Andstæðingasaga II : Supermarine Spitfire Hér kemur seinni parturinn af þessari “Andstæðingasögu”. Fyrri parturinn fékk meiri og betri viðbrögð en ég hafði búist við. Sérstaklega varð ég var við að menn vildu gjarnan hafa hann lengri og ítarlegri. Ég hef reynt að fara eftir því, og menn verða því að fyrirgefa þetta misræmi milli greinanna. Ég er semsagt alls ekki að gefa í skyn að Spitfire hafi verið þrisvar sinnum merkilegri en Bf 109, þó greinin um hana sé það ;)


Supermarine Spitfire er án efa einhver frægasta flugvél mannkynssögunnar. Jafnvel fólk sem engan sérstakan áhuga hefur á flugvélum, þekkir hana oftast á myndum. Þessi frægð helgast líklega af tvennu: Hinum sérstæðu bogadregnu vængjum hennar sem gerðu hana einstaklega glæsilega í útliti, og (þar af leiðandi) hinu stóra hlutverki sem hún lék í áróðri Bandamanna, bæði í stríðinu og eftir að því lauk.

Í áróðrinum og minningunni varð Spitfire ódauðleg sem “síðasta vörn hins Frjálsa heims”, í meðförum “hinna fáu” í Orustunni um Bretland haustið 1940. Í raun hafði þar mun meira mætt á annari ekki jafn fallegri vél, Hawker Hurricane, auk talsverðs magns af minna þekktum fyrir-stríðs tegundum.

Þetta þýðir þó alls ekki að Spitfire hafi verið ofmetin fegurðardrottning. Að allri sögufrægð og áróðri slepptum, var hún samt sem áður ein af merkilegri vélum flugsögunnar og ein besta orrustuflugvél allra tíma. Líkt og höfuðandstæðingur hennar sem fjallað var um í fyrri greininni, var hún allt frá upphafi stríðs til loka þess, aðal-orrustuflugvél sinnar þjóðar. Og gekkst að sama skapi undir miklar og örar endurbætur öll stríðsárin.


Um nafnakerfið:

Breska nafnakerfið var öðruvísi (og ruglingslegra) en það þýska eða bandaríska. Bretar gáfu fyrst nýrri flugvélategund nafn, og svo hverri nýrri gerð hennar rómverska tölu. Dæmi: Spitfire Mark I, Spitfire Mk. II osfrv. Ný afbrigði fengu síðan stafi: Spitfire Mk. Ia, Mk. Ib osfrv. Til að bæta ofan á þennan rómversku tölustafa/bókstafa rugling, var breska kerfið örlátara á ný “mörk” en hin kerfin voru á stafi.

Hér verður ekki reynt að útlista allar gerðir Spitfire sem fram komu á stríðsárunum, enda náðu þær á þriðja tuginn. Afbrigði þeirra skiptu síðan nánast hundruðum og voru sum hver afskaplega sérhæfð og að sama skapi sjaldgæf. Hér verður aðeins litið á helstu gerðir Spitfire, þær sem mesta framþróun sýndu frá fyrri gerðum, og mest var framleitt af.


Uppruninn

Árið 1931 efndi RAF (Royal Air Force - Breski flugherinn) til útboðs meðal flugvélaframleiðenda um hönnun og smíði nýrrar orrustuflugvélar, sem ætlað var að leysa hinar ágætu Hawker Fury tvíþekjur af hólmi þegar tími yrði kominn á þær. Ein af tillögunum kom frá Supermarine, fyrirtæki sem heimsfrægt var orðið fyrir hönnun og smíði kappflugvéla.

Undanfarin ár höfðu kappflugvélar barist um hraðametin í alþjóðlegum flugkeppnum. Þessar keppnir líktust fremur Formúlu-keppnum nútímans en vígbúnaðarkapphlaupi, voru semsagt meira á milli hönnuða og framleiðenda en landa. Þarna mátti sannarlega helst sjá “cutting edge” í þróun flugtækni á þessum tíma. Enda fylgdust hernaðaryfirvöld allra landa vel með þróun mála, og hlýtur að hafa sviðið að þessar vélar gátu léttilega stungið þeirra fremstu orrustuflugvélar af! Schneider-verðlaunin var ein af þessum keppnum, og þau hafði Supermarine unnið það árið með rennilegri sjóflugvél að nafni S6B, vél sem náði nánast tvöföldum hraða Hawker Fury, aðal-orrustuflugvél RAF!

