Einkaþota fyrir alla Sælir flughugar,

Bylting gæti verið í vændum í framleiðslu einkaþotna. Fyrirtækið Eclipse Aviation ráðgerir að hefja framleiðslu á einkaþotu sem kemur til með að kosta brot af því sem svoleiðis farartæki kosta í dag. Á verðlagi ársins 2000 er miðað við að hún kosti um 850.000 dollara, sem þýðir undir 100 milljónum ISKR. Þó svo að okkur meðaljónunum finnist það miklir peningar, þá er það “hlægilegt verð” samanborið við verðin sem eru í gangi í dag. Sem dæmi, þá kosta einshreyfils turboprop vélar eins og PC-12 og TBM-700 2,5 til 3 milljónir dollara, og þar erum við að tala um einshreyfils skrúfuþotu.

Eclipse Aviation ætlar sér semsagt að framleiða 6 sæta, tveggja hreyfla þotu sem kostar minna heldur en menn borga fyrir áratuga gamlar einkaþotur eða skrúfuþotur. Vélin verður knúin áfram af Williams þotumótor og framleiðandi hennar er óspar á lýsingarorðin varðandi “byltingu” í því hverju og hvernig fólk kemur til með að fljúga í framtíðinni. Þotan er með áætluðum farflugshraða upp á 355 hnúta, hefur 1300 NM drægi (IFR) og 41.000 feta hámarkshæð.

Vélin á að vera hagkvæmari að eiga og reka heldur en flestar eins hreyfils bulluvélar, fjölhreyfla bulluvélar og skrúfuþotur. Beinn rekstarkostnaður á Eclipse þotunni á að vera 56 cent á mílu. Það er 1/4 af kostnaði af rekstri King Air og helmingur af rekstrarkostnaði á Baron. Síðan þarf náttúrulega ekki að taka fram að þessi vél er með nýjustu tækjum og tólum, þ.e. glass cocpit og allt sem nýtt telst.

Ef einhver ofurhugi hefur áhuga á að fá sér svona vél… þá gengur það svona fyrir sig:

1. Þú greiðir $37.500 sem fyrstu greiðslu.
2. Eftir fyrsta flug vélarinnar $37.500 (Júlí 2001 áætlað)
3. Þegar vélin fær FAA viðurkenningu $75.000

Samtals verður þá búið að greiða $150.000 inn á vélina þegar hún verður viðurkennd. Afganginn greiða menn við afhendingu.

Ég heyrði því fleygt að áætlanir varðandi framleiðslu á vélinni væru mjög metnaðarfullar. Þegar framleiðslan verður komin í gang á að framleiða 1 vél á dag, en þeir hyggjast auka það með sjálfvirkri verksmiðju. Ekki er gefið upp hverjir standa á bak við þessa framleiðslu, en það eiga að vera aðilar úr flugvélabransanum, upplýsingageiranum og bílaiðnaðinum. Heyrst hefur að Bill Gates sé þar á meðal….

Nánari upplýsingar á http://www.eclipseaviaton.com

Happy flying,

Otri