Fann þessa inná gummiarnar.blog.is, bloggi um Markaðssetningu á netinu.

Íslendingar voru að hverfa frá því að vera fyrirmyndaríki í hinum vestræna heimi yfir á
stall með þeim sem standa hvað veikast. Svo hratt hefur þessi kúvending orðið að ætla
mætti að um farsa væri að ræða. (Nýi) Glitnir spáir því að samdrátturinn verði á bilinu 27%
á næsta ári, atvinnuleysi fari úr rúmlega einu prósenti í fjögur til fimm prósent og
verðbólga verði á bilinu fimmtán til tuttuguprósent. Atvinnuöryggið sem var til staðar
fyrir aðeins örfáum mánuðum er horfið. Framundan eru uppsagnir og launaskerðingar.
Þegar svona dynur á óttast auðvitað allir um sinn hag en það er ýmislegt hægt að gera til
að bjarga starfinu sínu í kreppu.

Það er oft heppni sem ræður því hver er inni og hver er úti þegar fyrirtæki þurfa að stokka
jafn grimmt upp hjá sér líkt og nú. Margt er hins vegar sameiginlegt með þeim sem eru
síður látnir fara. Rannsóknir hafa sýnt að þessir einstaklingar eiga auðveldara með að
horfa blákalt á stöðu mála og eru þannig fljótir að átta sig á breyttu umhverfi. Af eigin
frumkvæði hafa þeir einnig áhrif á framvindu mála en bíða ekki eftir að einhver annar
geri það. Þeir skipuleggja sig og vinna strategískt að því að halda sér inni en
sannleikurinn er sá að færustu framkvæmdastjórar eiga oft í erfiðleikum með þetta.

Í þessari stöðu er mikilvægt að starfsmenn byrji í raun að haga sér eins og þeir eigi
fyrirtækið sem þeir vinna hjá. Allar ákvarðanir og hegðun þarf að endurspegla það að
þeir setji hagsmuni fyrirtækisins ofar þeirra eigin. Eins illa og það hljómar, þegar verið
er að segja fólki upp og endurskipuleggja, skiptir mjög miklu máli fyrir stafsmenn að
vera skemmtilegir, jákvæðir og bjartsýnir. Þetta snýst ekki um að breytast í Ladda,
heldur að forðast það að vera sá sem er alltaf í slæmu skapi og er sífellt að minna
samstarfsfélagana á það hvað fyrirtækið og hagkerfið sé dautt. Við þessar aðstæður er
mikilvægt fyrir starfsfólk að fókusera á markmið fyrirtækisins og vera sjálfsöruggt.

Rannsóknir hafa sýnt að þegar yfirmenn eru spurðir þá segjast þeir velja hæfustu
einstaklingana en það sé aukaatriði ef þeir eru viðkunnalegir líka. Ástæðuna segja þeir
vera sú staðreynd að auðveldara sé að kenna þeim kláru að verða viðkunnalegri en að
gera þá sem vita lítið klára. Þrátt fyrir að yfirmenn segi þetta svona, haga þeir sér
öðruvísi í raunveruleikanum. Ef fólki mislíkar einhver, sýna rannsóknir að í
raunveruleikanum skiptir engu máli hve klár sá einstaklingur er, hann verður alltaf með
þeim fyrstu út. Með öðrum orðum er fólk mun líklegra að halda starfinu sínu með því að
verða örlítið viðkunnalegra en með því að verða örlítið klárara.

Það getur hins vegar verið erfitt fyrir fólk að skína af jákvæðni í vinnu á sama tíma og
það hefur áhyggjur af því að geta ekki borgað reikninga heimilisins. Rannsóknir Diane L.
Coutu hafa beinst að því að skoða hvaða persónueinkenni þeir sem komast í gegnum
krísur eiga sameiginlegt. Með öðrum orðum, hvernig verður þessi þrautseigja til hjá
fólki. Diane hefur komist að því að þrír eiginleikar liggja að baki.

Fyrsti eiginleikinn er að geta horfst í augu við raunveruleikann. Jim Collins segir frá
viðtali við flotaforingjann Stockdale í bókinni Good to Great. Stockdale var fangelsaður í
Víetnam, og var pyntaður þar í 8 ár af Vietkong liðum. Jim spurði hann ,,Hverjir voru


það sem lifðu ekki af?” Stockdale svaraði: ,,Það er mjög einfalt að svara því. Það voru
bjartsýnismennirnir sem héldu að þeir yrði lausir fyrir jól. Þegar það rættist ekki héldu
þeir að þeir yrðu lausir fyrir páska, svo á þakkargjörðardaginn, svo 4 júlí og svo aftur
jólin á eftir. Veistu, ég held að þeir hafi allir dáið úr hjartasorg vegna brostinna vona.”
Rannsóknir Jim Collins hafa staðfest að stjórnendur í best reknu fyrirtækjum
Bandaríkjanna búa yfir þessum hæfileika. Það er nefnilega mjög mikilvægt að hafa
raunhæfar skoðanir á stöðu mála.. Þegar fólk áttar sig á því hver raunverulega staðan er
getur fólk byrjað að undirbúa sig til að takast á við þær, þola þær og lifa af hvaða
harðræði sem er.