Innlegg Supermarine í RAF-úboðið bar keim af kappflugvélum fyrirtækisins. Þetta var einþekja nefnd Týpa 224, hönnuð af yfirhönnuði fyrirtækisins, Reginald Mitchell. Þótt að mörgu leyti væri hún ekki sérlega framúrstefnuleg (var t.d. með fastan hjólabúnað), var hún þó of framúrstefnuleg fyrir yfirmenn RAF. Einþekjur höfðu ekki enn sannað sig sem orrustuflugvélar, og töldu menn vissara í bili að fá meiri reynslu á þær. Gloster-fyrirtækið vann því útboðið með öflugri tvíþekju sem gefið var nafnið Gladiator, og gat sér síðar ágætis orð.

Þessi ákvörðun RAF var þó ekki eingöngu sprottin af þröngsýni, því tilfellið var að Týpu 224 skorti sárlega vélarafl. Bestu fjöldaframleiðslu-hreyflarnir sem Rolls Royce átti til á þessum árum voru aðeins um 700 hestöfl, og á því náði Gladiator meiri hraða og flughæfni en málm-einþekja Mitchells. Enganveginn var gerlegt að setja rándýra, ofur-viðhaldsfreka og flókna keppnis-hreyfla í fjöldaframleidda orrustuflugvél, og ekki dugði fyrir Supermarine-menn að segja “ekkert að marka þetta núna, við setjum auðvitað betri hreyfil í hana seinna!”

En Mitchell og hans menn gáfust þó ekki upp. Úr þessum hreyfil-vandræðum fór að rætast um 1935 með væntanlegri tilkomu nýs 1000 hestafla hreyfils frá RR sem nefndur var Merlin. Hreyfil-hönnun þessi var svo fullkomin að hægt var að endurbæta hana sífellt næsta áratuginn, eins og kom í ljós. Án frumkvæðis RAF gerði Mitchell sjálfur frumdrög að algerlega nýrri orrustuvél með Merlin-hreyfilinn í huga. RAF-menn sýndu strax áhuga, og fjárveiting fékkst til þróunar prótótýpu. Vinnan gekk hratt fyrir sig, og þann 5. mars 1936 fór Supermarine prótótýpa F.37/34 í loftið. Nú var þörfin fyrir nýjar orrustuflugvélar orðin mun brýnni en nokkrum árum fyrr, og tveim mánuðum eftir fyrsta flugið lagði RAF inn pöntun á 310 eintökum af nýju Supermarine orrustuflugvélinni.

Nafnið “Spitfire” (skásta þýðing: “brussa” - gamalt orð sem haft var um hávaðasamt kjöftugt og frekt kvenfólk, en var dottið úr notkun og orðið fornlegt á þessum tíma) var lagt til af yfirmanni Vickers, sem nú var orðið móðurfyrirtæki Supermarine. Þegar Reginald Mitchell heyrði það tautaði hann “It’s the sort of bloody silly name they would give it!” En honum var þó svosem sama og andmælti ekki. Honum auðnaðist því miður ekki að sjá hversu frægt þetta sköpunarverk hans varð, því hann lést árið 1937 úr krabbameini, 42 ára gamall.

Sjóflugvélar frá Supermarine höfðu sem áður sagði sett hraðamet árið 1931. Sex árum síðar var hraðamethafinn hin bandaríska H-1 vél auðkýfingsins sérvitra Howard Hughes. Supermarine-menn vildu að sjálfsögðu gera betur, og síðla árs 1938 átti sérútbúin Spitfire að reyna við metið. Hún var með 2160 hestafla hreyfli og stórri fjögurra blaða skrúfu. Allt nema bráðnauðsynlegur búnaður var rifinn út, og grindin var styrkt nákvæmlega eins lítið og óhætt var talið. En mánuði áður en gera átti tilraunina, var snögglega hætt við það. Nýtt hraðamet hafði verið sett sem Supermarine-menn treystu sér ekki í að reyna að slá í bili. Það var sett í Þýskalandi, af sérútbúinni Messerschmitt Bf 109.


