Ég var að lesa frétt um dóma sem felldir hafa verið yfir ábyrgðaraðilum í flugslysinu á Linate flugvellinum í Milano, þar sem SAS vél fórst og alls 118 manns fórust. Ég sá líka heimildarþátt um slysið þar sem aðdragandanum að slysinu var lýst í þaula og þykir ekki furða að flugvallarstjórinn, flugumferðarstjórinn hafi verið dæmdir til 8 ára fangelsisvistar auk tveggja starfsmanna flugvallarins sem voru dæmdir í 6 og hálfs árs fangelsi. Fleiri bíða dóms.

Þær spurningar um öryggi sem flugslysið vakti komu aðeins of seint fyrir þá 118 sem létust og fjölskyldur þeirra. En því miður þarf það oft að kosta mannslíf til að öryggisþættir séu teknir til athugunar. Mér kemur oft til hugar ráðlegging fyrsta flugkennarans míns í Bandaríkjunum sem sagði “when something seems wrong, it probably is.” Ábyrgð okkar sem vinnum við flug takmarkast ekki bara við okkur sjálf. Ef við bregðumst hlutverki okkar sem við höfum tekið við sjálfviljugir getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér - og þá er ég ekki bara að tala um fangelsisdóma, heldur dauða.

En auðvitað eru skiptar skoðanir um réttlæti þess að ganga eftir stjórnendum eins og ítölsku saksóknararnir gera í þessu tilfelli. Hvað finnst ykkur? Það væri gaman að koma af stað smá skoðanaskiptum á þessu.

En samt er tilgangnum náð hjá mér með þessum litlu greinarskrifum (sem kunna að virðast sentimental) ef þú ferð aðeins betur í gegnum tékklistann, aðeins betur í gegnum fyrirflugskoðunina og tekur ákvörðun um go-around frekar en að tefla á tæpasta vað. Auðvitað verður okkur öllum á, en látum reynsluna gera okkur ríkari.