Hæ ég heiti Friðjón og ég er brisfruma. Ég bý í líkamanum hans Gunna og tek virkan þátt í samfélagi frumnanna. Ég hef þó ýmsar hugmyndir um það sem betur mætti fara. Hér ríkir nefnilega ægilega mikil miðstýring.

Ég gæti nú alveg séð fyrir mér betra skipulag. Ef að miðstýring í líkamanum væri minni þá gæti ég sko söðlað um. Farið og fjölgað mér allrækilega. Enginn að segja mér hvar ég ætti að vera. Bara sú fruma sem nær að stækka sem mest og fjölgar sér hraðast fyrir minnstu orkuna ætti skilið að vera áfram í líkamanum. Það er líkamanum fyrir bestu að hafa stórar og sterkar frumur sem kunna sko að nýta orkuna. Að sjálfsögðu fer maður ekki og drepur aðrar frumur, ég er ekkert ill fruma. En markaðurinn mun sjá um að aðeins “hæfustu” frumurnar lifi af.

Ef að mér tekst að koma þessum boðskap áfram til afkvæma minna gætum við fjölgað okkur mjög hratt og örugglega í næsta nágrenni mínu.

Við þetta stóð Friðjón fruma. Hann barðist gegn kúgun miðstýringarinnar og boðaði frelsun. Hann vissi að það væru fitubirgðir í líkamanum sem lægju bara ónotaðar. Fullt af orku sem hinar heimsku frumurnar voru ekkert að nýta. Hann ákvað að örva skiptingar hjá sér. Þetta bitnaði ekki á nágrönnum hans enda næg orka til. Afkomendur hans voru heillaðir af gáfum hans og héldu heiðri fjölskyldunnar á lofti. Þeir skyldu líka fjölga sér hratt. Það þrengdi um nágrannafrumurnar, ekki nægilega til að drepa þær, en þó nóg til að hægja á umsvifum þeirra og fjölgun.

Innan fárra kynslóða voru afkomendur Friðjóns orðnir ríkjandi í brisinu. Þeim fannst ættfaðirinn hafa byrjað vel en það voru þó nokkrir hlutir sem betur mættu fara. Það var fullt af reglum sem ekki var nokkur sjáanlegur ágóði af. Reglan sem átti að hindra að frumur af brisuppruna væru ekki í lunga voru gamaldags. Margar reglur sem virtust aðeins vera þarna til að hægja á framþróun. Fjöldi leyfa og undirskrifta. Þær þjóna engum tilgangi í nútíma líkama. Ef að brisfrumurnar eru hæfari til að nýta orkuna þá ættu þær að sjálfsögðu að sjá um lungnavefinn líka. Nýju brisfrumurnar eru svo snöggar að taka ákvarðanir og stökkva á tækifærin. Það er þeirra helsti kostur. Þær hafa tvöfaldað umsvif sín á hverju ári og þær virðast ætla að slá í gegn hvar sem þær stíga niður. Ná góðri markaðhlutdeild og eru með mestan vöxt allra frumna í öllum líffærum sem þær koma til. Flestar venjulegar frumur horfðu með aðdáunaraugum á enda héldu þær að nýju brisfrumurnar gætu séð líkamanum fyrir nægri orku. Nýju brisfrumurnar lifðu svo hátt og nýttu svo mikla orku að brauðmolar af veisludiskum þeirra munu falla til hinna frumnanna og þannig myndu þær njóta ágóða nýju brisfrumnanna.

Svo kom loks sá dagur að ekki voru fleiri ónýttar fitubirgðir í líkamanum. Það kom í ljós að meirihluti aukinna umsvifa brisfrumnanna hefði verið í því að versla með fitubirgðirnar og engin raunveruleg framleiðsla verið í gangi. Líffærin sem brisfrumurnar höfðu lagt undir sig voru allt of stór miðað við þörf og upp komst að þau voru ekki einu sinni vel rekin. Þau soguðu bara upp alla orku líkamans en voru með verri framleiðni en upphaflegu frumurnar. Brisfrumurnar nýttu nú margfalt meiri orku en líkaminn gat framleitt.

Upp hófst þá blóðug barátta. Milli brisfrumna og eðlilegra frumna og svo einnig milli brisfrumnanna sjálfra. Líkaminn reyndi að taka upp meiri miðstýringu. Brisfrumurnar brugðust mjög illa við þessu og sögðust geta reddað öllu ef þær fengu bara síðustu fitubirgðirnar.

Líkaminn reyndi sitt besta til að halda uppi jafnræði. Hann reyndi að gefa frumunum jafnt en það var of seint. Birgðirnar voru of litlar, framleiðnin of lítil og frumurnar of margar. Líkaminn dó.

Er frjálshyggjan krabbamein?