglum ber að veita öllum loftfförum í íslensku
loftrými flugupplýsingaþjónustu, og er hvergi tekið fram að
sum loftför skuli hafa forgang að þeirri þjónustu. Nú kom upp
sú staða að FMS hafði ekki mannskap til að halda úti fullri
þjónustu og klippir þá alveg á allt einkaflug, og það þó
sjónflug í loftrými D þurfi nánast enga þjónustu.

Auðvitað eru flugfélögin fljót að væla um tapaðar tekjur og
milljónakostnað, en það er ekki hægt að reikna með því að
svona stopp kosti einkaflugið ekkert. Hver einasti
góðviðrisdagur sem einkaflugið er grándað þýðir tapaðan
flugtíma. Það þýðir að menn missa æfingu, flugnemar missa
áhugann og tilvonandi farþegar missa af tækifæri til að sjá
Íslenska náttúru skarta sínu fegursta. Þetta er eitt af því sem
er að drepa einkaflugið. Þegar menn lenda alltaf í öðru sæti,
fá ekki að stunda lendingaræfingar, eru læstir úti af
flugvellinum, fá ekki að lenda í Vestmannaeyjum, eða hvað
það nú er, þá hætta menn að standa í þessari vitleysu.

Kjaradeila flugumferðarstjóra er skandall, og það ætti að vera
löngu búið að leysa þá deilu (helst með því að rassskella
flugumferðarstjóranna, en látum það liggja á milli hluta). Það
er hins vegar engin réttlæting á svo harkalegum viðbrögðum
sem að banna allt einka- og kennsluflug. Síðasta sumar var
Vestmannaeyjaflugvelli lokað fyrir einkaflugi um
verslunarmannahelgina. Í gær var Reykjavíkurflugvelli lokað.
Þetta þykir ekki fréttnæmt, og ef við hreyfum okkur ekki, þá
endar það eins og í Evrópu þar sem einkaflug er svo gott sem
bannað.

Ég sendi flugumferðarstjórum heillaóskir og von um skjótan
bata.

Kristbjörn