Mér finnst alltof lítið talað um einkaflugvélar hérna á síðunni. Hvernig stendur á þessu? Bætum úr þessu hér og nú. Munurinn á Cessna, Piper og Socata. Cessna er “Lada loftsins” er það ekki? Allir geta flogið þessu dóti og áskorunin á bak við það er sama sem engin. Cessna hefur alltaf búið til flugvélar sem eru í raun og veru aðeins farartæki til að komast milli A og B, en ekki kannski til þess að njóta þess að fljúga, a.m.k. er það mín skoðun. Piperinn er í flestum tilvikum skemmtilegri, sérstaklega gömlu dúkpiperarnir. Þeir eru alveg ferlega skemmtilegir og stélhjólsvélarnar frá Piper alveg í sérflokki. Til marks um hvað þær eru vinsælar þá er eiginlega alveg sama hversu oft þær krassa, það er næstum alltaf gert við þær aftur. T.d. er fyrirtæki í Alaska sem gerir ekkert annað en að gera upp Piper stélhjólsvélar, allt árið um kring í fjöldamörg ár!! Einn galli hins vegar finnst mér (eða hvað?) að á Piper og Socata þarf maður að skipta um tank. Hvers vegna er þetta haft svona? Ef einhver veit svarið, þá vil ég fá að heyra það. Lágþekjur eins og Piper og Socata hafa minni loftmótstöðu en Cessnurnar því þær eru ekki með vængstýfur eða langa hjólaleggi eins og t.d. Cessna Skyhawk. Socatan hefur tvímælalaust vinninginn þegar kemur að “vinnuaðstöðu” fyrir flugmanninn. Þar er allt hannað þannig að það snúi að flugmanninum og allt er við hendina. Minnir eiginlega á þýskan eðalvagn. Svo eru sætin svo góð og ekki má gleyma stýrunum. Stýrin á Socata vélunum eru öll með stöngum þannig að það er ekkert dautt slag í þeim eins og í “vírastýrunum” á Piper og Cessna. Það er líka merkilegt hvers vegna Cessna og Piper “þykjast” vera að selja “nýjar” flugvélar þegar þetta er í raun sama dótið og rúllaði af línunni fyrir 35-40 árum síðan. Hvernig stendur eiginlega á þessu? Socata breytti um hönnun kringum 1982 og breytti aftur núna í fyrra, allt til hins betra. Það er ekkert skrýtið þó að framleiðendur eins og Cirrus eru með pantanir mörg ár fram í tímann. Þær vélar eru á réttri leið, allt úr plasti, létt, engin hnoð til að draga úr mótstöðu, hraðfleygt á tiltölulega litlum mótor miðað við það sem gerist og gengur og öll hönnun útpæld. Þetta er framtíðin. Cessna og Piper ættu nú að fara að hysja upp um sig buxurnar og fara að gera eitthvað af viti, því maður heyrir (eða les) ekkert um að þeir séu í einhvers konar þróunarvinnu til að bæta vélarnar. Reyndar eru Socata og Cessna að vinna eitthvað varðandi díeselmótora, en Socata er töluvert á undan í samvinnu við Renault og ef mér skjátlast ekki, þá er fyrsti mótorinn þeirra um það bil að fá “skráningu” (Certification). Piper Archer er asskoti fín vél, en hún er bara allt of dýr miðað við árgerðir, samanborið við Socata TB-10 t.d. sem er sambærileg og með skiptiskrúfu. Getur líka einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna “Ladan” er svona dýr, jafnvel þó um sé að ræða 25 ára gamla flugvél? Ég kannast við lögmálið um framboð og eftirspurn, en mér er bara fyrirmunað að skilja þetta, sorry.
Látið nú gamminn geysa félagar!

Kv.

Mazoo.