TF-FMS Sæl öll sömul,

Mig langar til að vekja máls á málinu sem er búið að vera í deiglunni núna síðustu vikur varðandi flug á TF-FMS.

Ég ætla að byrja á því svo það sé á hreinu að mér finnst ekkert að því að ríkið eigi flugvél sem sé notuð í þessa veru. Reyndar finnst mér að ríkið ætti að eiga öflugri vél, t.d. einkaþotu sem kæmi okkar stjórnmála- og embættismönnum örugglega á milli landshluta og heimshluta líka.

En smáborgarahátturinn er enn sem fyrr að gera út af við fjölmiðlana og þjóðarsálina og þeir telja sig hafa fundið gífurlegan maðk í mysunni með því að afhjúpa þetta gífurlega hneyksli.

Eitt dæmi varðandi notkunina á FMS. Það er talað um að farnar hafi verið 3 ferðir til Grænlands með ráðherra eða einhverja embættismenn á Diskó flóa. Mér finnst það magnað að blaðamenn skyldu ekki hafa gert samanburð á því hvernig best sé að ferðast á Diskó flóa. Það er held ég ekkert einfalt. Ég skellti mér á netið og leitaði að fari frá Reykjavík til ILULISSAT. Til að komast á þennan stað á Grænlandi. Hérna er grófleg ferðaáætlun:

Keflavík-Kaupmannahöfn-Sondestrom-ILULISSAT. Það er ekki sjálfgefið og reyndar frekar ólíklegt að hægt væri að ljúka þessu flugi á einum degi aðra leið, þannig að það er orðið frekar fáranlegt að nota lágmark 4 daga fyrir ráðherra að komast til Grænlands og til baka, auk þess að ljúka sínu erindi. Er þá ekki einfaldara að fara með TF-FMS og ferðin tekur ca. 5 tíma hvora leið? Það allavega eykur líkurnar á því að blaðamenn geti náð í ráðherrana ef eitthvað “stórmál” kemur upp.

Þá komum við að því að flugrekendur vilja eðlilega fá þetta flug til sín. En þeir sem koma í viðtal á heilsíðu í DV og lýsa yfir vanþóknun sinni á þessu öllu saman geta ekki einu sinni boðið upp á þessa þjónustu svo vel sé. Í svona ferðalag þarf turboprop sem er búinn jafnþrýstibúnaði. Einu félögin sem bjóða upp á þann farkost er Flugfélag Íslands og Íslandsflug. Ég hef ekki orðið var við að það hafi heyrst mikið frá þeim í þessu máli. Kannski er það tilgangurinn með þessum leik í DV að koma FÍ frekar á ríkisspenann, því það er það sem öll fyrirtæki í “samkeppni” vilja…

“Kóngurinn” er nú þegar í eigu landsmanna (ríkisins) og það er einungis verið að reyna að fullnýta dýrt tæki. Vélin nýtist við mælingar á aðflugum og hefur stundað verktakavinnu fyrir erlendar flugmálastjórnir, auk þess að “skutla” embættismönnum þegar tíminn er knappur.

Það er ein mesta peningaeyðsla sem til er að eiga flugvél og láta hana ekki fljúga.

Til ykkar,

Otri