Fyrsta sólo Ég er vanur að skilar hingað af mér greinum byggðar á staðreyndum. Núna á dögunum hinsvegar fór ég í s.k. “progress check” eða verklegt próf fyrir sólópróf. Fyrsta sólo er öllum flugmönnum ógleymanlegt og með þessari hugleiðingu (frekar en grein) rifja eflaust margir upp sitt fyrsta sólo ;)

Það var ekki laust við að ég væri með smá fiðring í maganum, enda langþráður draumur að fljúga. Ég hef flogið mikið í flughermum og það hefur skilað sér beint í raunveruleikann því ég var með 13,5 tíma áður en ég fór í prófið (lágmark 14). En hvað um það, um kl 22:30 mætti ég út á völl. Veðrið hafði verið leiðinlegt um dagin, sunnan rok og skúrir en nú hafði létt til og komin rjómablíða. Ég gerði vigtaskýrslu (load sheet) og fyrirflugsskoðaði vélina. Ég tók niður ATIS: 13 í notkun, vindur 160/8 og léttskyjað í 2600'. Prófdómarinn sá um að tanka en ég hringdi í turninn: “Góða kvöldið, flugplan fyrir Friðrik Teit Einar, Suðursvæði og snertilendingar í Keflavík í 2, flugþol 4 og 10 og við erum tveir um borð”.

Við röltum út í vél og ekki laust við að ég væri smá stressaður. Ég fór yfir tjékklistan eins og vera ber, lykillinn í, master á og svo start!. Runup-ið gékk snurðulaust fyrir sig og ekkert annað en að kalla í turn

-“Reykjavík turn góða kvöldið, FTE vestan við skýli 8 og tilbúinn að aka með upplýsingar Tango”-
-“FTE brautarstaða 13 og aka 31”-

Ég vandaði mig eins og ég gat og reyndi að hafa allar hreyfingar öruggar og fumlausar.

-“FTE vindur 160/7 heimilt flugtak braut 13 og leið 6 út”-
-“Heimilt flugtak braut 13 og leið 6 FTE”-

Þá var bara druslan botnuð: power set, airspeed alive, 55 og rotate. Passa hraðan, halda 70, vélin full þung, enda tankarnir fullir. 500 fet og hægri beygja í átt að Garðakirkju. Ég passaði mig á að halda 1000 fetum upp á millimeter. Fór yfir cruise cheklist og leanaði blönduna.

Í suðursvæði var komið að alvöru prófinu. Dómarinn dró “þrottluna” út. “Mótorinn farinn, hvað ætlau að gera?” Ég fór eftir ferlinu og ákvað að lenda á Höskuldarvöllum. Reyndar hafði þetta klikkað í tímum, þá hafði ég reynt að lenda á kvartmílubrautinni en alltaf verið of hátt. Núna var allt annað upp á teningnum og aðflugið var perfect. “Go-around” kallaði dómarinn og þá var bara full power, flapar upp í 20° og klifrað á 55. Ég klifraði upp í 2000' þar sem stollin voru prófuð og 45°beygjur. Síðan var það bara Keflavík.

-“Keflavík góða kvöldið, FTE yfir Kúagerði að koma inn fyrir snertilendingar”-
-“FTE góða kvöldið, leið 6 fyrir 20, fljúgðu vestur yfir brautina til að koma hægri handar undan vindi, QNH 1008 og kalla yfir Patterson”-
-“leið 6 fyrir 20, QNH 1008, fljúga vestur yfir og kalla yfir Patterson, FTE”

Yfir Vogum var ágætis skúr og var ég því á varðbergi fyrir blöndungsísingu. Yfir Patterson kallaði ég í turninn og var númer 1 fyrir 20. Núna var komið að því, nú varð ég að sýna að ég gæti lent almennilega. Það hafðist og eftir 2 lendingar spurði dómarinn hvort ég gæti flogið einn. Ég játti því og vissi ekki að hann væri að meina núna. Hjartað tók því kipp þegar hann spurði turninn hvort það væri ekki heitt á könnunni hjá þeim. Ég lenti og dómarinn fór út úr vélinni.

Nú stóð ég á eigin fótum. Ég fékk akstursheimild og byrjaði að aka. Fyrsta skipti sem ég sat aleinn í flugvél sem hreyfðist.

-“FTE vildu ekki bara fá 29 í loftið og taka svo hægri beygju fyrir 20?”-
-“Það væri fínt takk, FTE”
-“FTE vindur 210/5 heimilt flugtak braut 29”
-“Heimilt flugtak braut 29 FTE”-

Ég fraus, vissi ekkert hvað ég átti að gera, horfði bara á mælaborðið eins og algjör gufa og langaði helst að fara heim til mömmu. NEI ég kom mér í þessa vitleysu og ég verð að klára hana. Koma svo, full power, power sett, airspeed alive, 55!!! Ég flaug. Einn. Aleinn. Enginn kennari. Enginn til að treysta á nema ég. Eftir mörg ár var draumurinn orðinn að veruleika. Ég hugsaði um öll þau skiptin sem ég hjólaði út á völl til að skoða flugvélar, öll þau skipti sem ég flaug í tölvunni heima og lét mig dreyma. Nú hafði hann ræst, frjáls eins og fuglinn tók ég hægri beygju og verkjaði í kinnarnar undan brosinu.

-“FTE vindur 210/5, heimil snertilending braut 20.”-
-“Heimil Snertilending braut 20 FTE”

Okey, hvernig var þetta? þvert af braut: carb heat út og 1600 rpm. flapar 10. þverleggur og flapar 20. Passa hraðan. Úps full hátt. Dreg aðeins af henni. Svona, kominn á slópið. Flapar 30. Sjitt kominn á 60, gef inn, ok 65 það er í lagi. Kominn inn yfir endann, dreg allt af og lét hann síga aðeins. Ekki flair-a of senmma, aðeins nær, aðeins nær, aaaaaðeins nær, okey toga létt í stýrið, aðeins meir, pííííiínu meir TOUCHDOWN!!! þvílík lending!!! örugglega besta lending sem sést hefur. Ekki gleyma mér, flapar upp, carb heat inn og full power. Farinn að fljúga aftur. Halda 70 og hægri beygja í 500'. 3 svona lendingar enn og ég náði í dómarann.

Á leiðinni í bæinn gat ég ekki beðið eftir að fara fljúga aftur einn og vera loksins eigin herra. Við lentum í bænum um kl 00:30. Þegar við vorum að ganga frá vélinni sé ég mér til mikillar undraunar foreldra mína ásamt mági með myndavélina á lofti. Þau höfðu séð mig fara loft fyrr um kvöldið og beðið eftir mér allan tímann!! Það besta var að mágur minn náði lendingunni á tape :D Ég náði prófinu og því bíður mín ekkert nema stefnumót við himininn.
www.fly.is