Ég veit ekki hvort þetta sé réttur vettvangur til að ræða um þetta mál en þar sem þetta er eini Íslenski spjall flugvefurinn sem ég hef fundið á netinu þá læt ég þetta flakka.

Eftir að hafa fylgst með málflutningi sem hefur verið að undanförnu í fjölmiðlum varðandi mál Árna G. Sigurðssonar flugstjóra hefur mér orðið meir og meir mál að tjá mig um það. Mér sýnist að fréttamenn, og þá sérstaklega sjónvarpsfréttamenn, sem um málið fjalla hafi hvorki skilning né þekkingu á lögum og reglugerðum er varða útgáfu flugmannsskírteina og heilbrigðisvottorða flugmanna. Hefur mér fundist fréttaflutningurinn alfarið miðast að því að gera flugmálayfirvöld ótrúverðug í augum landsmanna í stað þess að fjalla faglega og efnislega um staðreyndir málsins. Nægri rýrð hefur verið kastað á flugöryggi í landinu að undanförnu svo að þetta bætist ekki við.

Sem flugmaður hefi ég þurft að ganga í gegnum sömu læknisskoðanir og umræddur flugstjóri en sem betur fer ekki þurft að ganga þá grýttu braut sem hann hefur undanfarið þurft að ganga. Þegar við, Íslenskir flugmenn, göngum í gegnum flugnám lærum við um allt sem viðkemur útgáfu skírteina og heilbrigðisvottorða og þar af leiðandi lesum við viðkomandi reglugerðir, (sem að mínu mati að fréttamenn og aðrir sem um þessi mál fjalla í fjölmiðlum ættu einnig að gera!) en í þessum reglugerðum koma fram þær heilbrigðiskröfur sem flugmenn og aðrir sem sækja um skírteini hjá Flugmálastjórn þurfa að uppfylla. Í þeim er auk þess tekið fram hver sé réttur umsækjenda um skírteini og/eða heilbrigðisvottorð og þar segir að ef umsækjandi sé á einhvern hátt ósáttur við úrskurð fluglæknis þá sé honum heimilt að kæra þann úrskurð og fá annað álit. Það álit fæst með því að umsæjandi kærir úrskurð fluglæknis til Flugmálastjórnar. Flugmálastjórn kveður þá til 3ja manna nefnd sem er skipuð fullkomlega færum læknum og sérfræðingum á þeim sviðum sem reglugerðin segir til um.

Árni G. Sigurðsson flugstjóri leyfði sér að neyta þessa réttar síns og fékk með því annað álit. Nefndin, sem skipuð var af Flugmálastjórn og státaði af okkar færustu sérfræðingum á sviði lækninga, þar á meðal Landlæknis yfir Íslandi, komst að annarri niðurstöðu en trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar. Samkvæmt lögum hefur þessi nefnd algjört lokaorð um útgáfu heilbrigðisvottorða flugmanna og hefur dómur fallið í Hæstarétti þar um. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu gefur Flugmálastjórn ekki út heilbrigðisvottorð án takmarkana Árna til handa sem má teljast athyglisvert. Það er Flugmálastjórn Íslands sem gefur út heilbrigðisvottorð til flugmanna en ekki trúnaðarlæknir hennar. Samgönguráðherra hefur alls ekkert um það mál að segja fyrr en kæra liggur fyrir. Til þess að Samgönguráðherra komi að málinu þarf umsækjandi, sem í þessu tilfelli er Árni G. Sigurðsson flugstjóri, að kæra Flugmálastjórn fyrir þær athafnir sem hún hefur í frammi.

Það sýnist mér á öllu að Árni hafi gert og í framhaldi af því hafi Samgönguráðherra farið fram á það að flugstjórinn fengi útgefið heilbrigðisvottorð án takmarkana og byggt þá ákvörðun sína á úrskurði umræddrar 3ja manna nefndar. Ekki varð það til þess að Flugmálastjórn gæfi út heilbrigðisvottorðið án takmarkana. Af þessu leiðir að menn fara að hugsa hvort að ekki sé allt með felldu innan Flugmálastjórnar þar sem einn læknir segir af en aðrir segja á. Samgönguráðherra ákveður þá í framhaldi af þróun mála að rannsókn fari fram á störfum umræddra lækna, hvort að ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum. Það er að mínu mati hárrétt ákvörðun Samgönguráðherra og ekkert um hana að segja annað en það að vonandi kemur sannleikurinn í ljós að rannsókn lokinni og menn geti við unað. Það hlýtur að vera krafa allra flugmanna í landinu að fullt innra eftirlit hjá Flugmálastjórn sé virkt svo að við þurfum ekki að lifa við það að við hinir gætum átt von á að lenda í sömu vandræðum og Árni að ástæðulausu.

Flugmálastjórn Íslands heyrir undir Samgönguráðuneytið og þess vegna hefur Samgönguráðherra m.a. þeirri skyldu að gegna að hafa eftirlit með þeirri stofnun og sjá til þess að farið sé að lögum í einu og öllu. Engum þarf að bregða þó að gerðar séu rannsóknir á störfum ríkisstofnana, þvert á móti ættu landsmenn að fagna því að eftirlit sé haft með störfum þeirra svo hægt sé að fylgjast með hvernig farið er með rétt okkar.

Flugmálastjóri en ekki Samgönguráðherra vék trúnaðarlækni sínum úr starfi á meðan rannsókn á störfum trúnaðarlæknis fer fram. Þetta getur nú vart talist óeðlilegt ferli.

Skemmst er að minnast fjaðrafoksins varðandi störf Rannsóknarnefndar flugslysa vegna flugslyssins í Skerjafirði á síðasta ári. Þar var farið fram á að störf rannsóknarnefndarinnar yrðu rannsökuð ofan í kjölinn sem að mínu mati er fullkomlega eðlileg krafa þeirra sem að því máli komu og töldu þörf á rannsókn. Nákvæmlega sama er uppi á teningnum í þetta sinn, menn eru ósáttir og vilja fá allan sannleikann upp á borðið.

Það sem mér finnst skipta mestu máli er að mál Árna gangi rétta boðleið og sú virðist raunin þó að fréttamenn í öllum æsinginum yfir þessu máli reyni að halda öðru fram.

Ég myndi ekki vilja vera í sömu sporum og Árni G. Sigurðsson flugstjóri og ég tel mig geta fullyrt að aðrir flugmenn séu mér sammála. Ég fylgist áfram spenntur með framgangi málsins og vona að menn komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Ætli flugmenn almennt hafi jafngóða hugmynd um réttarstöðu sína í sambærilegum málum eða öðrum?

Þarf að auka kynningu á réttarstöðu flugmanna gagnvart yfirvöldum t.d. í skólum eða sérstökum námsskeiðum?

Hvað finnst ykkur um framgang Flugmálastjórnar og Samgönguráðherra í málinu?

Hvernig er ykkur innnanbrjósts þegar þið heyrið því fleygt fram í fjölmiðlum að flugmenn séu að fara fram á afslátt af öryggi?

Ég vil hvetja til málefnalegrar umræðu um þetta hérna og bið ykkur um að láta leiðinda skot og skæting á aðila liggja milli hluta.

Kveðja, Helico.