Ekki hefur farið fram hjá lesendum hér á Hugi.is að mjög ákveðnar skoðanir eru settar hér fram um framkomið frumvarp samgönguráðherra um loftferðir. Fyrir hönd samgönguráðherra get ég ekki annað en lýst furðu minni á hversu ómálefnaleg umræða hefur farið fram hér á vefnum að undanförnu. Af skrifum allflestra má vera ljóst að fáir hafa haft fyrir því að kynna sér málið í raun og veru. Gengið virðist út frá því sem gefnu að verið sé að stilla flugheiminum upp í tvær andstæðar fylkingar - notendur annars vegar og eftirliðið, þ.e. hið opinbera, hins vegar. Þetta er óskiljanleg nálgun á jafn viðkvæmt og um leið mikilvægt mál líkt og það sem hér um ræðir. Öllum má vera ljóst að verkefni samgönguyfirvalda hlýtur sífellt að vera að reyna að bæta það kerfi sem við búum við - okkur öllum til hagsbótar.

Mikið hefur verið rætt um flugöryggismál undanfarin misseri og er frumvarp ráðherra hluti af því starfi sem verið er að vinna til að bæta flugöryggi sem frekast er unnt hverju sinni. Umræða um þennan málaflokk er nauðsynleg og af hinu góða, en gera verður þá kröfu að henni sé haldið á málefnalegu plani.