Eftir þær endurbætur sem staðið hafa yfir undanfarin ár af hinum færustu mönnum á sínum sviðum er Reykjavíkurflugvöllur orðinn sannkallað augnakonfekt.

Grænu svæðin minna fremur á fyrstaflokks golfvöll heldur en á flugvöll og gaman verður að sjá hvernig þau munu koma undan vetri.

Taxarnir alfa og golf skarta sínu fegursta, nýmalbikaðir og fínir. Og eftir að Golf var breikkaður nú þarsíðasta sumar er hann stoltasti taxinn á flugvellinum. Uppáhalds taxinn minn hefur þó löngum verið Charlie, enda Charlie Sheen minn uppáhalds leikari. Margir gætu einnig nefnt Foxtrott í þessu samhengi en þeim sömu mönnum er mjer ánægja að tilkynna að ég hafði mjög gaman af því að búta hluta af honum í spað, sumarið sem leið.

Glidedslope-ið ber við himinn sem trúarlíkneski og gætir öryggis þeirra sem lenda á 19. Sannkallað gleðiefni var svo í sumar þegar nýjum stefnuvita var komið fyrir á 31, en það er nokkuð sem margir hafa beðið spenntir eftir.

614 sinnir því þarfa hlutverki að kanna brautirnar í leit að grjóti eða dauðum fuglum auk þess sem hann hrekur í burtu þau börn sem kunna að hætta sér inn á flugvallarsvæðið.

Flugfélagi Íslands óska ég svo til hamingju með hliðið sitt græna og aðkomuveginn breiða að skýli 4. Einnig hafa þeir flugfélagsmenn á sínum snærum niðurfall nokkuð sem lætur kanske ekki mikið yfir sér, en hirðir þó vatnið af öllu hlaðinu þeirra.

Það er margt fallegt á Reykjavíkurflugvelli.
Og að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.