Sælt veri fólkið,

Ég er aðeins búin að vera að glugga í póstana hérna og ég hef nú þegar séð þó nokkrar leiðir sem gætu hjálpað mér að skipuleggja sjálfa mig betur en ég geri nú.

Mig langar hins vegar að benda ykkur á eitt sem ég hef ekki séð minnst á hérna, gæti þó verið þar eð ég hef ekki lesið allar greinar.

Afborganir á höfuðstól!
Fyrir okkur sem greiðum af skuldabréfum og íbúðalánum er meirihluti af peningum okkar étið upp af vöxtum, verðbótum og hvað þetta heitir nú allt saman.

Ef við tökum sem dæmi mig og mín skuldabréf. Ég er að borga frá 10-15þ í hverjum mánuði af 3 skuldabréfum og þar af fer um 50-70% af upphaflega láninu, rest eru vextir og aukagjöld.
Góðu fréttirnar hins vegar, og ástæða þess að ég er að opna bókhald mitt fyrir ykkur eru, þær að hægt er að vinna á móti þessu!

Best er náttulega að taka engin lán! :) En við vitum að það er fyrir flest okkar óraunhæft markmið og því eru nokkrir hlutir sem má gera til að auðvelda okkur að komast úr þessum kröggum.

Nefnilega að borga af höfuðstóli!!
Fyrir mig þá byrjaði ég á að setja upp skuldabréfin mín 3 á exel og með því að reikna frekar raunhæft afborgunarplan þá má ég gera ráð fyrir að klára að borga skuldabréfin mín u.þ.b. 1 og 1/2 ári á undan áætlun. Og þetta þarf ekki að vera svo erfitt.

Ég gerði þetta svona:

Skuldabréf nr. 1 var með afborgun 15.475, nr. 2 13.574, nr. 3 12.335. Sem þýddi 16.000, 14.000 og 13.000 eða 43.000. Þetta eru þau útgjöld sem ég verð að gera ráð fyrir í skuldabréfin það skiptir í raun engu hvort er 41.384 eða 43.000 ef maður slummar bara á næsta þúsund þá myndast einhver afgangssumma. Þetta er ekki mikill peningur til að byrja með kanski 1 eða 2þ en það munar, trúið mér. Síðan tekur maður þessa summu og leggur inn á höfuðstólinn á einu láninu.

Ef fólk er með fleira en eitt skuldabréf mæli ég með því að fólk velji lánið sem er styst eftir, en það má að sjálfsögðu líka velja það sem er með hæstu vöxtunum eða hæstu afborguninni eða hvað þið viljið. Með hverri afborgun á höfuðstól minnkar mánaðarleg afborgun en þá er bara að halda áfram að gera ráð fyrir sömu afborgun (verum hreinskilin það skiptir ekki máli hvort við eigum 1000 eða 2000 kalli meira, við eyðum því bara hvort eð er!) Með þessu móti ætti lánið að vera búið þó nokkuð fyrr en ella. En ok þegar eitt lánið er búið þá minnkar mánaðarleg útgjöld um það en… hvað ef ekki?
Ég meina við erum hvort eð er vön að borga þessa summu (fyrir mig 43.000) allt eins gott að nýta þá þessa aukaafborgun til að borga næsta lán og þá gengur enn hraðar að borga það niður!!! En ég veit reyndar vel hvað er gaman að eiga meiri peninga þannig að það er alveg raunhæft að taka helminginn af afborguninni og nota til að auka framfærslu manns sjálfs og setja hinn helminginn í næsta lán og að sjálfsögðu þá summu sem myndast af afrúnun á hinum. Og þegar það er búið má taka helminginn af þeirri afborgun…
Má vera að þetta hljómi flókið en ég lofa að um leið og þið setjist niður og reiknið fyrir ykkur sjálf sjáið þið fljótt hvað ég er að tala um.


Þetta má gera við öll lán eftir því sem ég hef komist næst, líka húsnæðislánum. Það er samt ráð að athuga hjá viðskiptabankanum ykkar hvernig þetta stendur með ykkar skuldabréf eða skuldbindingar.
Þú þarft að fara í bankann til að borga af höfuðstóli og vera mjög skýr þegar þú tiltekur að þetta sé ekki aukagreiðsla á láninu heldur sért þú að borga af höfuðstóli. Lenti einu sinni í því að þetta var tekið sem aukagreiðsla á láninu og þá voru reiknaðir vextir á þetta!

Þetta er náttulega fáránlega létt og því er mörgum ykkar spurn afhverju hefur mér ekki verið bent á þetta fyrr? Það er reyndar mjög góð ástæða fyrir því. Bankarnir græða ekki eins mikið á þessu!!! Hugsið ykkur alla þessa yndislegu vexti sem þið eruð að “spara” ykkur og þeir eru ekki að græða!!
Í rauninni er náttulega ekki um eiginlegan “sparnað” að ræða, ég meina við erum ekki að græða neitt á þessu, en við erum að spara okkur “fyrirséð útgjöld” í formi vaxta og við erum að minnka þann tíma sem við erum fangar bankakerfisins.

Vona að þetta verði ykkur smá hugvekja og vonandi til góðs, ég hvet ykkur allavega til að leita ykkur frekari upplýsingum um þetta mál.

Með von um skuldlausa framtíð,

diaphanous