Andstæðingasaga I : Messerschmitt Bf 109 Allir flugáhugamenn þekkja tvær frægustu orustuflugvélar Seinni heimsstyrjaldar, Supermarine Spitfire og Messerschmitt Bf 109. Það sem gleymist oft hjá “kasúal” áhugamönnum, er að báðar þessar tegundir voru sífellt þróaðar og endurbættar á stríðsárunum. Báðar vélar tóku örum breytingum, og þær vélar sem háðu lokaorusturnar árið 1945 voru mun öflugri og fullkomnari tæki en fyrirrennarar þeirra sem fyrst mættust árið 1939. Reyndar að mörgu leyti varla lengur sömu flugvélategundir. Hér skoðum við þær endurbætur sem gerðar voru á þessum frægu flugvélategundum.

Í þessari grein munum við skoða þær endurbætur sem gerðar voru á Messerschmitt Bf 109 í gegnum stríðsárin, og innan skamms verð ég með aðra grein um Spitfire, auk samanburðar á þessum sögufrægu vélum.


Fyrst smávegis um þýska nafnakerfið:

Þýska nafnakerfið var áþekkt bandaríska kerfinu sem við þekkjum enn í dag. Nýjar gerðir flugvélategunda báru nöfn framleiðanda og númer, og hvert nýtt afbriðgi af þeirri vél stafi í réttri röð. Messerscmhitt Bf 109A, Bf 109B osfrv. Ef aðgreina þurfti enn frekar voru númer aftur notuð. Bf 109G-3 var semsagt þriðja smávægilega útfærlsan af G-gerð af Bf 109.

Til snöggrar aðgreiningar var síðan hver ný gerð af vélunum óopinberlega nefndar eftir stöfum sínum. Bf 109C var kölluð Clara, D var Dóra, E var Emil, osfrv. “Bf” stóð fyrir “Bayerische Flugzeugwerke” verksmiðjuna sem í byrjun stríðs framleiddi flestar þessara véla. Þessi nafngift hélst, þó rökréttara hefði verið að nefna vélina “Me 109”, eins og hún er reyndar mjög oft óopinberlega nefnd.


Uppruninn

Þessi fræga flugvél var hönnuð af Willy Messerschmitt, og fór frumgerð hennar fyrst í loftið árið 1935. Þótti hún einstakt hönnunar- og tækniafrek og vakti hvarvetna mikla athygli í hinum alþjóðlega flugheimi millistríðsáranna, enda setti sérútbúin gerð hennar hraðamet árið 1936.

Ljóst var að þessi vél gerði allar fyrri orustuflugvélar úreltar, enda var í öðrum löndum þegar hafist handa um að hanna eitthvað sem staðið gæti henni á sporði. En raunin var sú að hún var ekki enn orðin jafn ógurlegur andstæðingur og ætlað var, og helgaðist það aðallega af hreyfil-vandræðum. Þó að sérútbúin gæti hún auðveldlega sett hraðamet, skorti Þjóðverjum enn hreyfil sem var annarsvegar nógu hagkvæmur í fjöldaframleiðslu, og hinsvegar nógu öflugur til að nýta sér hina frábæru eiginleika hönnunarinnar til fulls.

Tiltækir hreyflar voru á bilinu 700-900 hestöfl, og var það enganveginn nóg til að nýta hæfileika vélarinnar í loftbardögum. Bertha, Clara og Dóra höfðu allar þennan djöful að draga. Þær voru augljóslega frábærar orustuflugvélar, en skorti einfaldlega afl til að sýna hvað í þeim bjó. Það kom þó ekki að sök, því enn voru friðartímar. Nú var það hinsvegar að breytast; ófriðarský voru að hrannast upp yfir Evrópu, og hjá Daimler-Benz var loksins framleiðsla að hefjast á nýjum og byltingarkenndum ca. 1100 hestafla hreyfli.


