Ég gerði ritgerð í fyrra í skólanum sem fjallaði um Airbus. Ég fékk talsvert af upplýsingum héðan frá ykkur á síðunni og langaði því að pósta allri ritgerðinni inn í ljósi þess að þessi hluti Huga er orðinn frekar dauður. Það kunna að vera einhverjar staðreyndavillur í ritgerðinni, en við gerð hennar er tekið mið af því að kennarinn veit lítið sem ekkert um flugvélar.



Saga Airbus:

Saga Airbus flugvélaframleiðandans er eitt besta dæmið um velgengni í viðskiptasögu Evrópu. Saga fyrirtækisins nær aftur til ársins 1967 en þá var mönnum orðið ljóst að Evrópumenn gætu aldrei náð Bandaríkjamönnum í framleiðslu á farþegaþotum nema með samvinnu nokkurra landa. Með því að sigrast á landfræðilegri skiptingu, deilingu á þróunarkostnaði og með því að vinna saman að því að ná stórri markaðshlutdeild tókst Airbus að breyta flugvélamarkaðnum.
Áður en ég segi ykkur nánar frá Airbus ætla ég að segja ykkur frá samvinnu flugvélaframleiðenda í Evrópu.
Upphaf Evrópusamvinnu á flugvélamarkaðnum hófst á Spáni í kringum 1930. Þá gerði spænska fyrirtækið CASA. (Construcciones Aeronautica SA.) samninga við þýska fyrirtækið Dornier um að CASA myndi framleiða undir merkjum Dornier flugvélar sem gætu lent á vatni. CASA fór því næst að vinna með frönskum yfirvöldum að gerð herflugvélar sem heitir Bréguet XIX. Árið 1963 kynntu Þjóðverjar og Frakkar afrakstur samstarfsverkefnis þeirra. Þetta var flutningaflugvél sem bar heitið Transall. Á sama áratug kynntu síðan Bretar og Frakkar áætlanir sínar um samvinnu að gerð Concorde flugvélarinnar sem allir ættu nú að þekkja.
Á þessum tímum vann CASA mikið með þýsku fyrirtæki sem hét Messerschmidt-Bölkow-Blohm, en það fyrirtæki er yfirleitt bara kallað Messerschmidt í daglegu tali. En árið 1989 keypti Daimler-Chrysler þetta fyrirtæki og hét það til ársins 2001 DASA (DaimlerChrysler Aerospace SA). Árið 2001 sameinuðust CASA, DASA og franskt fyrirtæki sem heitir Aerospatiale Matra SA. í eitt fyrirtæki sem heitir í dag EADS (European Aeronautics, Defence and Space company).
EADS var um áramótin 2001-02 í sæti númer 81 yfir stærstu fyrirtæki í heimi. Þeir eiga stóra hluti í hinum ýmsu fyrirtækjum sem starfa í flug, varnarmála og geimferðabransanum.
EADS, er í dag 80% hluthafi í Airbus, hin 20% á breski flugvélaframleiðandinn British Aerospace).

Núna ætla ég að segja ykkur aðeins frá helstu afurðum fyrirtækisins.
Helstu afurðir fyrirtækisins

A300B:
Árið 1969 var haldin gríðarstór flugsýning í París í Frakklandi. Á þessari sýningu var fyrsta vél Airbus afhjúpuð og síðar á flugsýningunni tók hún á loft í sitt júmfrúarflug. Þessi fyrsta vél Airbus verksmiðjanna heitir A300B. Þetta var tveggja hreyfla þota sem bar 226 farþegar. Ári seinna bað Air France, fyrsti viðskiptavinur Airbus um að Airbus myndi framleiða þessa sömu vél, bara aðeins lengri og tók hún alls 250 farþega.

A320:
Næsta flugvél sem Airbus hannaði hét A320 og var byltingakennd flugvél árið 1984, þegar hún var fyrst framleidd. Hún var fyrsta flugvélin í þrjátíu ár þar sem hver einasta skrúfa var endurhönnuð. Breytingarnar lágu fyrst og fremst í meiri vinnslu í hreyflum vélarinnar sem gerði það að verkum að rekstrarkostnaður flugfélaganna lækkaði mikið auk þess sem að Airbus gerði mikið úr hönnum farþegarýmisins sem var það þægilegasta sem menn höfðu séð. Í erfiðleikum kreppunnar í Evrópu um miðjan níunda áratuginn reyndist þessi flugvél hagkvæm lausn fyrir mörg flugfélög vegna þess hversu lágur rekstrarkostnaðurinn var. Enn í dag er þessi flugvél sú mest selda í sögu Airbus. Þann 2. janúar í ár skrifaði breska flugfélagið EasyJet undir samninga við Airbus um kaup á 120 flugvélum að gerðinni A319 sem er mjög svipuð A320 vélinni. Virði þessa samnings er talið vera um 6 milljarðar dollara, eða um 500 milljarðar íslenskra króna.

A340:
Árið 1987 varð Airbus-mönnum ljóst að flugvélaiðnaðurinn var orðinn svo blómlegur að tími var kominn til að smíða stærri flugvélar. Þeir réðust því í framleiðslu A340. Þessar vélar höfðu einnig það forskot á aðrar vélar á markaðnum að rekstrarkostnaður þeirra var ekki eins hár og á öðrum jafn stórum vélum. Þessi flugvél kom á markaðinn árið 1993 og varð fljótt gríðarlega vinsæl, sérstaklega á lengri flugleiðum.

