Á miðöldum voru villutrúarmenn brenndir á báli fyrir að hafa óvinsælar skoðanir. Þeir voru merktir nornir og galdramenn og dæmdir til dauða af óskeikulum dómurum rannsóknarréttarins samkvæmt óskeikulum sannleika sem þeir öðluðust í trúarlegum vitrunum og opinberunum og viðtóku án athugunar á staðreyndum og án rökstuðnings.

Í dag eru menn sem betur fer ekki lengur brenndir á báli, en saklausir menn eru enn þann dag í dag dæmdir, sektaðir og fangelsaðir fyrir ýmist óvinsælt athæfi, á sama hátt án athugunar á staðreyndum eða rökstuðnings, heldur aðeins byggt á vinsælu áliti og viðtekinni skoðun almúgans.

Eitt þessara athæfa, í hinum siðmenntaða og markaðsvædda heimi, er gefið nafnið innherjaviðskipti.

Innherjaviðskipti eru ákaflega illa skilgreind, og skilgreiningar eru mismunandi eftir því hver er spurður. Reyndar er skilgreiningin það erfið að aðildarlönd EES gáfu út ályktun árið 1989 þar sem reynt var að samræma skilgreiningar á því hvað innherjaviðskipti eru, en þó tókst þeim helst að skilgreina hvað þau eru ekki.

Í stuttu máli er það talið til óæskilegra (og ólöglegra) innherjaviðskipta þegar aðili notfærir sér “innherjaupplýsingar” til að kaupa eða framselja framseljanleg verðbréf “til öflunar eða ráðstöfunar sjálfum sér eða þriðja aðila til framdráttar, beint eða óbeint” (Stjórnartíðindi EB Nr. L 334/31, 18.11.89).

Og hvernig skilgreinum við svo “innherjaupplýsingar”? EB skilgreinir það sem “ákveðnar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða einn útgefenda framseljanlega verðbréfa eða fleiri… sem haft gætu veruleg áhrif á verð viðkomandi framseljanlegs bréfs eða bréfa væru þær gerðar opinberar”.

Glöggir koma strax auga á illskilgreinanlega hluti eins og “óopinberar upplýsingar” og “sem haft gætu veruleg áhrif”. Það er okkur látið eftir að þekkja upplýsingar sem haft gætu áhrif frá öðrum upplýsingum sem ekki hafa áhrif, og að þekkja veruleg áhrif frá óverulegum áhrifum.

En gefum okkur eitt augnablik að við vitum nokkurn veginn hvað er verið að fara. Sem sagt að það eigi að vera bannað að nýta sér upplýsingar sem maður hefur vegna stöðu sinnar, til að hagnast, nema ef upplýsingarnar eru opinberar (þ.e. að það sé hugsanlega mögulegt fyrir hvern sem er að nálgast upplýsingarnar á eigin spýtur).

Mikilvæga spurningin hér er: hvers vegna ætti þetta að vera bannað? Og hvers vegna er slíkt athæfi ekki bannað í sambandi við kaup og sölu á hverju sem er, heldur aðeins verðbréfum?

Algengt svar við fyrri spurningunni er að það sé hreinlega óréttlátt að menn megi nýta sér upplýsingar sem ekki allir hafa til að græða. En notum við ekki slíkar upplýsingar dagsdaglega, einmitt til að hagnast á þeim?

Nú veit ég meira um hvernig ég ek og umgengst eigur mínar heldur en tryggingafélagið mitt. Ekki telst það til innherjaupplýsinga, þó veit ég að upplýsingar um akstur minn hefðu “veruleg áhrif” á verð trygginganna minna. Ég veit meira um fjármálastöðu mína í náinni framtíð en bankinn minn, og ef þeir vissu hvað ég er að fara að eyða í um næstu jól þá myndu þeir hratt hækka vextina á láninu sem ég tók um árið. Ég vissi líka ýmislegt misgott um gamla Volvoinn sem ég seldi manni úti í bæ, en ég var ekkert að segja honum frá því svo ég gæti nú fengið nóg fyrir bílinn til að borga lánið á honum. Í öllum tilvikum er ég að notfæra mér óopinberar upplýsingar sem hefðu haft veruleg áhrif á verð viðkomandi hluts ef þær hefðu verið gerðar opinberar. Þó er ekkert af þessu ólöglegt.

Það er fullkomlega eðlilegt í öllum viðskiptum að annar aðilinn veit meira en hinn um suma hluti og öfugt. Það er ekki endilega sanngjarnt, en það liggur í hlutarins eðli. Ef þú finnur verðmæta antík í kolaportinu hjá einhverjum sem heldur að hann sé að selja gamalt skran, þá geturðu hagnast á þeim upplýsingum einmitt vegna þess að seljandinn hefur þær ekki.

Önnur vinsæl rökfærsla fyrir banni við innherjaviðskiptum er að það sé ekki réttlátt að aðeins sumir fái að græða á upplýsingunum, en ekki allur markaðurinn. Að það hafi neikvæð áhrif á traust fjárfesta og að þeir hætti að treysta markaðnum.