Mk. I – Goðsögnin verður til

Árið 1938 hóf RAF að taka Spitfire Mk. I í notkun. Flugmenn tóku strax ástfóstri við vélina, enda var hér um að ræða risastökk fram á við, hvort sem menn höfðu áður flogið Gloster Gladiator eða fyrstu einþekju-orrustuvél RAF, Hawker Hurricane – en sögu þeirrar síðarnefndu var þó hvergi nærri lokið enn.

Á næstu mánuðum var smám saman unnið að því að útbúa fleiri orrustuflugsveitir með þessu nýja stolti RAF. Það gekk þó ekki jafn hratt og menn hefðu óskað, enda voru fjárveitingar af skornum skammti og því engin plön um að skipta eldri tegundum alveg út í bráð. Ýmsar smávægilegar endurbætur voru þó gerðar á vélinni, t.d. var upphaflegu loftskrúfunni, tvíblaða “fastri” tréskrúfu, skipt út fyrir nýja þríblaða málmskrúfu með breytilegri aðfallsstillingu (variable pitch – constant speed propeller), sem nýtti afl hreyfilsins mun betur.

Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst í september 1939, áttu Bretar alls 306 eintök af Spitfire Mk. I í flugsveitum sínum, og var það mun minna en af eldri gerðum, aðallega Hawker Hurricane og Boulton-Paul Defiant. Fyrsta “aksjón” sem Spitfire lenti í var bardagi við níu Ju 88 sprengjuflugvélar yfir Forth-firði í Skotlandi í október 1939. Tvær óvinavélanna voru skotnar niður og þriðja stórlöskuð en tókst að sleppa. Næstu mánuðina var þetta svipað. Tíðindalaust var af vesturvígstöðvunum, og hvort sem er fáar Spitfire sendar yfir sundið til Frakklands, hún var ætluð fyrst og fremst heimavarna.

Í maí 1940 fóru Þjóðverjar loks af stað í Frakklandi, og voru þá loks nokkar Spitfire-sveitir sendar yfir. 13. maí mætti Spitfire fyrst höfuðandstæðingi sínum Bf 109 í snörpum bardaga yfir Hollandi. Þar mættust tveir hópar flugvéla, Spitfire og Defiant orrustuvélar Breta annarsvegar, og Ju 87 sprengjuvélar og Bf 109 orrustuvélar Þjóðverja hinsvegar. Lauk þeirri viðureign með að ein Spitfire og ein Bf 109 voru skotnar niður, auk fjögurra Ju 87 og fimm Defiant.

Á næstu vikum stóðu hinar fáu Spitfire sem sendar voru yfir sundið í hörðum bardögum við hinn öfluga þýska Luftwaffe, þar sem Bandamenn reyndu árangslaust að stöðva leiftursóknina yfir Niðurlöndin og Frakkland. Bretar héldu reyndar að sér höndum varðandi Spitfire, flestum þeirra var haldið heima af rökstuddum ótta um að baráttan í Frakklandi væri vonlaus. Það var ekki fyrr en síðustu dagana sem Þjóðverjar fóru að sjá hinar heimakæru Spitfire í einhverju magni, þegar þær flugu stuttar ferðir yfir sundið til að verja undanhald Breta frá Frakklandsströndum. Urðu þar margir harðir bardagar, og þýskir orrustuflugmenn kynntust þessum stórhættulega andstæðingi vel.

Nú var komið að hinni miklu Orrustu um Bretland. Svo mikið hefur verið um hana skrifað að ég sleppi því hér, en það var eins og allir vita fyrst og fremst hér sem Spitfire ávann sér ódauðleikann í sögunni. Hún var í fremstu víglínu, barðist hart við sinn höfuðandstæðing Bf 109 og kom í heildina betur út, þó jafnt væri á munum.

Einn stærsti galli Mk. I var hversu lítinn skotkraft hún hafði. Hún var vopnuð átta .303 cal (7.7 mm) vélbyssum, fjórum í hvorum væng. Um 1935 hefði þetta getað tætt hvaða tvíþekju sem var í frumeindir, en nú voru flugvélar almennt orðnar mun sterkbyggðari og betur varðar. Brynvörn á mikilvægum hlutum flugvéla hafði batnað, og að auki voru margar komnar með “sjálfbætandi” (self-sealing) eldsneytistanka. Þeir voru að innan klæddir með tví-laga dúk með ytra lagi úr gúmmíkvoðu-efni sem þandist út kæmist það í snertingu við bensín, og stoppaði þannig upp í kúlnagöt. Þó mun fleiri væru, voru .303-vélbyssukúlur Spitfire Mk. I ekki stærri eða langdrægari en úr kúlur úr venjulegum her-riffli. Enda voru þess mörg dæmi að þýskar sprengjuflugvélar kæmust “vel pipraðar” heim, með yfir hundrað af þessum litlu kúlnagötum á sér.

