Ég var að gera verkefni í Fjölmiðlafræði hér við Menntaskólann á Akureyri. Datt í hug að leyfa ykkur að sjá og gefa einhverja dóma.
________________________________________________ ___________________

Hernaðarbrölt yfir Akureyri
Mannvernd eða pólitík?

Einn daginn sit ég yfir morgunverði og glugga í Morgunblaðið, þar rekst ég á hálfsíðu grein eftir pirraðann og fúlann Akureyring. Þessi maður sem er örugglega ágætis grey er í þessari grein að mótmæla flugi herflugvéla yfir höfustað norðursins, Akureyri. Greinin er tilfinningaþrungin lýsing á þeirri “lífsreynslu” sem hann og hans fjölskylda verða fyrir í hvert skipti sem herþotur koma nálægt bænum. Maðurinn segir frá því hvernig hann getur ekki hugsað sér að búa hér á Akureyri lengur vegna ítrekaðra heræfinga yfir bænum. Mat mitt er ekki alveg hlutlaust þar sem ég er einkaflugmaður sjálfur og mikill áhugamaður um flug af öllu tagi. Ég veit um fullt af fólki sem eru engir sérstakir áhugamenn um flug en finnst mjög gaman að sjá þessar vélar koma hingað. Ég viðurkenni alveg að þetta eru ekki hljóðlátustu vélar sem til eru, en fyrr má nú vera að svo stór orð séu notuð, að ein svakalegasta lífsreynsla sem hægt sé að hugsa sér er sú að þessar vélar koma hingað og staldra við í um það bil 8-15 mínútur í senn.
Það er ekki eins og þær séu að koma um miðja nótt heldur um hábjartann dag þegar flestir eru í vinnu. Ekki var þessi grein í Morgunblaðinu allt, heldur þurftu kennarar og starfsfólk við Menntaskólann á Akureyri einnig að láta í sér heyra. Ég er nú nemandi í þessum skóla og hef ekki tekið eftir þeirri truflun sem þessar vélar valda samkvæmt bréfi frá skólanum til yfirvalda þessa lands. Ekki voru stóru orðin spöruð í þessu bréfi frekar enn í greininni sem fyrr var fjallað um, í bréfinu stendur meðal annars “Á þessu skólaári hafa herflugvélar stundað æfingar yfir Akureyrarbæ, á Akureyrarflugvelli og um Eyjafjörð, oft í hverjum mánuði, iðulega dag eftir dag, og valdið óbærilegri truflun á starfsemi stofnunarinnar.". Dag eftir dag, ég vildi bara að þetta væri satt. Hvernig ætli skólarnir á Reykjarnesinu hafi það? Þetta eru vissulega flugvélar ætlaðar í hernað, en þegar þær koma hingað eru þær ekkert að standa í einhverjum hernaðaræfingum heldur eru flugmenn vélanna að æfa sig í aðflugi að Akureyrarflugvelli. Ég þykist nú vita það sem einkaflugmaður að maður þarf að æfa aðflug reglulega, tala nú ekki um velli eins og þennan hér á Akureyri, sem er umkringdur fjöllum. Þessar æfingar þarf að gera hvort sem þú flýgur á Cessnu, eins hreyfils einkavél eða F-15 herþotu.
Eru þessi mótmæli gegn vélunum kannski dulbúin? eru þetta kannski hápólitísk mótmæli í garð t.d. Bandaríkjamanna? En ekki í garð vélanna sjálfra og þeim fögru hljóðum sem þær gefa frá sér? Hér koma stundum herflugvélar frá öðrum löndum en Bandaríkjunum, ég man til dæmis eftir að hafa séð hér danskar og þýskar vélar. Ég held að fólk ætti aðeins að spara stóru orðin þegar það skrifar svona í blöð eða aðra miðla. Ég hef nú enga trú á að þetta fólk þjáist svona ægilega eins og það gefur í skyn. Verum ánægð með það að þær séu hér í friði en ekki einhverjum stríðs-hugleiðingum.

Jónas Þór Guðmundsson, einkaflugmaður og nemi við Menntaskólann á Akureyri.

Heimildir: www.ma.is/frettir.asp? Og http://www.sjor.est.is/