Að Lenda Flugvél? Sælir Hugarar góðir, ég fann þetta einhversstaðar í tölvunni minni, og las þetta yfir og fannst mjög gaman af þessu. Ákvað að leyfa ykkur líka að njóta þess.


[ Þetta á að vera undir myndinni: Mynd 1: Tækin sem er gott að þekkja eru eftirfarandi: 1: Stýrið, 2: Aðalskjárinn, 3: Varamælar, 4: Autopilot (Sjálfstýring), 5: Bensíngjöfin, 6: Hjól upp eða niður, 7: Stýritölva, 8: Talstöð. ]



Að lenda flugvél fullri af farþegum er mikið ábyrgðarhlutverk. Það hlutverk ætti að vera í höndum flugmanns að öllu jöfnu en þú lesandi góður, hetja hversdagsins, ættir þó með því að fylgja nokkrum einföldum skrefum að geta gert það skammlaust (þegar nauðsyn ber til). Sérstaklega ef þú heldur ró þinni og hefur í huga að himnaríki er alls ekki versti staðurinn til að enda á, þó áfangastaður þinn sé eflaust betri kostur.

Það fyrsta sem þú skalt gera er að koma þér vel fyrir í flugstjórasætinu (Best er að fjarlægja meðvitundarlausa flugstjórann fyrst) sem er vinnustöð þín næstu klukkustundirnar. Þú skalt glöggva þig á stjórntækjum vélarinnar og horfa út um gluggann og dást að útsýninu. Þar sem þú ert konungur/drottning heimsins og trónir langt yfir byggðu bóli þarftu varla aðstoð, en samt skaltu tilnefna þér aðstoðarmann sem svo sest í flugmannssætið (hægra megin). Fyrir framan þig er nú urmull stjórntækja og skemmtilegra hluta.


Fyrst skaltu kynna þér það sem skiptir þig (og samferðarmenn þína) máli, en það eru nauðsynlegustu hlutarnir af stjórn flugvélarinnar. Á mynd 1 eru mikilvægustu tækin merkt. Fyrst skaltu finna stýrið. Það er merkt númer 1 á myndinni. Næst skaltu líta upp fyrir þig. Þar er töluvert magn af stjórntækjum og tökkum. Reyndu að hemja þig í því að leika þér að þeim. Ef þú ert þó svo heppinn að finna hnapp sem á stendur “Seat Belt” skaltu ýta honum nokkrum sinnum fram og til baka. Með því blikkarðu sætisbeltaljósinu og þannig sýnirðu samferðarmönnum þínum, sem auðvitað eru sallarólegir undir öruggri stjórn þinni, að þú ert að vinna þitt verk. Því oftar, því betra.

Á aðalskjánum koma fram hagnýtar upplýsingar, eins og hversu hratt þú ert að fara (í hnútum), hversu hátt uppi þú ert , hvaða átt þú flýgur í og hvernig flugvélin snýr. Þetta er sýnt á mynd 2. Varamælarnir sýna þér þetta líka og svo hefur flugmaðurinn (manstu, þú ert flugstjórinn) annað sett.

Nú getum við hafist handa við það að koma vélinni niður!



Skref 1: Hreyfðu ekki neitt strax. Þegar þú fjarlægir meðvitundarlausa flugstjórann skaltu leggja hann frá þér á góðan stað svo hann vakni ekki með verki ef hann vaknar. Taktu líka heyrnartólin af honum og settu þau á þig. Skildu veskið hans eftir í rassvasanum. Ýttu því næst á hnappinn á stýrinu og segðu í hljóðnemann á heyrnartólunum að þú sért flugvél frá því flugfélagi sem þú flýgur með og vertu einnig búinn að kynna þér flugnúmerið. Milli þess sem þú æpir “Hjálp, við munum deyja” skaltu útskýra aðstæður í hljóðnemann. Nú ertu að tala við flugumferðarstjóra. Talstöðin og sjálfstýringin verða bestu vinir þínir það sem eftir er ferðarinnar.

Skref 2: Farðu eftir því sem þér er sagt. Ef þú færð ekkert svar skaltu finna hnappa á svæði merktu 8 og finna leið til að stilla talstöðina á 121.5. Passaðu þig að stilla þá tíðni sem “Active”, en ekki “Standby”. Kallaðu á hjálp þar til hún fæst og farðu eftir því sem þér er sagt, skiptu um tíðni ef þér er bent á að gera það. Blikkaðu sætisbeltaljósinu nokkrum sinnum og tilkynntu í kallkerfið að allt sé í lagi. Láttu bera fram drykki.

Skref 3: Ef flugvélin er með sjálfvirkri lendingu (Sem þú kemst að í samræðum við flugumferðarstjórn) skaltu slappa af, horfa út um gluggann og gera það sem þér er sagt. Farðu svo yfir í skref 8. Láttu þó fyrst hætta að bera fram drykki.