Byrjað var að bæta úr þessu strax í Orrustunni um Bretland, þegar vélar einnar flugsveitar voru útbúnar með fjórum 20 mm byssum. Það reyndist þó alls ekki nógu vel, og var því á næstu gerðum 20 mm byssum fækkað í tvær og fjórum .303 byssum bætt aftur á. Var það síðan algengasti vopnabúnaður Spitfire allt stríðið, þó ýmis afbrigði mætti finna.

Mk. II fór að birtast úr verksmiðjunum haustið 1940. Hún var í litlu frábrugðin fyrri gerðinni, en var þó aflmeiri um 110 hestöfl, sem oft gat gert gæfumun. RAF náði aldrei alveg að skipta öllum I út fyrir II áður en næsta gerð kom tveimur árum síðar, og varð því saga hennar fremur stutt.


Mk. V – Öflug milligerð

1941 voru Þjóðverjar óðum að skipta Bf 109 “Emil” út fyrir “Friedrich”, en sú vél var að flestu leyti fremri Spitfire Mk. I og II. Í Bretlandi voru menn með þrjár nýjar Spitfire-gerðir á teikniborðunum. Mk. III átti að verða næsta gerð, með styrktri grind og nýjum kraftmeiri hreyfli. En til að gera langa sögu stutta, varð hún úrelt á teikniborðinu þegar RR-menn höfðu á met-tíma enn nýrri og kraftmeiri hreyfil tilbúinn, sem ætlaður var fyrir Mk. V. (Mk. IV var tilraunaverkefni sem nánar verður vikið að síðar). Það var því hætt við framleiðslu á III en hlaupið beint yfir í V. Að byggingu var hún lítið breytt frá fyrri gerðum, en með mun öflugri hreyfli, Merlin 45, sem við bestu aðstæður gaf Mk.V allt að 42% meira vélarafl en Mk. II.

Mun meira var framleitt af Mk. V en fyrri gerðum, enda kom hún fram á þeim tíma sem Bretar voru fyrst almennilega að rétta úr kútnum eftir slakt gengi í styrjöldinni hingað til, og flugvélaframleiðslan komin í fullkominn stríðs-gír. 1941-2 sóttu Bretar í sig veðrið í árásarferðum yfir hernumdu Evrópu, og þar mæddi mikið á Mk. V. Enda reyndist hún prýðilega, var jafnoki Bf 109F og stundum vel það. Það var ekki fyrr en hún fór æ oftar að lenda í hinni nýju þýsku Focke Wulf 190A, og síðan forna fjandanum á sterum, Bf 109G, sem hún fór að lúta í lægra haldi. Það var klárlega kominn tími á aðra uppfærlsu.


Mk. IX - Fullkomnun

Í þessari gerð sem birtast fór yfir meginlandi Evrópu síðla árs 1942 var það enn einu sinni nýr Merlin hreyfill sem var aðalmunurinn. Útlitslega var fátt sem aðgreindi fyrstu Mk. IX vélarnar frá fyrri gerðum, en smám saman var ýmsum nýjum fídusum bætt á hana, enda varð þessi gerð sú langlífasta og algengasta af fjölskyldunni. Mk. IX var í notkun það sem eftir lifði stríðs. Reyndist hún að flestu leyti mun betri vél en Bf 109G, og jafnoki flestra gerða af FW 190.

Nú hafði Merlin-hreyfillinn náð fullkomnun, lengra varð ekki með hann komist.Enda er þessi gerð af mörgum talin vera toppurinn á hinni upprunalegu Spitfire-hönnun. Svo nátengd var saga Spitfire og Merlin hreyfilsins, að nú var komið að þáttaskilum í Spitfire sögunni. Seinni gerðir voru að mörgu leyti ekki lengur alveg sama flugvélategund.


