Af hverju Seðlabankinn keypti í Glitni en lánaði þeim ekki og meira…

Hlutverk Seðlabankans er ekki að tryggja fjárfestum arð heldur tryggja innistæður í bönkum. Hinn möguleikinn gerði fjárfestum kleyft að kaupa hlutabréf með ríkistryggða ávöxtun, öryggi og arð.

Fjárfestar taka áhættu það felst í þeirra gjörningum. Það er ekki á ábyrgð ríkisins að axla þá ábyrgð fyrir þá í slæmu árferði.

Með því að gera þetta á þennan máta er Seðlabankinn því ekki að einkavæða hagnaðinn og þjóðnýta tapið eins og einhverjir hafa sagt, heldur tryggja að þeir sem fengu hagnaðinn beri tapið.

Að auki tryggir þessi aðgerð Seðlabankans að virði Evranna/peninganna sem lagðar voru í verkefnið skili sér með vöxtum til baka í ríkissjóð, það er því ekki verið að fara illa með almannafé.

Að Glitnismenn skuli voga sér að væla yfir að þeir þurfi að bera gengismuninn sem varð yfir helgina, þá á evrunni, næ því ekki. Ekki sýna þeir viðskiptavinum sínum mikinn skilning, Seðlabankinn er þeirra banki í þessu tilviki og ætti ekki að gefa þeim krónu eftir þó hún sé orðin hálf verðlaus.


Það sem fjárfestar verða að átta sig á (ef þetta kemur þeim svona mikið á óvart) er að það er áhætta fólgin í hlutabréfakaupum. Aukin upplýsingagjöf tryggir að markaðsverð hlutabréfa sé rétt og tryggir að fjárfestar geti tekið ein réttar ákvarðanir og mögulegt er m.v. þá áhættu sem þeir eru tilbúnir að sætta sig við. Þar tel ég að pottur sé brotinn hjá Íslenskum fyrirtækjum.


Upplýsingar eru nær undantekningalaust matreiddar til að þær hafi minni skaðleg áhrif en þær ættu að gera og einnig betri áhrif en þær ættu að gera. Með þessu móti breikkar bilið milli raunverðs og markaðsverð með tímanum þar til á svona stundu eins og í dag, að sannleikurinn kemur í ljós.

Sparifjáreigendur aftur á móti tóku þá ákvörðun að taka ekki áhættu í von um skjótan gróða heldur ávaxta sitt fé á öruggan máta.

Að sjálfsögðu á sparnaður að vera ríkistryggður upp að einhverju marki.

Ég skil þó ekki af hverju allir eru svona fastir í að taka upp Evru, ég mundi vilja taka upp Svissneskan Franka, Jen eða dollar einhliða. Slík ákvörðun gæti verið einhliða, líkt og Brasilía gerði með Bandaríkjadollar á sínum tíma.

Það ævintýri fór reyndar illa ef ég man rétt, en vonin væri fólgin í að Íslenska hagkerfið væri of lítið til að hafa mikil áhrif á gjaldmiðilinn.

En besta leiðin til að draga úr þessu ástandi væri að setja hámark á laun, hugsanlega væri hægt að drýgja þau með kaupréttarsamningum. Einnig þyrfti að verða að veruleika almenn launalækkun. Tilgangurinn væri að draga úr verðbólgunni (hækkunum á verðlagi) með því að minnka breytilegan kostnað fyrirtækja (laun og vinnu verktaka) til að vega á móti gengishækkunum.

Með þessari aðferð mundu lánin í það minnsta ekki hækka en kaupmáttur mundi rýrna.
Vil minna á að verðbólga er mæld með hækkunum á almennu verðlagi í landinu s.s. grunnurinn að vísitölu neysluverðs (sem hækkar öll lán) er verðið á bensíninu, kókinu, Cheeriosinu, íbúðaverði o.s.frv. Ef við náum að halda verðlagi niðri með því að taka á okkur launaskerðingu þá sleppum við í það minnsta við að lánin hækki.


Einhversstaðar verða fyrirtæki að spara til að þurfa ekki að hækka verð. Minni verðhækkanir = meiri stöðugleiki = stöðugri króna = lánin okkar hækka minna.

Það vil bara enginn fara þessa leið, er það nokkuð?