Jæja, þá er ég búinn að plægja mig gegnum FFXII. 76 klukkutímar fóru í þennan leik, og ég sé ekki eftir þeim, frekar en fyrri daginn.

Það var ýmislegt sem kom mér á óvart við þennan leik. Allar söguhetjurnar voru viðkunnanlegt og töff fólk, laust við allt óþarfa væl og rugl. Söguþráðurinn innihélt pólitíska undirtóna og var nokkuð dýpri en það sem maður á að venjast í seríunni (að hinum leikjunum ólöstuðum). Allt umhverfi var mjög fallegt, byggingarnar tilkomumiklar og það var flott að sjá loftskipatækninni hampað. Það var hinsvegar einn hlutur í þessum frekar heilsteypta pakka sem skar sig úr í mínum huga:

SPOILERAR FRAMUNDAN

Aðalskúrkurinn. Vayne Solidor.

Vayne er algjörlega sér á báti í litríkri flóru FF-skúrka. Hann er ekki geðveikur. Hann hefur markmið sem ná lengra en “Drepa allt sem lifir af því ég er algjör níhilisti”. Hann sýnir ekki óþarfa hrottaskap. Hann myrðir ekki fólk af handahófi til að láta í ljós óánægju sína, eða til að sýna hversu mikill harðjaxl hann er. Hann er ekki rammgöldrótt ofurmenni eða ævaforn ófreskja.

Hann er maður.

Ekki venjulegur maður, að vísu (og reyndar ekki alveg mennskur í bláendann), heldur maður með hugsjón sem er ekkert svo galin. Og viljafestuna til að gera næstum hvað sem er til að fá hana í gegn, vegna þess að hann er sannfærður um að hann sé að gera rétta hlutinn. Hann hefur meira að segja að mörgu leyti rétt fyrir sér. Að losa mannheima undan ígripum hinna ódauðlegu Occuria er, að ég held, mjög jákvætt skref fyrir Ivalice. Það er aðeins óvissara með að nota manngerðu Nethicite-steinana til að leggja undir sig allt Ivalice, en Raithwall tókst eitthvað svipað fyrir langa löngu og það virtist hafa gengið ágætlega.
Hann er samt skúrkur. Hann lét mjög sennilega eitra fyrir keisaranum föður sínum og klíndi því svo á þingið til að sölsa undir sig allt vald í Arcadia-heimsveldinu. Hann sýnir andspyrnunni í Dalmasca enga miskunn og hikar ekki við að beita yfirþyrmandi herafla sínum til að mola hana. Hann hyggst beita gereyðingarvopnum til að leggja undir sig heiminn. En hann er ekki beinlínis illur. Hann nýtur þess ekki að gera þetta. Fyrir honum eru þetta nauðsynlegar fórnir sem eru heimalandi hans og fjölskyldu, og jafnvel Ivalice öllu, fyrir bestu.

En hann missir sjónar af smáatriðunum fyrir yfirlitsmyndinni, fer yfir strikið, og það verður að stöðva hann. Hann telur sig vera hinn nýja Raithwall, en hann hefur ekki leiðtogahæfileika hans, eða leiðsögn frá hinum ódauðlegu. Hann myndi aldrei verða neitt annað en snjall harðstjóri, og undir hans stjórn myndi Ivalice sennilega molna.

Ekki misskilja mig. Skúrkarnir í hinum FF-leikjunum eru mjög töff, og margir hverjir útpældir og áhugaverðir karakterar. En Vayne er sá eini hingað til, að mínu mati, sem er TRÚVERÐUGUR. Ekki einhver erkitýpa, heldur maður með hugsjón sem missti sig yfir strikið.

Ókei, jú, hann breyttist auðvitað í risastórt vélferlíki í bláendann, en sumir hlutir verða bara að vera í Final Fantasy-leik.