Í kynningu FL Group á kaupunum á Sterling er samanburður á verðkennitölum félagsins og annarra lágfargjaldaflugfélaga. Greiningardeild Íslandsbanka hefur endurreiknað svokallað heildarkaupverð, eða EV, og segir að gangi spár um hagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði Sterling eftir, þ.e. EBITDA, sé ljóst að kaupin á félaginu megi teljast hagfelld.

“Áætluð EBITDA hjá Sterling á árinu 2006 er 345 milljónir danskra króna (DKK). Gefið er upp að kaupverðið sé 1,5 m. DKK en geti legið á bilinu 1-2 m. DKK allt eftir því hvort EBITDA framlegðin verður lægri eða hærri en stefnt er að. Útreikningur Greiningar gefur að verði framlegðin við neðri mörk verðbils þá gefi það EV/EBITDA 6,2 en efri mörkin gefi EV/EBITDA 5,5. Gangi þetta eftir er ljóst að kaupin mega teljast hagfelld. Þó verður að líta á að verðmæti fyrirtækja ræðst af því hvers vænta má í frramtíðinni en ekki bara á næsta ári,” segir í Morgunkorni Íslandsbanka.