Ég hef ákveðið að uppræta gríðarlegan misskilning sem fyrirfinnst í íslensku samfélagi í dag.

Kredit- og debitkort eru nánast skyldueign hvers mannsbarns sem ætlar að stunda einherskonar viðskipti. Debitkort eru kort sem eru einhverskonar gátt að bankareikningi þ.e.a.s. þessi kort virka aðeins ef ákveðin upphæð fyrirfinnst á bankareikningi hvers og eins. Í stuttu máli þá þarf maður að eiga peninga til að nota debitkort. Kreditkort eru hins vegar af allt öðrum toga.

Kreditkort virka þannig að einstaklingur notar kortið óháð hversu mikla peninga hann á og fær í staðinn reikning fyrir notkun kortsins með reglulegu millibili. Í stuttu máli, maður þarf ekki að eiga peninga til að nota kreditkort

Nú verður misskilningurinn upprættur. Orðið kredit er tökuorð úr ensku máli af orðinu credit og þaðan kemur orðið úr latínu, creditum. Orðið þýðir inneign af einhverjum toga, hvort sem það er veraldleg inneign eða ekki. Orðið debit er einnig tökuorð úr ensku máli af orðinu debt og þaðan er orðið einnig fengið úr latínu, debita. Orðið merkir skuld.

Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að kreditkort ætti að heita inneignarkort og debitkort ætti að heita skuldarkort. Hins vegar stenst þetta alls ekki eins og sjá má hér að ofan. Skuldarkortið styðst við peninga sem til eru en inneignarkortið styðst, þvert á móti, við skuldasöfnun.

Þetta er misskilningur á háu stigi og þessu þarf að breyta…