Emil

Í september 1939 þegar stríðið hófst, var Bf 109E óðum að taka við af Dórunni í orustusveitum Luftwaffe. Framleiðsla á Emil hafði hafist árið áður, og hafði hann þegar getið sér mikið orðspor í Spænska borgarastríðinu, þar sem hann hafði fyrirhafnarlaust sallað niður allt sem hann komst í tæri við.

Þeirri frammistöðu hélt Emil áfram fyrstu mánuði Seinni heimsstyrjaldar, og fóru flugmenn beggja hliða að trúa því að hann væri nánast ósigrandi. Annað kom þó í ljós snemma árs 1940, þegar hann mætti loks breskri hliðstæðu sinni, Spitfire Mk. I. Hér var kominn andstæðingur sem stóð Bf 109 fyllilega á sporði, enda áttu hinar ýmsu gerðir þessara véla marga hildi eftir að há næstu fimm árin.

Emil og Spitfire Mk. I voru að gæðum nánast hnífjafnar vélar. Ef finna mátti kost sem önnur hafði umfram hina, mátti jafna hann út með ókosti sem hin hafði ekki. Reynslan úr Orustunni um Bretland var hjá báðum aðilum þaul-stúderuð og höfð til hliðsjónar við hönnunina á næstu gerðum vélanna.


Friedrich

F-gerðin kom smám saman í stað Emils árið 1941. Friðrik var í útliti mjög greinilega þróaðri en Emil. Framhluti hans var algerlega endurhannaður og mun straumlínulagaðri en á Emil, eins og aðrir hlutar. Stélvængir voru styrktir svo ekki var lengur þörf á stoðum sem einkennt höfðu fyrri gerðir. Væng-endarnir voru endurhannaðir og lengdir örlítið, og kæli-inntökin neðan á vængjunum voru smækkuð verulega. Saman gáfu þessar endurbætur Friðrik flughæfni sem fyrri gerðir höfðu ekki haft. Hreyfillinn var hinsvegar aðeins smávægileg endurbót á þeim sem knúið hafði Emil.

Flugmenn voru hæst-ánægðir með þessar endurbætur, enda tryggði Friðrik Þjóðverjum áfram algjör loftyfirráð yfir meginlandi Evrópu næstu mánuðina. En tækniframfarir voru örar, og 1942 komu fram tvær vélar sem gerðu Friðrik úreltan. Annarsvegar var þar um að ræða glænýjan samherja, Focke Wulf 190A, og hinsvegar nýjustu uppfærsluna á Spitfire, Mk. IX (sem að sjálfsögðu verður nánar fjallað um í næstu grein). Báðar þessar vélar gátu hvar og hvenær sem var stungið Friðrik af, þannig að augljóslega var þörf fyrir aðra uppfærlsu á Bf 109 ætti hún að halda stöðu sinni sem orustuvél í fremstu víglínu.


Gustav

Í G-gerðinni, sem fór að leysa Friðrik af hólmi um mitt ár 1942, var grind vélarinnar styrkt til muna til að þola álag sem nýr 1475 hestafla hreyfill myndi leggja á hana. Auk þessa var flugmannsklefinn þrýstijafnaður, sem kallaði t.d. á þéttari og þykkari rúður. Við allt þetta varð Gústaf talsvert þyngri en Friðrik, og umfang hreyfilsins auk öflugri vopnabúnaðar gerði það líka að verkum að fórna þurfti nokkru af straumlínulögun Friðriks.

Mörgum þýskum flugmönnum, sérstaklega þeim reyndari, þótti því Gústaf vera nokkur afturför. Hann var vissulega kraftmeiri og hraðfleygari en fyrri gerðir, en að sama skapi þyngri og stirðari í loftbardögum. Flugkappar eins og Erich Hartmann og Günther Rall voru aðspurðir eftir stríðið sammála um að F-gerðin hefði í heildina verið sú besta.

