Er loksins eitthvað að gerast? Höfðu efasemdarmennirnir rangt fyrir sér?

Fólkið sem tekur afstöðu í flugmálum virðist hafa skipt sér í tvær fylkingar að mínu mati.

Annarsvegar eru þeir sem segja “Blessaður láttu þetta vera, þessi niðursveifla er komin til að vera” og rökstyðja það með 11.sept, efnahagskreppunni, hugsanlegu stríði í Írak en einnig með fullyrðingum á borð við að þoturnar séu alltaf að stækka (B-777, Airbus A380 o.s.frv.) og þessvegna yrði eftirspurn eftir okkur flugmönnunum minni um ókomna framtíð, einfaldlega vegna þess að þotunum muni fækka.

Hin “fylkingin” er hinsvegar jákvæðari, þeir segja “Líttu á tölfræðina, þessa niðursveiflur eiga sér alltaf stað á ca. 10ára fresti (Olíukreppa 1981, Persaflói 1991, George Bush 2001), haltu áfram að læra, það fer allt í gang á næsta ári (2004-2005).

Meirihluti þessa jákvæða fólks er hinsvegar tengt Flugskóla Íslands á einhvern hátt, kennarar eða skólastjórnendur. Ég lærði í Flugskóla Íslands og er ekki að gagnrýna hann á nokkurn hátt, enda hef ég mjög takmarkaðan áhuga á að taka þátt í því skítkasti sem hefur átt sér stað af og til hér á Huga, þannig að líklega er rétt að taka það fram að ég er mjög ánægður með Flugskóla Íslands í heild.

Hinsvegar er það auðvitað hagur stafsfólks flugskóla, flugklúbba, flugmálastjórnar og fleiri aðila sem koma að flugi á Íslandi að halda í flugnemana og því eru, líklega, ekki allir hlutlausir í máli sínu.

Mér finnst eitthvað vera að rofa til í fluginu, Flugfélagið réð flugmenn um daginn, Atlanta er víst að fara að ráða og hélt ekki Íslandsflug Dornier námskeið um daginn í þeim tilgangi að ráða flugmenn á næstunni?
Er þetta ekki ágætist þróun með tilliti til þess að stríð er yfirvofandi í Írak og efnahagslægð hrjáir ennþá flestar vestrænar þjóðir?

Fer ”ALLT Á FULLT" á næsta ári, eða ekki? Af hverju ættu flugfélögina allt í einu að fara að hamstra flugmenn, af hverju ekki? Hætta flugmenn einhvertímann að vinna í Rúmfatalagernum?

Hvað finnst ykkur?

Árni Páll Þorbjörnsson