Skref 4: Þér verður líklega bent á að lækka flugið ef skilyrði eru góð nálægt staðsetningu þinni. Undir sumum kringumstæðum gæti verið betra að halda áfram en það breytir litlu fyrir þig. Þangað til þú byrjar að lækka þig flýgur flugvélin sér að mestu leyti sjálf. Þegar skipunin um að lækka þig kemur skaltu segja sjálfstýringu það með því að snúa hnappi sem merktur er “ALT” á sjálfstýringunni (4). Ekki reyna að hreyfa stýrið neitt. Ef flugvélin fer að hraða of mikið á sér skaltu tryggja að kveikt sé á A/T og AS/MACH sé stillt á t.d. 250. VERT SPD á ekki fara yfir -1800. Ef hún hraðar samt á sér skaltu slökkva á A/T og lækka aflið með því að draga bensíngjöfina(5) aftur á bak rólega þar til þú færð tilfinningu fyrir breytingunni. Lestu þetta nokkrum sinnum yfir og vertu viss um að hafa skammstafanirnar á hreinu!

Skref 5: Farðu að hlusta á upplýsingar um hvert þú átt að fljúga. Stilltu HDG á sjálfstýringunni eftir því sem þér er sagt gegnum talstöðina. Reyndu að hægja á vélinni. Þegar sjálfstýringin er á gerirðu það með því að minnka aflið eða stilla AS/MACH lægra. Passaðu þig þó að láta hana ekki fara of hægt (undir 150 hnúta, fáðu leiðbeiningar). Ef þú ert kominn undir 10000 fet máttu ekki fara hraðar en 250. Blikkaðu nú sætisbeltaljósunum nokkrum sinnum. Láttu hætta að bera fram drykki.


Skref 6: Nú spólum við áfram þar til þú ert búinn að fara að leiðbeiningum flugumferðarstjórnar og þú ert um 15km frá flugbrautinni í sæmilega rétta stefnu. Nú ættirðu að vera í um 3000 feta hæð og á hraða um 160 (mælieiningin er hnútar). Passaðu að hraðinn aukist ekki og settu “flaps” niður í 15 (lítil stöng við hliðina á bensíngjöfinni). Settu niður hjólin með nr. 6. Settu autobrake á “3” eða “MAX”. Blikkaðu sætisbeltaljósunum. Á mörgum flugvöllum (og flestum sem þú myndir vera sendur á) er lendingarkerfi og þú þarft að spyrjast fyrir um hvernig þú átt að ná sambandi við það. Eftir það geturðu fylgst með merkingum, líklega tveim strikum, lóðréttu og láréttu, á aðalskjánum. Haltu þeim í plús á miðjum skjánum með því að hreyfa stýrið (Eftir að hafa slökkt á sjáfstýringunni) mjög lítillega til hægri eða vinstri eða auka og minnka aflið. Til að gera smávægilegar láréttar leiðréttingar geturðu líka notað fótstigin. Allt þetta þarf að gerast mjög hægt og rólega. Litlar hreyfingar eru lykilatriði. Haltu áfram að láta flugvélina lækka sig. Ef hún lækkar sig of hratt auktu þá aflið og öfugt ef hún lækkar sig of hægt (hér stýrirðu hraðanum með því að færa stýrið upp og niður og hæðinni með bensíngjöfinni). Haltu merkjunum á skjánum réttum en fáðu líka leiðbeiningar um hvernig þú fylgist með ljósunum við flugbrautina (Þó tækin séu skemmtileg er glugginn líka gagnlegur). Settu flaps á 30. Blikkaðu nú reykingaljósunum.

Skref 7: Þegar þú kemur yfir flugbrautarendann skaltu slökkva á aflinu, draga stýrið örlítið til baka svo nefið á vélinni snúi örlítið upp og láta flugvélina detta rólega niður á flugbrautina. Þegar lent er skaltu ýta með báðum fótunum á efri hlutann á pedulunum (báða jafnmikið í einu) og bremsa þannig vélina. Ef þér var kennt að bremsa með hreyflunum, gerðu það.

Skref 8: Stígðu eins og hetja út úr stjórnklefanum, horfðu yfir farþegarýmið og láttu rigna yfir þig þökkum. Best er að taka hattinn af flugstjóranum, setja hann á hausinn á þér, lyfta honum svo aðeins upp, blikka og brosa út í annað. Því næst væri hollast að fara úr skónum og stökkva niður hina ágætu rennbraut sem blæst út þegar þú opnar hurðina. Sýndu að lokum hógværð og lítillæti í þeim fjölmiðlaviðtölum sem tekin verða við þig og segðu “Ég var aðeins að vinna borgaralega skyldu mína”. Keyrðu því næst heim á rauðum blæjubíl með ungri flugfreyju eða ungum flugþjóni, eftir smekk.

Skref 9: Vertu ánægð(ur) með sjálfa(n) þig það sem eftir er ævinnar. Talaðu við hvert einasta tækifæri um þetta með mikilli tilfinningu og notaðu setninguna “Ég gerði náttúrulega svo það sem varð að gera, settist í flugstjórasætið og lenti svo bara rellunni”. Taktu við fálkaorðunni.
stjórnandi á /bretti, /vetraríþróttum og /heimilið