Hæ, ég heiti Jón.

Ég treysti ekki bankanum mínum fyllilega lengur.

Sá banki heitir Búnaðarbanki.

Þetta var bara venjulegur dagur, ekkert stress, allt í gúddí, og ég ákvað að fara og endurheimta notendanafn og lykilorð að Heimilisbanka, sem ég hafði áður týnt.
Allt virðist ganga smurt, læt upplýsingadömuna fá debetkortið mitt og hún les allar nauðsynlegar upplýsingar af því. Ég held heim með miðann með bráðabirgðalykilorði, sallarólegur.
Svo þegar ég er kominn heim dettur mér svo í hug að kíkja á Heimilisbankann og hvað kemur upp? Reikningar hjá einhverjum Tryggva(takið eftir því að Jón og Tryggvi eru gjörólík nöfn). Ég lít á þetta nánar, og þá eru heilar tvær millur inná reikningnum hans. “Hvur ansdskotinn,” segi ég við sjálfan mig. Lít ég svo á kennitöluna og er hún ekki nálægt því að vera lík minni. Hvernig gat konan ruglast svona á þessu? Hún var með kortið mitt fyrir framan sig.
Hafið engar áhyggjur, ég fór nú ekkert að millifæra þessar millur. Bæði af því að ég er innst inni mjög góð persóna og svo áttaði ég mig á að ég hafði ekki leyninúmerið að reikningnum og að það yrði ekki erfitt að rekja það hvort sem er.

En allaveganna, ég fer aftur í bankann daginn eftir. Tala við þjónustufulltrúa og greini frá vandamálinu. “Jahá,” segir hún. Hún lætur mig fá notendanafn og lykilorð að mínum rétta reikning og ætlar bara að ljúka okkar samræðum á því þegar ég spyr: “Á ég ekki að hringja í þennan Tryggva og segja honum bráðabirgðapasswordið, þar sem að hann kemst ekki inná Heimilisbankann sinn núna?” “Nei, nei, hann kemur bara hingað og fær nýtt þegar hann kemst ekki inn. Þú hendir bara blaðinu með notendanafninu hans.” Þar lauk samtali okkar, ég labba út og hugsa: “Huh. Þau treysta mér bara sísona til að henda blaðinu með notendanafni og lykilorði að 2 milljóna reikningi..” Og þau ætla ekki einu sinni að láta þennan Tryggva vita af þessu. Þetta er bara hið argasta cover-up á frekar óþægilegum öryggisgalla í kerfi Búnaðarbankans. “The human error”

Þá vaknar auðvitað upp sú spurning: Hvað fleira ætli geti farið úrskeyðis vegna mannlegra mistaka í bönkum? Er þeim fyllilega treystandi fyrir öllum þessum peningum? Tja, ég bara veit ekki lengur.

Jón “BigJKO” Kristján