Ok. Ég lagði mikið í þetta verkefni og fannst að ég mætti deila því með ykkur.


Inngangur

Uggar eru eitt af því sem helst einkennir fiska. Uggar eru húðfellingar sem eru styrktar með hörðum eða linum geislum úr beini eða brjóski. Fiskarnir nota uggana aðallega til að stýra sér með og halda jafnvægi, en sumir fiskar nota þá einnig til að knýja sig áfram. Hjá enn öðrum fiskum eru uggarnir ummyndaðir í sogskálar eða getnaðarfæri og það eru meira að segja til fiskar sem fljúga á uggunum. Fjölbreytni í útlit er mikil en þeir eiga sér samt sameiginlegan uppruna. Uggar fiskanna eru raufaruggi, bakuggi, kviðuggar og eyruggar og nokkrar ættir fiska hafa að auki veiðiugga. Raufaruggi, bakuggi og veiðiuggi eru stakir uggar en kviðuggar og eyruggar eru samstæðir, tveir og tveir. Af þessum samstæðu uggum eru útlimir landdýra þróaðir.

Hlutverk ugganna.

Raufaruggi er á neðanverðum fiskinum fyrir aftan gotraufina og er notaður til að halda jafnvægi og sjá til þess, ásamt bakugganum að fiskurinn velti ekki á hliðina og virkar þá svipað og kjölur á bát. Flatfiskar, t.d. sandhverfa og koli nota þó raufaruggann (og bakuggann) til að synda með. Langflestir fiskar hafa raufarugga og þorskfiskar td. þorskur, ýsa og ufsi hafa tvo.



Bakuggi (uggar) hefur það hlutverk að halda fiskinum stöðugum á sundi. Margir fiskar hafa tvo og jafnvel þrjá bakugga t.d. hafa þorskur og ýsa þrjá, marhnúturinn tvo en lax og síld aðeins einn. Hjá ýmsum djúpsjávarfiskum t.d lúsífer og sædjöfli er geisli úr bakugga ummyndaður í ljósfæri. Hjá dvalfiskum er fremri bakuggi ummyndaður í sogskál.

Eyruggar eru tveir, sinn á hvorri hlið fisksins. Þessa ugga notar fiskurinn til að halda sér stöðugum í vatninu en einnig í mörgum tilfellum til að stjórna sundhreyfingum sínum. Þeir eru notaðir til að beygja og ef fiskur þarf að stöðva snögglega notar hann oftast eyruggana til þess. Einnig geta þeir notað þá til að spyrna sér snöggt áfram og jafnvel til að þoka sér afturábak. Aðrir fiskar, sérstaklega hákarlar nota þá til að stjórna ferð sinni upp og niður. Þá virka þessir uggar einsog hæðarstýri á flugvél. Skatan notar börðin til sunds en börðin eru reyndar eyruggar hennar. Flugfiskar geta svifið allt að 100 metra á eyruggunum.

Kviðuggar eru tveir. Þeir eru aftarlega á kviðnum á sumum tegundum en fram undir haus á öðrum. Þeir halda fisknum í jafnvægi í vatninu ásamt hinum uggunum og fiskurinn notar þá til stefnubreytinga og til að stöðva. Hjá hrognkelsum og skyldum tegundum hafa kviðuggarnir ummyndast í sogskál sem fiskurinn notar til að halda sér föstum. Hjá karlfiskum sumra háffiska og skata hafa kviðuggarnir ummyndast í getnaðarfæri sem karlinn notar til að koma kynfrumum sínum í kvendýrið.

Að lokum má nefna veiðiuggann sem er fyrir aftan bakugga á fiskum af laxfiskaætt og nokkrum öðrum ættum. Í honum eru engir geislar og hlutverk hans er óljóst. Hugsanlega er hann notaður til sunds eftir að lirfustigi lýkur og aðrir uggar eru vanþroskaðir.

Gerð ugganna og örlítið um þróun þeirra.

Venjulega er núlifandi fiskum skipt í tvo meginflokka, brjóskfiska og beinfiska. Brjóskfiskar eru taldir hafa komið fyrr fram eða fyrir um 400 miljónum ára. Ekki er mjög mikið vitað um þróun brjóskfiska því brjóskið í þeim eru þannig gert að það varveitist illa og því ekki til mikið af steingerðum brjóskfiskum. Beinfiskar, svipaðir styrjum nútímans komu fram litlu síðar. Uggarnir á bein- og brjóskfiskum virðast svipaðir útlits og eru oftast jafnmargir. Gerð þeirra er hinsvegar nokkuð ólík. Hjá brjóskfiskum eru geislarnir mjög fínlegir, þeir greinast ekki og þeir eru óliðskiptir. Útlitið endurspeglar þetta og uggarnir eru að sjá eins og húðblöðkur og geislarnir sjást yfirleitt ekki. Brjóskfiskar geta ekki stjórnað eins vel fínhreyfingum ugganna og beinfiskarnir. Uggar beinfiska hafa hinsvegar tvennskonar geisla, liðgeisla og broddgeisla. Liðgeislarnir eru liðskiptir og greinóttir og uggar sem hafa þannig geisla eru mjúkir og sveigjanlegir. Broddgeislar eru hinsvegar mun harðari og geislarnir standa út úr ugganum eins og gaddar.



Hver geisli er tengdur við nokkra smávöðva og það gerir það að verkum að fiskurinn getur hreyft hvern geisla fyrir sig. Einnig eru vöðvaþræðir á milli geisla þannig að fiskurinn getur lagt uggana saman. Þetta allt gerir það að verkum að fiskurinn hefur mjög góða stjórn á hreyfingum ugganna. Geislarnir í uggum beinfiska sjást mjög vel og húðin á milli þeirra er oftast mjög þunn.
Greina má ákveðnar tilhneigingar í þróunarsögu þessara samstæðu ugga beinfiskanna. Á frumstæðum tegundum, það er tegundum sem eiga sér langa sögu, eru kviðuggar aftarlega á kviðnum vel fyrir aftan eyrugga. Í nýrri eða þróaðri tegundum eru þeir framar á búknum, beint undir eyruggunum eða jafnvel enn framar. Eyruggarnir eru einnig ofar á búknum hjá þróaðri tegundum. Þetta veldur því að þessir fiskar geta betur stjórnað hreyfingum sínum, sérstaklega á hægu sundi og nota í auknum mæli eyrugga og kviðugga til þess. Önnur tilhneiging í þróun ugga er að broddgeislar með hvössum broddum sem standa út úr uggunum verða algengari en hinir mjúku liðgeislauggar sjást sjaldnar. Þessir broddar eru góð vörn gegn rándýrum. Samkvæmt framansögðu er auðvelt að sjá að lax og síld eru frumstæðar tegundir en þorskur og sérstaklega karfi og marhnútur eru þróaðri

Takk fyrir
Plebbin