Við Íslendingar teljum okkur vera jafnaðarmenn en síðustu árin hefur stjórnarfarið alltaf farið æ lengra frá þeirri stefnu og við erum eftirbátar þeirra þjóða sem við viljum helst miða okkur við þ.e. Norðurlönd og Bretland. Tökum heilbrigðiskerfið sem dæmi. Þar erum við langt á eftir en með því að innleiða fría heilbrigðisþjónustu fyrir börn yngri en 16 ára gætum við nálgast þessi lönd á því sviði.

En til þess að framkvæma þessa hugmynd þarf peninga og mikið af þeim. Hvar á að fá fjármagn til að halda þessu gangandi, gætu margir spurt? Nú þegar er Ísland í 9. sæti yfir þau lönd í Evrópu sem leggja hvað mesta prósentu af þjóðarframleiðslu í heilbrigðiskerfið. Einnig erum við í 5. sæti í Evrópu yfir hve mikið við eyðum á hvern íbúa í heilbrigðiskerfi. Afhverju þurfum við þá að borga svona há komugjöld hvert sem við förum til að fá heilbrigðisþjónustu? Hvað er verið að gera vitlaust? Hvert fara peningarnir? Sambærileg lönd bjóða ekki bara upp á engin komugjöld heldur einnig frí lyf fyrir börn yngri en 16 ára.
Nú þegar er lægra komugjald fyrir börn það munar 600kr á komugjaldi fyrir börn miðað við fullorðna, þar sem það kostar 200kr fyrir börn og 800kr fyrir fullorðna. En þetta er aðeins komugjaldið. Þegar að kemur að lyfjakostnaði er hann sá sami fyrir allan aldur. Fyrir efnalitlar fjölskyldur þá munar mikið um það þegar barn þarf að fara á sýklalyf því að almannatryggingar taka ekki þátt í kostnaði á sýklalyfjum. Það eru fleiri mjög nauðsynleg lyf sem almannatryggingar borga ekki t.d asmalyf.
Það getur haft mjög mikil áhrif á fjárhag einnar fjölskyldu sem hefur takmarkað úr að moða í hverjum mánuði, ef barnið þarf að fara til læknis og þá er það ekki þessi 600 króna munur sem gerir úrslitamuninn. Kostnaðurinn er miklu meiri til dæmis auk komugjaldsins, 200kr þá gætu komið til lyf fyrir t.d. 2500kr, kannski fær barnið vitlaus lyf þá er það aftur sami kostnaður, foreldri þarf líklega að fá læknisvottorð vegna vinnunnar sem er 1500 kr og þá er kostnaðurinn orðinn 6900kr. Af þessu má sjá að það er ekki þessi 600 króna munur sem skiptir mestu máli.
Eins og dæmið hér fyrir ofan sýndi glögglega þá er heilbrigðisþjónusta mjög dýr og þá er það helst lyfjakostnaður sem er í lang flestum tilfellum lang dýrasti liðurinn í þessu öllu saman. Þá eru rannsóknirnar ótaldar en það vill þó til að þær eru meira niðurgreiddar en flest algenstustu lyfin. Ég hef til dæmis átt við að stríða þráláta blöðrubólgu og hefur kostnaðurinn við það verið nokkrir tugir þúsunda yfir árið. Það var mjög erfitt þá mánuði sem ég þurfti að fara mikið til læknis. Ég er ekki að tala um alvarlegan sjúkdóm en hann þurfti meðhöndlun sem fyrst. Það þýddi 200 króna komugjald og svo 2500 krónur í lyfjakostnað hérna heima. En þegar ég fór út til Bretlands um páskana 2004 fékk ég blöðrubólgu og þurfti að fara á bráðamótöku. Þar voru gerðar rannsóknir og ég fékk lyf við sýkingunni. Allt þetta var frítt þrátt fyrir að ég var ferðamaður og með enga sjúkratryggingu í landinu. Þar sem ég var yngri en 16 ára þá skipti þjóðerni mitt ekki máli.
Það er líka mjög mikilvægt fyrir yngri börn að þau fái rétta meðhöndlun og réttu lyfin strax ef að þau verða veik. Því ónæmiskerfið er að styrkjast og það getur haft áhrif alla ævi þó við séum aðeins að tala um væga inflúensu. Öll fjölskyldan á ekki að þjást fjárhagslega út allan mánuðinn vegna smávægilegra veikinda barns. Einnig eru dæmi um það að foreldrar hafa ekki efni á lyfjum fyrir barnið sitt.
Bretland og Norðurlöndin eru með svipuð kerfi. Í Bretlandi er frí heilbrigðisþjónusta fyrir börn yngri en 16 ára og í Svíþjóð þarftu að byrja að borga hærra gjald á aldrinum 20-29 ára. Í Svíþjóð er almennt komugjald 1$ dollari þ.e. um 64 krónur og i Bretlandi er ekkert komugjald fyrir einstaklinga yngri en 16 ára. Þetta sýnir glöggt hvað við erum langt á eftir í þessum málum. Við erum með svipaða þjónustu þrátt fyrir miklu hærra gjald frá einstaklingum og hærra framlag frá ríkinu.

Minna efnaðar fjölskydur mundu njóta verulega góðs af ef heilbrigðisþjónusta yrði ókeypis fyrir börn undir 16 ára aldri. Peningarnir eru greinilega fyrir hendi en við erum ekki að nýta þá nógu vel. Hvert fara peningarnir? Það þarf að endurskoða hvernig við fjármögnum heilbrigðiskerfið og það er nauðsynlegt að líta nánar á þau ríki sem viljum helst miða okkur við í sambandi við efnahagskerfi þ.e. Norðurlöndin og Bretland. Þar sem þau eyða minna í hvern sjúkling og sjúklingurinn þarf einnig að borga minna. Það þarf einnig að auka hlut trygginga í lyfjaverði því þar er mesti kostnaðurinn hjá fjölskyldum oftast fólginn.
Með því að framkvæma þessa hugmynd, myndum við bæta heilsu og minnka líkurnar á því að fólk dragi það til lengdar að fara til læknis og koma hugsanlega í veg fyrir varanlegan skaða í einhverjum tilvikum.
Niðurstaða mín er sú, að endurskipulagning fjármála í heilbrigðiskerfinu, með það að markmiði að hafa ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir 16 ára og yngri, myndi fela í sér sparnað fyrir alla og þá sérstaklega þá sem þurfa mest á því að halda.