Það brennur greinilega margt á ákveðnum pennum huga/flugs þessa dagana, eins og reyndar þjóðinni allri.


Í dag (6.maí) birtist grein í Morgunblaðinu eftir Örn Sigurðsson arkitekt, bls. 37 titluð “Að missa flugið”

Ekki veit ég hvað þessum ágæta arkitekt gengur til en greinin er “out of this world”, vitleysan er svo yfirþyrmandi.


Þessi “grein” er einshverskonar andsvar við grein Sigurðar Ásgeirssonar þyrluflugmanns. Grein Sigurðar birtist í MBL 1.maí s.l.


Örn Sigurðsson segir “Ekki má áfellast hann fyrir skilningsleysi á borgarskipulagi en gera verður þá lágmarkskröfu að hvorki sé litið fram hjá skýrum röksemdum né vikið til hliðar víðtækum almannahagsmunum”

Fyrr má nú aldeilis vera! Hvað gengur þessum manni eiginlega til?

Einnig segir Örn að ríkið beiti ofbeldi og valdníðslu til þess að viðhalda flugstarfsemi í miðborg Reykjavíkur.
Þetta eru ansi alvarlegar ásakanir, en órökstuddar, það mætti halda að þessi arkitekt væri í framboði fyrir Samfylkinguna.


Enn heldur vitleysan áfram, Örn segir : “Fyrir andvirði Siglufjarðarganga, 7 milljarða, má byggja góðan innanlandsflugvöll utan byggðar á höfuðborgarsvæðinu eða reisa flugstöð í Keflavík og fá nokkrar júmbóþotur í kaupbæti”

Hvar sér arkitektinn fyrir sér 7 milljarða flugvöll utan byggðar á höfuðborgarsvæðinu, Sandskeið kannski?, ég held ekki.
Og hvað á hann við með “flugstöð í Keflavík” og “nokkrar júmbóþotur í kaupbæti” fyrir 7 milljarða. Ætli hann meini að þessar júmbóþotur komi alltíeinu til Íslands með þúsundir ferðamanna af því að það væri svo góð flugstöð í Keflavík? Eða meinar hann kannski að við fáum júmbóþoturnar, hann segir nú einusinni “í kaupbæti”.

Mig grunar a.m.k. að krónan þyrfti að styrkjast um nokkur þúsund prósent til þess að við gætum reist flugstöð og fengið “nokkrar júmbóþotur” fyrir 7 milljarða.


Einnig hvetur Örn flugsamfélagið til þess að “losa sig við duglausa og þröngsýna forkólfa”.

Hann er þá að tala af mikilli lítilsvirðingu og hroka niður til flugmanna á Íslandi.

Allir flugmenn, kennarar, flugumferðarstjórar og fleiri fagmenn sem ég hef talað við vilja Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er í dag. En hvað um þá, þeir eru bara “duglausir og þröngsýnir forkólfar”.


Ég held að Örn Sigurðsson arkitekt ætti að snúa sér að einhverju öðru, hann hefur greinilega ekkert vit á flugmálum og skipulagi en leyfir sér samt að tala niður til flugstéttarinnar á Íslandi með þessum óbeina hætti.


Ég hvet alla til þess að lesa þessar greinar, grein Sigurðar Ásgeirssonar í MBL 1.maí og grein Arnar Sigurðssonar í MBL 6.maí.

Munurinn á greinunum er þó sá að annar veit um hvað hann er að tala en hinn ekki.



Árni Þorbjörnsson