Annar þátturinn er leitin að tilgangi. Viktor Franklin var í Auswitch. Hann fékk nóg af
tilgangslitlu lífi sínu eftir að hann hafði haft stöðugar áhyggjur af bæði grimmum
verkstjóra sem hann var að fara vinna fyrir og þeirri ákvörðun hvort hann ætti að skipta á
síðustu sígarettunum sínum og súpuskál. Hann áttaði sig allt í einu á því hversu
tilgangslítið líf hans var, hann vantaði tilgang! Hann fór því að ímynda sér að hann væri
að halda fyrirlestra um sálarlífið sem fylgdi því að vera í útrýmingararbúðunum. Hann
setti sér markmið og náði þannig að rísa yfir þær þjáningar sem hann var að líða. Þetta
kom Viktori lifandi í gegnum búðirnar, en þeir sem lifðu vistina með honum tóku allir í
sama streng.

Þriðji og síðasti eiginleikinn er nægjusemi. Í raun hæfileikinn til að nýta sköpunargáfuna
við að leysa vandamálin sem maður stendur frammi fyrir. Það er að leysa þau þrátt fyrir
að hafa ekki réttu tólin sem til þarf. Í útrýmingarbúðunum geymdu fangarnir t.d. alla
spotta og víra sem þeir fundu. Þetta gátu orðið, sem dæmi, munir sem skildu á milli lífs
og dauða við viðgerðir á fatnaði og skóm í miklum vetrarkuldum.

Jack Welch sagði eitt sinn ,,fyrirtæki skapa ekki atvinnuöryggi, viðskiptavinir gera það.”
Þetta er mikilvægt að hafa í huga í kreppu. Það þarf að huga stöðugt að
viðskiptavininum. Starfsfólk þarf að reyna að sjá fyrir þarfir þeirra og þjónusta þá svo vel
að það verði ómissandi fyrir vikið. Viðskiptavinir í þessu samhengi geta bæði verið þeir
sem versla við fyrirtækið og einnig starfsfélagar innan þess.

Þegar deildir eru lagðar niður og öðrum breytt er mikilvægt að vera sveigjanlegur og
jákvæður. Á svona tímum verður að kyngja stoltinu og afskrifa launahækkanir eða
titlastökk. Í breytingunum geta einnig leynst fjölmörg tækifæri. Fólk þarf að keppast við
að koma á framfæri óþekktum hæfileikum sínum því í breytingum geta verið verkefni
bæði fyrir ofan og neðan í stjórnskipulaginu sem það gæti komist í. Það er hins vegar
ekki víst að þessi tækifæri séu augljós við fyrstu sýn. Þess vegna þarf að taka breytingum
með opnum örmum og af eldmóði og hvetja samstarfsfélaga til þess að gera slíkt hið
sama. Framlínufólk verður líka að gera sér grein fyrir því að yfirmenn eru einnig að
ganga í gegnum erfiða tíma og því mikilvægt að það geri þeim auðveldara fyrir við að ýta
í gegn erfiðum óhjákvæmilegum breytingum. Það er hægt með því að tala þeirra máli og
horfa á breytingar sem tækifæri.

Rannsóknir hafa ennfremur sýnt að fólk sem sýnir breytingum skilning og aðstoðar
yfirmenn sína við að koma þeim í framkvæmd, jafnvel þegar breytingarnar virðast vinna


gegn hagsmunum þeirra, er mun líklegra til að halda vinnunni. Núna verða starfsmenn að
hafa samúð með yfirmönnum og þeim erfiðu ákvörðunum sem þeir standa frammi fyrir.
Það gæti hjálpað fólki að halda vinnunni en því betri samskipti sem starfsfólk á við
yfirmenn því líklegra að starfinu sé bjargað.

Woody Allen talaði um að 80% af árangri væri fólgin í að mæta. Þetta á vel við í kreppu
þegar starfsfólk verður að standa saman. Þá fer að vera mikilvægt að mæta á fundina sem
fólki er ekki skilt að sækja, rölta reglulega um fyrirtækið og spjalla við samstarfsfélaga
og taka virkan þátt í félagslífi fyrirtækisins. Augljós eldmóður og áhugi á starfinu sem
hann er í getur komið starfsmanni mjög langt í að lifa niðurskurð.

Það getur svo aftur á móti verið úr takt við sjálfsmynd fólks að fara breyta því hvernig
það vinnur og hegðar sér í starfi. Í þeim tilfellum er mun heillavænlegra fyrir fólk að
bjóða sig fram til að hætta. Með því er oft auðvelt að gera góðan starfslokasamning og
segja skilið við vinnuveitandann með reisn og góð meðmæli. Allir yfirmenn vilja frekar
gera vel við fólk sem kemur sjálft fram með þessum hætti heldur en að þurfa að segja
einhverjum upp sem reiðir sig á starfið og vill ekki hætta. Þegar fólk er orðið laust aftur
er það frjálst til að elta nýja og gamla drauma. Oftar en ekki fara þá að birtast því ný
tækifæri sem það gerði sér ekki grein fyrir að væru í boði.

http://gummiarnar.blog.is inní greinar.