Það hefur borið á þessum misskilningi undanfarið að í Bandaríkjunum sé harðar tekið á fjársvindli, því þar var Bernard Madoff dæmdur í ævilangt fangelsi, á meðan fjárglæframenn ganga lausir hér á landi.

Madoff braut lög algerlega ótvírætt. Svokallaður fjárfestingabanki hans skilaði ótrúlegum arði með því að laða til sín fleiri fjárfesta og borga arðinn með fjárfestingum þeirra. Þetta er svokallað pýramídasvindl (e. Ponzi scheme), sem er kolólöglegt í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Það sem Kaupþing gerði (ásamt fleiri fyrirtækjum og hinum 2 viðskiptabönkunum) var að kaupa eigin hlutabréf í gegnum leppfyrirtæki (eftir að hafa lánað því/þeim fyrir kaupunum). Þetta var gert annars vegar til að búa til sýndarviðskipti með bréf fyrirtækjanna, sem jók markaðsvirði þeirra, eða til að losa Kaupþing (eða viðkomandi banka) við eigin hlutabréf (sem ekki máttu vera fleiri en 5% heildarfjöldans).

Árin 2007-8 þurfti að sækja víðar eftir “fjárfestum” til að lána pening svo þeir myndu kaupa bréf í fyrirtækjunum, sem er ástæða þess að nöfn á borð við Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hafa heyrst, auk nafna afrískra fjárfesta. Þetta orsakaðist af algeru vantrausti í Evrópu og Bandaríkjunum á íslenska efnahagskerfinu, þótt ríkisstjórnin, fyrirtæki og fjölmiðlar (sem reyndar voru í eigu fyrirtækjanna) sögðu tilhæfulaust.

Viðskiptin sem um ræðir eru langt í frá sambærileg við svik Madoffs, þótt þau varði við lög um markaðsmisnotkun. Slíkt getur þó verið nokkuð erfitt að sýna fram á.