A380:
Í desember árið 2000 greindi Airbus frá því að þeir ætluðu að ráðast í gerð stærri þotu heldur en hefur nokkrun tíma sést fyrr. Hún mun bera nafnið A380 og mun þessi vél geta tekið 555 farþega í sæti sem hægt er að raða á tvær hæðir. A380 vélinni er einkum ætlað að keppa við breiðþotur eins og Boeing 747, sem margir þekkja einnig undir nafninu Jumbo. Airbus fullyrðir að þessi þota eigi að nota minna eldsneyti, sem þýðir jafnframt minni hávaði auk þess sem þeir stefna að því að minnka útblástur talsvert. Ef að þeim tekst þetta þá er gert ráð fyrir því að rekstrarkostnaður þessarar vélar eigi að vera allt að 10-15% lægri en annarra sambærilegra véla. Vinsældir þessarar vélar virðast eiga eftir að vera töluverðar, því að þó svo að engin þessara flugvéla sé komin í notkun núna hafa engu að síður 95 verið pantaðar. Þar af pantaði ríkisflugfélag Sameinuðu arabísku furstadæmanna 7 vélar.
(Ég reyndi að senda mynd með þessari grein, ef það tókst þá má glögglega sjá stærð vélarinnar við hliðina á þessari B737-500 vél (sýnist mér)).

Þetta eru aðeins helstu vélarnar sem Airbus hefur sent frá sér. Airbus hefur meðal annars afrekað það að hafa framleitt ljótustu flugvél sem ég hef nokkurn tíman séð, en hún heitir A300-600ST og ber hún gælunafnið Beluga. Nafnið Beluga kemur úr líffræði og táknar hvíti hvalurinn. Þessi vél ber þetta nafn vegna þess að hún er í laginu eins og hvalur. En tilgangur þessarar vélar er fyrst og fremst að flytja hluti frá verksmiðjum Airbus í Hamburg í Þýskalandi þar sem að þeir eru framleiddir til Toulouse í Frakklandi þar sem að vélar fyrirtækisins eru settar saman. Þessi vél hefur einnig verið notuð í sérverkefni fyrir ýmis fyrirtæki og millilenti einmitt ein af 5 svona flugvélum sem til eru í heiminum hérna á Íslandi í september. Þn þá var hún í sérverkefni fyrir NASA og fór með risasjónauka frá Skotlandi til Thule á N-Grænlandi.



Hvar liggur forskot Airbus?:

Fly-By-Wire er búnaður sem að Airbus hannaði alveg frá grunni. Hann gerði þeim kleyft að fjarlægja stóran, þungan og fyrirferðamikinn búnað úr vélum sínum eins og t.d. stýrið. Í stað þess hafa þeir sett í vélarnar joystick sem tengt er með vírum í stýrispjald vélarnar sem sendir boð til viðeigandi stjórntækja um hvernig þau eigi að bregðast við boðunum.
Þetta skipar töluverða hagkvæmni fyrir flugfélög og gæti verið þess valdandi að flugfélög kjósi Airbus vélar fram yfir vélar annara fyrirtækja. En hvernig skildi standa á því? Ef að flugmenn taka námskeið sem heitir MFF (Mixed Fleet Flying) í flugskólum Airbus þá geta flugmenn náð sér í réttindi til þess að fljúga öllum Airbus flugvélum sem hafa þennan Fly-By-Wire stýribúnað.



Airbus starfar um allan heim:

Airbus hefur aðstöðu á meira en 150 stöðum um allan heim. Þar á meðal eru um 16 staðir í Evrópu þar sem að Airbus hannar, smíðar, setur saman og prófar vélarnar sínar. Til viðbótar við allt sem þeir framleiða sjálfir hafa þeir um 1500 birgja um allan heim. Þar af eru um 800 birgjar á N-Ameríku. Fyrsta hönnunarstofa Airbus utan Evrópu var opnuð í Kansas í Bandaríkjunum í júní árið 2002. Þeir vinna þar að hönnun og þróun vængja A380 flugvélarinnar, en þeir vinna náið með verksmiðjum fyrirtækisins í Filton í Bretlandi. Í Miami í Florida rekur Airbus starfsþjálfunarstöð sem kostaði fyrirtækið $50m og útskrifast um 3000 áhafnarmeðlimir frá þessari 100.000 fermetra þjálfunarstöð á hverju ári. Starfsemi Airbus í Austurlöndum fjær er ekki mikil enn sem komið er. En í Kína eiga þeir um 5000 fermetra stóran varahlutalager sem er sá stærsti sem þeir eiga.

En eins og áður segir fer stærstur hluti starfsemi Airbus fram í:

Þýskalandi (Hamburg, Bremen, Nordenham, Stade, Varel, Laupheim, Buxtehude)
Frakklandi (Toulouse, St. Nazaire, Nantes, Méaulte)
Bretlandi (Filton, Broughton)
Spáni (Getafe, Illescas, Puerto Real)

Hvað aðgreinir Airbus þotur frá öðrum þotum

Airbus í dag

Í dag starfa yfir 45.000 manns hjá Airbus um allan heim…
Í dag eru yfir 2.700 Airbus-flugvélar í rekstri…
Í dag er velta Airbus um 20.5 milljarðar evra á ári
Í dag hafa Airbus borist 4557 pantanir
Í dag hefur Airbus afgreitt 3089 flugvélar til 184 flugfélaga.