Við blasir að gengi íslensku krónunar er hrunið og fjallað hefur verið um að gengi hennar hafi aldrei styrkst um meira en 10% yfir 18 mánaða tímabil nema í örfáum tilfellum þegar uppgangurinn var sem mestur 2004-2005. En hvað þýðir þetta fyrir okkur?

Þetta þýðir að verðmæti krónunar er minna eða að verðmæti vara er orðið meira. Með öðrum orðum það, að þegar reiknað er verð nýrra innfluttra vara þá blöskrar manni verðið en samt er fólk ekki reiðubúið að sætta sig við þennan nýja veruleika og ætlast til þess að geta keypt notaða hluti á því verði sem þeir voru seldir á 2007.

Eitt besta dæmið eru bílar. Nýr bíll seldist á 3,5 milljónir 2007, sambærilegur nýr bíll kostar í dag 7,7 milljónir (Toyota Avensis Dísel station). Samt er bílinn frá 2007 verðlagður á 2,8 – 3,5 milljónir í dag.

En verðmæti bíla í dag ætti að endurspeglast í verði nýrra bíla í dag en ekki hagstæðu gengi krónunar fyrir tveimur árum síðan. Sá sem keypti bíl á 3,5 milljónir 2007 ætti því í raun að fá um 5 milljónir fyrir hann í dag þar sem verð ætti að ákvarðast út frá nýjum bíl því verðið á nýjum bíl = hinn valmöguleikinn við að kaupa notaðan. Það sem heldur verðinu niðri er náttúrulega oframboð af notuðum bílum en einnig þessi almenna afneitun fólks á að gengi krónu er fallið og gengisvísitalan er komin til að vera í því sem hún er.

Þessi sama fræði gengur fyrir allar notaðar vörur. Fyrir skemmstu var ég að selja nokkrar tölvur sem voru vel brúkanlegar og lét ég þær fara á 15-25 þúsund. Þær fóru allar samdægurs og einn aðilinn sem var með lítið fyrirtæki sagði einfaldlega við mig að hann hefði keypt þessar til að eiga back-up af búnaði því honum hryllti við verðinu á nýjum tölvum. Þessar þrjár tölvur sem hann keypti af mér á 60 þúsund voru ekki virði einnar nýrrar tölvu sem þó hefði ekki náð að sinna hlutverki sínu betur á nokkurn hátt.

En húsnæði? Þetta er stærsta spurningin fyrir marga. Húsnæði hefur lengi talist vera ein besta fjárfetsing í boði fyrir fjölskyldur í landinu. Hversu satt er það?

Fasteignir eru góð fjárfesting svo lengi sem þær eru ekki keyptar á uppsprengdu verði og á 100% lánum. Þegar keypt er á þeim forsendum segir það sig sjálft að eignamyndun verðu lítil sem engin fyrr en langt er liðið á lánstímann. Vel ígrunduð fasteignakaup eru langtímafjárfesting og í þeim felst öryggi fyrir fjölskyldur til að reka sitt heimilishald, fjölskyldulíf og eiga sér samastað óáreitt.

Því miður voru margir sem ákváðu, oft á röngum forsendum gefnum af þjónustufulltrúum og ráðgjöfum, að taka óþarfa áhættu við fjármögnun sinna fasteignakaupa. Þessi áhætta var bæði fólgin í erlendum lánum og/eða ofveðssettningu.

Einnig má kenna fasteignasölum og borgar/bæjaryfirvöldum um hátt fasteignaverð þar sem lóðir og fasteignir voru verðmetin langt upp fyrir það sem teljast má eðlilegt. Besta dæmið er líklega Grafarholtið þar sem lóðirnar voru dýrar en mér er allavega hulið hvers vegna þar sem ég sé ekkert sérstakt við þessa staðsetninguannað en að húsin eru á hóli innan borgarmarkanna, kannski var þetta seinasti hóllinn til byggja á, hver veit.

En hvað er þá eðlilegt fasteignaverð? Það er byggingakostnaður + lóðaverð + álagning framkvæmdaraðila. Í góðærinu hækkuðu allir þessir liðir of mikið, sérstaklega lóðaverð og álagning. Kostnaðurinn sjálfur fór vaxandi einfaldlega þar sem vinnubrögð urðu óvandaðri, óskipulagðari og undir það síðasta var það farið að teljast heppni að fá afhenta nýja íbúð sem væri í 100% lagi.

En miðað við sömu aðferð og með bílana þá ætti fasteignaverð ekki að lækka þar sem kostnaðurinn við að byggja er orðinn gríðarlegur vegna gengisins. Fasteignaverð er í raun loksins orðið „rétt“ ef maður má orða það svo.