Einhvers staðar á þessum síðum varpaði ég fram þeirri hugmynd að róttæk og réttlát hugmynd að nýju skattkerfi væri að afnema tekjuskatta og hækka neysluskatta sem því nemur. Þar sem ég nefndi að þessi hugmynd væri runnin undan rifjum tónlistarsnillingsins Frank Zappa var eina vitræna svarið á þessa leið: “Ertu hrifinn af hugmyndinni bara af því að hún kom frá Frank Zappa?”

Svarið er að sjálfsögðu neikvætt. Góð hugmynd er góð sama hvaðan hún er komin.

Hans hugmynd var sú að það ætti ekki að refsa fólki fyrir það að vinna, heldur miklu frekar fyrir það að eyða.

Og það undarlega er að góður vinur minn, sem er eins mikill sjálfstæðismaður og þeir gerast og er endurskoðandi að auki, sagði mér að það þyrfti bara að hækka neysluskattana um tæp 10% til þess að brúa bilið.

Það þýðir að lágtekjufólk sem borgar um það bil 30% í skatta hefði öll launin til ráðstöfunar og neysluskattarnir myndu aðeins hækka um 10%.

Aftur á móti þeir sem vaða í tekjum og borga aðeins 10% fjármagnstekjuskatt slyppu jafnvel við það… en jöfnuðurinn felst í því að eftir því sem þú eyðir meira… þeim mun meiri skatta borgarðu.

Ef þú kaupir fjölskyldubíl fyrir eina og hálfa milljón þá borgarðu 150.000 krónum meira í skatt. En ef þú kaupir fimm milljón króna Ferrari… eða Hummer… þá borgarðu 500.000 krónum meira í skatt.

Hvar er ósanngirnin í því? Hvar er óréttlætið? Hvar er ójöfnuðurinn?

Er ekki kominn tími til að rífa íslenska ríkið upp úr staðnaðri hugsun og koma fram með raunverulegar breytingar?

———————————————————-
“Just look at how close we are… instead of how far”
—————————–