Eins og við vitum þá lenti Twin Comanche vél í vandræðum síðasliðinn sunnudag. Ég ætla ekki að dæma hvort mikil hætta hafi verið á ferðum eða hvað í raun gerðist. En ég veit að nú munu “flugvallaróvinir” taka upp á því að fara með allskonar þvæling á stað t.d. “Foreldrar mega ekki hleypa börnum sínum út í garð án þess að eiga þá hættu að flugvél lendi á þeim, flugvöllurinn verður að fara”. Samgönguráðherra sagði í Morgunblaðinu þann 1. júlí sl. “Það er auðvitað hætta sem fylgir öllu flugi”.

Að mínu mati fylgir hætta öllum samgöngum, í sumum tilvikum meiri og sumum minni eins og í fluginu. Því finnst mér fáranlegt, að um leið og einhver atvik gerast í fluginu, séu þau dregin upp á yfirborðið og stórlega ýkt í sumum tilfellum. Hvað ætli að það verði mörg atvik í umferðinni á hverjum degi þar sem illa hefði getað farið? Afhverju eru þau ekki sett í blöðin? Mér finnst ekki skrítið að fólk fyllist ranghugmyndum um flug, miðað við hvernig atvik og flugslys eru dregin upp í fjölmiðlum.

Á meðan ég var að skrifa greinina hér af ofan datt ég fyrir tilviljun á eitthvað blogg sem www.visir.is leiddi mig inn á og vitir menn sjáið hvað fólk er að tala um:

30.06.03 - Það gleður mitt litla hjarta! …og meira um flugvöll.

Já þau gleðja mitt litla hjarta - öll þessi litlu smáatriði.. Smá þáttaka í spjallinu mínu, ein og ein athugsemd frá lesendum. Ég er ánægð með að einhver hefur gaman af þessu.. og það er hvetjandi fyrir mig .. og vonandi Döddu líka að halda áfram að pæla á bloggi Hugskots.

Þetta með flugvallarmálið er mér mjög ofarlega í huga.. ég fer töluvert víða á hjólinu mínu og verð stundum fyrir árás flugvéla…. Um daginn var ég á leið út í Skerjafjörð eftir göngu- og hjólastígnum. Ég var stödd rétt við Starhagann og var að horfa á móður með barn á rölti af leikskólanum áleiðis út í Skerjafjörð um leið og ég mætti hlaupara - móðum og másandi.
Skyndilega voru ræstir hreyflar á flugvél sem stóð örfáa metra frá mér rétt handan við girðinguna. Það hafði verið þurrt í nokkra daga og flugvélin hreinsaði á einu andartaki burt hvert einasta rykkorn í nágrenni flugbrautarinnar og blés þeim öllum af miklum krafti á okkur sem höfðum engan möguleika á að forða okkur úr rykskýinu. Barnið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.. fór að gráta og leit forviða á mömmu sína. Hlauparinn greip andann á lofti, en neyddist fljótlega til að anda aftur enda móður og másandi.. og fékk ofboðslegt hóstakast í kjölfarið. Ég gretti mig, reyndi að anda ekki um stund, pírði augun og steig pedalana eins hratt og ég gat og æddi í gegnum mökkinn.
Þetta var vægast sagt ógeðsleg upplifun, en samt bara smáatriði miðað við lífshættu Reykjavíkurbúa og nágranna að hafa þessa vá fyrir dyrum.
Þetta skrifaði: hugskot :: kl: 19:00 þann 30.06.03
Hvað er þitt álit? [ 0 ] :: Senda þennan pistil í tölvupósti


30.06.03 - Óstaðfest tala látinna í Þingholtunum!

Flugvél villtist af leið í lélegu skyggni og náði rétt að sveigja framhjá turni Hallgrímskirkju. Þannig hljómar fréttin í dagblöðunum í dag. Tveir Norðmenn voru á flugi með ranglega stilltan aðflugsbúnað. Þeir náðu svo rétt að tylla sér á flugbrautina, en ekki að lenda og drifu sig á loft aftur. Þeir voru svo skelkaðir, væntanlega, að þeir reyndu ekki lendingu aftur fyrr en hálftíma síðar, þegar þeir voru búnir að jafna sig eftir áfallið og hættir að skjálfa.

Er ekki ljúft að búa í Þingholtunum.. með flugvélagnýinn í eyrunum stærstan hluta sólarhringsins? Eða í norðurhlíðum Kópavogs þar sem drunurnar yfirgnæfa spjall nágranna yfir grindverkið, og jörðin hristist og skelfur í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Hvernig er að búa í Skerjafirðinum í beinni aðflugslínu flugvéla sem eru að lenda í fárra metra fjarlægð frá húsunum. Vélin er komin helv. lágt svo nálægt lendingarstað. Eða þegar flugvélarnar fljúga í lágflugi yfir Austurvöll og Alþingishúsið… beint yfir hjarta miðborgarinnar. Er þetta eitthvert vit?

Fyrir örfáum árum gat vél ekki stöðvað í lendingu og keyrði út á miðja Suðurgötu. Mesta mildi var að enginn bíll var á ferðinni og enginn fótgangandi. Oft hafa bilaðar vélar komið inn til lendingar, annar hreyfillinn dauður.. hikstandi og kraftlitlar fljúga þær inn til lendingar.

Mikið óskaplega höfum við borgarbúar verið heppnir. Ætli lánið leiki við okkur um alla framtíð. Hver ætti svo sem að halda vernarhendi yfir borginni? Ef við erum svo vitlaus að bjóða hættunni heim, kemur að því að hún bankar á dyr.. jafnvel harkalega.
Frétt af slíku gæti hljómað í þessum dúr:
Flugvél hrapaði í Þingholtunum, eldur laus í fjölmörgum húsum og bílum við Laufásveg og Bergstaðastræti.. Brak úr vélinni dreifðist út um allt.. fjölmargir slasaðir en ekki staðfest tala um fjölda látinna.

Það á ekki að vera með flugvöll í miðri Reykjavík!
Það er eitthvað til sem heitir:
“fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir slys”!
Þetta skrifaði: hugskot :: kl: 8:38 þann 30.06.03
Hvað er þitt álit? [ 1 ] :: Senda þennan pistil í tölvupósti

Tilvitnun http://www.upsaid.com/hugskot/

Ég fyllist mikillar reiði við að lesa svona.

FLUG