Mk. XII – Nýr hreyfill, ný kynslóð

Hjá Rolls-Royce var þróun á svonefndum Griffon hreyfli á byrjunarstigi í upphafi stríðs. Þessi hreyfill var á allan hátt fremri Merlin, t.d. var sprengirými hans um 36% meira þrátt fyrir ekki mikið meira umfang, og afköstin eftir því. Alla tíð var vitað að hann yrði nær örugglega notaður í nýja kynslóð Spitfire þegar þar að kæmi, enda var Spitfire Mk. IV árið 1941 lítið annað en tilraunavél til að meta og samræma Spitfire-hönnunina við nýja hreyfilinn. Sökum ýmissa byrjunarörðugleika var Griffon þó ekki tilbúinn til fjöldaframleiðslu fyrr en í árslok 1943, og var Spitfire Mk. XII hin fyrsta raunverulega “Griffon Spit”, mun öflugri vél en eldri systur hennar með Merlin-hreyflana.

Þessi gerð, og ekki síður næsta megin-gerð af Griffon vélum, Mk. XIV, þekktust greinilega frá eldri systrum (eða hálfsystrum?) sínum því trjónan með nýja hreyflinum var mun lengri, stélið var stækkað, auk þess sem sett var á hana ný stjórnklefahlíf, “bubble canopy” svipuð og á P-51D Mustang.


Mk. 21 – Ný Spitfire

Þó liði nú að stríðslokum var sífellt haldið áfram að endurbæta Spitfire, og í árslok 1944 fór enn ein gerðin í loftið. Hún var knúin nýjum rúmlega 2100 hestafla Griffon-hreyfli, og voru vængir hennar algerlega endurhannaðir, sem og stélið. Til að fullnýta gríðarlegt vélaraflið var skrúfan fimmblaða. Var vélin nú í útliti orðin ólík eldri gerðum, þótt greina mætti smá-svip. Reyndar mátti deila um hvort þessi vél gæti lengur kallast Spitfire, þó vissulega væri hún hönnuð uppúr henni. Tillaga kom enda fram um nýtt nafn, “Victor”, en lengra komst það ekki, vélin var skírð Spitfire Mk. 21(hér var hætt að nota rómverskar tölur).

Þegar hér var komið sögu var stríðið nánast unnið fyrir Bandamenn, og því ekki jafn mikil þörf fyrir hina nýju ofur-Spitfire eins og búist hafði verið við. Enda var Mk. IX og fleiri gerðir með Merlin-hreyflum í notkun út stríðið. Það fór þó samt ekki svo að ekki fyndust verðug verkefni fyrir Mk. 21. Margar þeirra voru ásamt öðrum sérlega hraðfleygum vélum, t.d. Hawker Tempest og Gloster Meteor þotunni, settar í að skjóta niður hinar nýju V-1 flugsprengjur Þjóðverja þegar þær þutu innyfir austurströnd Bretlands á leið sinni til London. V-1 flaug í beinu striki talsvert undir hljóðhraða, en þó nógu hratt til að meðal skrúfuvélar ættu erfitt með að ná henni.


Eftir stríð

Eftir stríðslok var skiljanlega meiri áhersla lögð á að koma nýjum þotum í loftið en að endurbæta skrúfuvélar, hversu fullkomnar sem þær annars voru orðnar. Engu að síður komu fram tvær nýjar gerðir, Mk. 22 og 24. Framleiðslu Spitfire Mk. 24 var hætt árið 1948, og var hún í þjónustu RAF til 1952, þegar síðasta flugsveitin skipti henni loks út fyrir þotur.

Eftir stríð þegar menn hófu hljóðhraða-rannsóknir fyrir alvöru, kom enn betur í ljós hversu frábær hin upphaflega hönnun Reginalds Mitchells hafði verið. Þegar vænghönnun eldri véla var prófuð til að auka skilning á áhrifum háhraða nálægt hljóðmúrnum, kom Spitfire Mk. I í sínum aldursflokki langsamlega best út í tilraunum, mun betur en Messerschmitt 109, og reyndar margra véla sem á eftir komu.

Það segir enda sitt að sáralítið þurfti að endurbæta grunn-hönnun Mitchells fram að Mk. IX, þó afl Merlin hreyfilsins væri nánast tvöfaldað. Spitfire þurfti aldrei að glíma við viðlíka vandamál og Bf 109, þar sem aukið vélarafl jók þyngdina svo mikið að upphaflega flughæfnin glataðist að miklu leyti.

Það er af öllu þessu ljóst að Spitfire á orðspor sitt sem ein mesta orrustuflugvél allra tíma, fullkomlega skilið.
_______________________