Málið var að nú var í raun komið að leiðarlokum fyrir Bf 109 hönnunina yfirleitt. Eins frábær og hún var, var hún nú að verða úrelt og engar frekari uppfærslur með kraftmeiri hreyflum og fleiri tækninýjungum gátu breytt því.

Gústaf varð engu að síður sú gerð Bf-109 sem mest var framleitt af, og var í notkun til stríðsloka. Ásamt hinni mun fullkomnari Focke Wulf 190 (í sínum mörgu afbrigðum), var Me-109G aðal-orustuflugvél Þjóðverja það sem eftir lifði stríðsins. Sífellt kom betur í ljós hversu úrelt hún var, en þó var enn reynt að kreista einn dropa í viðbót úr hönnuninni. Undir stríðslok fór enn eitt afbrigðið í loftið.


K-gerð

K-gerðin fór í loftið síðla árs 1944. Hún var sú tæknilega þróaðasta af Bf 109, og við hönnun hennar nýttu verkfræðingar Messerschmitt sér m.a. reynslu sem þeir höfðu af hönnun Me-262, fyrstu orustuþotu heims. Bf 109K var í útliti illþekkjanleg frá Gústaf, en ef vel var að gáð mátti þó sjá ýmsa straumlínu“slípun”, stélið var t.d. líkt stéli Me 262. Lítið var framleitt af K-gerð, og fékk hún því aldrei viðurnefni sem náði að festast, eins og fyrri gerðir. Hreyfill K-gerðar var með nýrri vatns-metanól innspýtingu, og náði rúmlega 2000 hestöflum.

En þrátt fyrir þetta var Bf 109 almennt orðin úrelt. Í Bretlandi og Bandaríkjunum voru menn farnir að framleiða mun fullkomnari skrúfu-orustuvélar, og í Þýskalandi sjálfu næstu kynslóð orustuvéla, með þotuhreyflum. Árið 1944 hófu Me 262 þoturnar sig til lofts og sönnuðu þegar gildi sitt í bardaga við hina risavöxnu sprengjuflugflota Bandamanna. Þó þær væru of þunglamanlegar til að mæta Mustang, Thunderbolt og Spitfire vélum bandamanna í loftbardaga, gátu þær nýtt sér ótrúlegan hraða sinn og skotkraft til að valda mjög verulegum skaða, og sloppið til að endurtaka leikinn innan nokkurra klukkustunda. Þotur voru greinilega það sem koma skyldi. En það sýnir kannski best hina ótrúlega góðu hönnun Willy Messerschmitts að eftir stríðið var framleiðslu á Bf 109G haldið áfram í nokkur ár, í Tékkóslóvakíu og á Spáni. Þær voru enn nothæfar þar sem engar þotur voru til staðar, t.d. í stríði Gyðinga og Araba fyrir botni Miðjarðarhafs. En það er önnur saga.


Samanburður á E-gerð (1939), og K-gerð (1945)

Vélarafl K-gerðar var nánast helmingi meira en Emils, og hámarkshraði 25% meiri. Auk þess var hún 27% þyngri, þrátt fyrir að vera að mörgu leyti smíðuð úr léttari málmum. Eins og fram hefur komið, hafði K-gerð hinsvegar hvergi nærri þá lipurð sem Emil hafði. Ef ímynda ætti sér bardaga milli þessara tegunda (með jafn-hæfum flugmönnum) hefði K unnið nokkuð auðveldlega, en á hraða og afli, ekki lipurð.


Heimildir:

The Encyclopedia of 20th Century Air Warfare
Ritstjóri Chris Bishop, 2001

The Encyclopedia of Aircraft of WWII
Ritsjóri Paul Eden, 2004


Vona að mönnum hafi líkað lesturinn, og eins og áður sagði, mun ég væntanlega verða með svipaða grein um Supermarine Spitfire innan nokkurra vikna.
_______________________