En þeir sem koma með þá rökfærslu gleyma algjörlega að markaðurinn er samansafn einstaklinga sem hver um sig tekur sjálfstæðar ákvarðanir og er ábyrgur fyrir þeim. Þeir gleyma einnig algerlega að markaðir eru ekki sameign fjárfesta sem stunda á honum viðskipti. Markaðurinn er aðeins tól sem menn brúka til að kaupa og selja, og oftar en ekki eru markaðstorg í einkaeign. Markaðurinn er ekki tilgangur í sjálfu sér sem fjárfestar verða að færa fórnir fyrir, heldur felur hver einasta færsla í sér kaupanda og seljanda sem hvor um sig er viljugur og sáttur með það verð sem hann fær eða greiðir, og er tilgangur markaðarins aðeins að gera þetta mögulegt.

Við getum heimfært þetta á aðra tegund markaðar, t.d. verslunarmiðstöð. Í stað hlutabréfa eru keyptar og seldar vörur og vörumerki af mismunandi “bröskurum” (verlslunareigendum og viðskiptavinum þeirra). Það skal tekið fram að verslunarmiðstöðina á einhver og þeir sem versla eða selja í henni gera það samkvæmt skilmálum eigenda miðstöðvarinnar. Segjum sem svo að það væri bannað að hagnast á “innherjaupplýsingum” á þessum markaði. Þá væri t.d. bannað að selja buxur í dag sem verslunareigandi veit að fara á útsölu á morgun. Það væri bannað að kaupa bók í dag sem þú veist einn að þú ætlar að gefa góða dóma í dagblaðinu á morgun. Það má taka ótal fleiri dæmi.

Það liggur í hlutarins eðli að sumir vita meira en aðrir um hina ýmsu hluti sem ganga kaupum og sölum, á hvaða eða hvernig markaði sem er.

En nú er þessi réttrúnaður gagnvart hinum illu innherjaviðskiptum genginn svo langt að nýverið var réttað yfir karlmanni í Bandaríkjunum fyrir að ráðleggja fjölskyldu sinni að selja hlutabréf í fyrirtæki sem hann átti og vissi að ákvörðun ríkisvaldsins sem var á næsta leiti kæmi til með að fella gengi hlutabréfanna í því fyrirtæki. Ekki aðeins nær þá innherjaupplýsingahugtakið til vina og vandamanna og hvers sem manni er ekki skítsama um, heldur nær hugtakið um að nýta sér þær sér til framdráttar út í það að nýta sér innherjaupplýsingar til að tapa ekki peningum. Ekki til að græða, heldur til að tapa ekki! Það er semsagt kolólöglegt að afstýra tapi sem kemur engum vel. Maður þarf að sitja og bíða eftir lestinni á miðjum teinunum. Það er þá búið að gera sjálfsbjargarviðleitnina ólöglega.

Ekki misskilja mig, það er auðvitað fullt af óprúttnum einstaklingum sem vísvitandi breyta upplýsingum og gefa út rangar upplýsingar sér til framdráttar. Fyrirtæki eins og Enron og WorldCom sem þar sem stjórnarformenn vísvitandi gáfu út rangar upplýsingar til að fá fjárfesta til að halda að allt væri í lagi þegar allt var í raun á leiðinni í vaskinn. Slíkt athæfi er hreinlega fjársvik, og eru til réttlát siðferðileg lög sem banna slíkt. Það má líkja því við að selja gamlan Trabant undir þeim formerkjum að það sé um spánýjan Ferrari Testarossa að ræða.

En hvað gerðu lög um innherjaviðskipti fyrir bandaríska markaðinn í því tilviki? Þau höfðu öfug áhrif og gerðu hlutina verri en þeir hefðu verið. Því hefðu innherjar mátt nýta sér upplýsingarnar þá hefði markaðurinn fljótt fengið þefinn af því að eitthvað væri að þegar innherjar færu allir að reyna að losna við hlutabréf sín. En það var markaðurinn sem á endanum uppgötvaði svindlið einmitt á þennan hátt, ekki löggjafinn né verðbréfaeftirlitið, þó eftir dúk og disk vegna þess að lögin banna dreifingu mikilvægra upplýsinga ósjálfrátt um leið og þau banna viðskipti byggð á þeim.

Og hvað gerist svo þegar stjórnvöld leika þennan leik eftir, svindla og breyta upplýsingum, gefa út misvísandi tölur og útskýra með orðaleikjum og hálfkveðnum vísum? Nákvæmlega ekki neitt. Það eru engin lög gegn því.

Úr ályktun EB um innherjaviðskipti:

“Tilskipun þessi gildir ekki um viðskipti sem fullvalda
ríki, seðlabanki þess eða önnur stofnun sem ríkið tilnefnir
eða annar aðili sem starfar í þess þágu, í samræmi við
opinbera stefnu í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu
hins opinbera.”

Auðvitað ekki. Það er ekki sama hvort innherjinn er Jón eða séra Jón.