Fjölþjóða bankar og stór fjárfestingafyrirtæki eru alltaf á höttunum eftir upplýsingum sem gefa vísbendingu um hvert markaðurinn stefnir. Eru málmar á uppleið eða eru ákveðin verðbréf að falla? Er dollarinn að ná sér á strik eða er evran óstöðvandi? Tilvera fjölda fjárfestingafyrirtækja veltur á því hvort sérfræðingar þeirra geta spáð af einhverju viti í hvað gerist næst. Þeir sem kunna ekki að skyggnast í kristalkúluna eru eðlilega dauðadæmdir. Til þess að spá í framtíðina þá ráða stórir fjárfestar til sín ótrúlegan fjölda manna sem gera ekkert annað en að spá í alls konar atburði sem hugsanlega gætu haft áhrif á verðmæti aðskyldra verðbréfa og gjaldmiðla. Sem dæmi um hve langt menn teygja sig í þessum efnum, þá er fyrir löngu búið að ákveða að þegar Japanskeisari deyr eða er um það bil að skilja við, þá kaupa tölvur sjálfkrafa hlutabréf í ákveðnum japönskum pappírsfyrirtækjum. Ástæðan er sú að ef keisarinn deyr og sonur hans tekur við, þá þarf að endurprenta nærri því öll dagatöl í landinu með mynd af nýja keisaranum. Þetta er aðeins eitt lítið dæmi, en tölvubankar stórbanka og hliðstæðra fyrirtækja hafa í áranna rás verið mataðir óteljandi upplýsinga af öllu tagi sem geta haft áhrif á verðgildi hlutabréfa.

Þessi endalausa leit vísbendinga um hvernig markaðurinn hegðar sér við rétt áður en hann fer upp eða niður hefur leitt ýmislegt merkilegt í ljós. Það er t.d. talið nokkuð öruggt að efnahagur þjóðar sé jákvæður þegar mikið selst af flugeldum. Ef fólki borgar beinharða peninga í ríkara mæli en á síðasta ári fyrir eitthvað sem fuðrar upp á einu augnabliki, þá má gera ráð fyrir að það líti framtíðina björtum augum. Aukin ferðalög til útlanda eru líka vísbending um betri tíð.

Fyrir fólk sem óttast meiri háttar efnahagshrun, t.d. eitthvað í líkingu við kreppuna sem heimurinn gekk í gegnum eftir 1929, þá jafnast engin vísbending á við svokallað “hræðslustig”. Frá upphafi vega þá hefur fólk sem treystir ekki stöðugleika pappírsgjaldmiðla fjárfest í gulli. En það eru margar aðferðir sem koma til greina þegar menn kaupa gull og sumar benda til meiri ótta en aðrar. Það er hægt að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem grafa eftir gulli. Það er líka hægt að kaupa skjal sem segir að einstaklingurinn eigir ákveðið gullmagn hjá banka eða hliðstæðri stofnun – og þannig kaupa flestir gull nú á dögum. En sumir sem kaupa gull vilja fá það afhent og geyma það svo í öruggri geymslu eins og t.d. bankahólfi. Þetta er fólkið sem “hræðslustigið” mælir. Þetta er kallað “hræðslustigið”vegna þess að hagfræðingar hafa tekið eftir því að þegar óvenju margir einstaklingar krefjast þess að fá raunverulegt gull í hendurnar í staðin fyrir ávísun á það, þá er oft stutt í efnahagslegt hrun af einhverju tagi. Í hnotskurn þá er þetta einmitt ástæðan fyrir að þessi grein er skrifuð á þessu augnabliki: Á síðustu mánuðum hefur þeim einstaklingum sífellt fjölgað sem kjósa að handfjalla gullið sjálft frekar en að fá upphæðina skráða á pappír. Hræðslustigið er í hámarki.

Auðvitað getur þetta þýtt að fjöldi fólks sé haldinn móðursýki og horfir of oft á sjónvarpsfréttir. Heimur versnandi fer. Hitt er hins vegar rétt að ekkert gefur betri vísbendingu um hvað er á næstu grösum í hagkerfinu en hvað fólk gerir við sitt eigið fé. Hagfræðingar geta endalaust velt sér upp úr hugsanlegum atburðum sem gerast í ímynduðum heimi, en raunverulegt fólk tórir vegna þess að það skynjar hætturnar fyrir fram. Það er aldrei auðvelt að spá fyrir fram um hrun verðbréfamarkaða eða annarra hluta sem byggjast á fallvöltu hugarfari fólks, en hér er samt ein lítil spá: Eftir eitt ár hefur verð á gulli hækkað meira en nokkur gjaldmiðill eða hlutabréfamarkaður. Við sjáum hvað setur. [sjá meira á www. vald.org]