Allir elskar góðar fréttir :D

tekið úr ruv.is

Matarskattur lækkaður úr 14% í 4%

Matarskatturinn svokallaði verður lækkaður úr 14% í 4% samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um lækkun matarverðs. Matarkostnaður heimilanna lækkar um tugi þúsunda króna á ári nái þetta fram að ganga.

Formaður matvælaverðsnefndarinnar sem forsætisráðherra skipaði skilaði tillögum um miðjan júlí. Lækkun virðisaukaskatts og afnám tolla og vörugjalda voru helstu tillögurnar. Hið síðarnefnda mætti töluverðri andstöðu forsvarsmanna landbúnaðarins. Samfylkingin lagði til í gær að vörugjöld og tollar yrðu felldir niður og virðisaukaskattur lækkaður um helming.

Fréttastofan Sjónvarps hefur heimildir fyrir því að stjórnarflokkarnir hafi náð samkomulagi um að lækka virðisaukaskatt á matvæli, matarskattinn svokallaða, um allt að 10 prósentustig, eða úr 14% í 4%. Hann er lagður á langflest matvæli; virðisaukaskattur á sælgæti, gosdrykkjum og öðru sætu er 24,5%. Í tillögunum eru einnig lagðar til breytingar á vörugjöldum og tollum en ljóst er að hvorki Sjálfstæðis- né Framsóknarmenn vilja róttækar breytingar á þeirri tollvernd sem landbúnaðurinn nýtur.

Tekjur ríkisins af 14% virðisaukaskatti voru um 6 miljarðar króna í fyrra. Verði virðisaukaskatturinn lækkaður minnka tekjurnar um rúma 4 miljarða króna. Á móti kemur að velta kann að aukast þegar fólk hefur meira milli handanna og ekki aðeins lækkar matarkostnaður heimilanna, heldur hefur þetta áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með á lánavísitölu. Það er því ekki víst að tekjutap ríkissjóðs verði svo mikið.

Ef gert er ráð fyrir að fjögurra manna fjölskylda verji 600 þúsund krónum á ári í matvæli með 14% virðisaukaskatti þá sparar hún 60.000 kr. á ári verði skatturinn lækkaður.