Lokið er við að búa til myndband um flugsýninguna sem haldin var á Reykjavíkurflugvelli þann 23 ágúst 1986 og verður frumsýning að Hótel Loftleiðum fimmtudaginn 8 nóvember n.k. kl. 19:30.
Allir flugmenn og gestir þeirra eru velkomnir meðan húsrúm leyfir, en eftir sýninguna verða veitingar og spjall að hætti flugmanna.

Stærsta flugsýning á Íslandi
Þessi flugsýning er sú stærsta sem haldin hefur verið hér, yfir 70 flugvélar sýndu, þar af um 25 herflugvélar. Um 40 íslenskir flugmenn tóku þátt í sýningunni, sem nú fá loksins tækifæri til að sjá sýninguna í heild.
Á sýningunni voru flugvélar frá öllum íslensku flugrekendunum; Flugleiðum, Arnarflugi, Landhelgisgæzlunni, Flugmálastjórn og Landgræðslunni, en einnig erlendar herflugvélar frá Keflavík, Hollandi, Þýskalandi og Bretlandi.
Flugvél bresku konungsfjölskyldunnar og sýningarflugvél frá Dornier voru í gestahlutverki.
15.000 áhorfendur komu á flugvöllinn þennan dag, sem lengi verður í minnum hafður.
Ómar Ragnarsson tók viðtal við Þorstein Jónsson, sem rifjaði upp atburði frá einni fyrstu flugsýningu sem haldin var í Reykjavík árið 1946, en Þorsteinn tók þátt í þeirri sýningu.

Myndbandið
Myndbandið er sett saman af Stefáni Sæmundssyni og er efnið unnið að hluta úr þætti Ómars Ragnarssonar og svo upptöku sjónvarpsins sem kom í leitirnar nýlega, en efnið er sýnt með góðfúslegu leyfi þeirra.
Baldur Sveinsson tók saman ýmsan fróðleik og lýsir atriðum sýningarinnar sem er um 70 mínútur að lengd.