Icelandair kynnti ný fargjöld til fimm áfangastaða félagsins, Glasgow, London, Kaupmannahafnar, Berlínar og Hamborgar. Um er að ræða svokallaða Netsmelli, fargjöld sem aðeins fást á Internetinu. Lægsta smellfargjaldið til Glasgow verður aðeins kr. 14.490, báðar leiðir með sköttum, og til London, Kaupmannahafnar, Hamborgar og Berlínar 16.900 kr., báðar leiðir með sköttum.

Þá býður Icelandair pakkafargjald fyrir fjóra, tvo fullorðna og tvö börn, til Kaupmannahafnar, London og Glasgow með bílaleigubíl í eina viku á kr. 19.900 pr. einstakling.

Nú er spurningin, hver er raunverulegur tilgangur þessarar lækkunar? Er þetta gert til að gera út af við samkeppnina,Iceland Express, í eitt skipti fyrir öll? Er tilgangurinn að fæla félög eins og Ryanair frá íslenska markaðnum eða hefur Icelandair tekist að hagræða það mikið að þeir treysta sér til að bjóða lægri fargjöld en áður? Er kannski um að ræða örfá sæti í hverri vél, því það kemur hvergi fram. Hvað finnst ykkur Hugverjum um þessa þróun mála?

Sjálfur fagna ég þessu og vona að spár Ferðamálaráðs um að rúmlega 320 þúsund ferðalangar komi í heimsókn á árinu standist því það er ekki einungis landinu öllu til hagsbóta, heldur sérstaklega þeim sem vinna við flug. Þá er sama hvort um er að ræða áhafnir farþegaflugvéla eða þá sem fljúga með útlendingana í útsýnisflugum. Allir hagnast.

Hvað finnst ykkur um fargjöldin?