Sjávarfiskabúr Þar sem sá er þetta ritar er að vinna í því að koma sér upp sjávarfiskabúri og starfar sem kafari, þá er tilvalið að fjalla aðeins um íslensk sjávardýr.

Ég lagði leið mína í Dýraríkið fyrir stuttu síðan til að fá tilboð í tól og tæki sem til þarf til að reka svona búr, þ.e.a.s. dælur, vatnskæli (þar sem ég verð á ferð með búrið), síur og dót. Ég hafði áður verið í sambandi við verslunarstjóra verslunarinnar í gegnum tölvupóst með afar takmörkuðum árangri þrátt fyrir ýmis loforð. Þegar ég svo mætti á staðinn mætti ég svo þvílíkum dónaskap af sama manni og þurfti ég virkilega að bíta á jaxlinn til að ljúka erindi mínu, en ekki arka á dyr. Það breyttist reyndar viðmótið þegar ég kynnti mig og bar upp erindið og ég fékk mjög lauslegar hugmyndir, en nákvæmum upplýsingum ásamt verði var lofað með tölvupósti. Síðan er vel á annan mánuð en ekkert hefur enn heyrst frá þessum manni sem virðist alls ekki vera starfi sínu vaxinn. Svona til upplýsinga, þá fór ég einnig í Fiskó og þar var mér lofað tilboði í tölvupósti. Þetta var skömmu eftir áramót og það er ekkert komið ennþá.

Nóg um það, ég er vel á veg kominn með undirbúning á uppsetningu búrsins, sem á að vera um 500 lítra og verður smíðað hjá Vélsmiðjunni Héðni við Stórás í Garðabæ. Eins og áður kom fram verður þetta ferðabúr sem ég kem til með að vera með á ferðinni, til kynninga fyrir köfunarskóla minn (Köfunarskólinn Kafarinn.is) og þarf ég þar af leiðandi að vera með dælur sem tengja má við rafgeymi sem verður innbyggður í sökkul búrsins. Vatnskælirinn verður aftur á móti 220 volta þar sem að ég tel að ekki þurfi að vera með hann stanslaust á, þannig að það ætti að vera í lagi að sleppa honum á meðan á flutningum stendur, sama gildir um ljós og slíkt.

Ég vil endilega fá svörun á þessar hugmyndir hjá mér og öll ráð væru vel þegin. Eru t.d. fleiri aðilar að selja vöru fyrir þetta, eða veit einhver um góða netverslun, eða verslun í London þar sem ég er á leiðinni þangað innan fljótlega. Ég hef ósköp takamarkað vit á þessu sjálfur þannig að endilega komið með ráð. Það er kannski best að taka fram að ég ætla að vera með kvikindi úr sjónum umhverfis Ísland í búrinu.