Kingdom Hearts: Chain of Memories Hefur einhver prófað þennan leik? Hann er í Gameboy Advance og kom út 2004. KH:COM er skammstöfun leiksins og 666 er klárlega skammstöfun bardagakerfisins því það…er…djöfullinn!

Spilunin: Þú ert basically hlaupandi um sömu heima og í upprunalega KH (Halloween Town, Atlantica, Monstro…), nema hvað að þeir eru allir ótrúlega svipaðir hvorum öðrum, bara með mismunandi litum og áferð á veggjunum. Öll borðin eru keimlík vegna þess að þau samanstanda af herbergjum sem eru með 1-4 hurðum og eru gerð úr mörgum þrepum sem þú klífur.

Um herbergin flakka heartless sem hlaupa á mann ef maður er ekki kjur, en þá byrjar bardagi. Þannig að þetta eru hálfgerð random encounters, nema hvað að þú getur flúið frá encounterinu áður en það nær þér. Þetta á víst að vera svipað í FFXII, en guð minn góður, hvað ég vona að þetta verði ekki nákvæmlega svona. Þetta er hræðilegt.

Bardagakerfið: Úff. Flest move-in úr fyrri leiknum eru til staðar (strike raid, ars arcanum…) að viðbættum nokkrum nýjum (zantetsuken og fleirum) og Sora getur notað fullt af magic og summon kvikindum. Hljómar spennandi, en er það því miður ekki. Af hverju? Ó jú, kæru börn, vegna þess að ekki er notast við ótakmarkaðar hack&slash aðferðir KH sem allir þekkja og elska, heldur veltur allt á…spilum. Hver einasta árás, frá risastórri þrefaldri eldingu a la Andrés, til pínkulítils höggs með keyblade-inu, krefst spils. Hvert spil er með styrkleikanúmer, 1-9, en það gefur augaleið að því hærri sem talan er, því öflugra er spilið. Nema þegar talan er 0. Þá getur þú notað það til að “brjóta” spil andstæðingsins svo hann geti ekki notað það aftur. Andstæðingurinn getur líka brotið spilin þín. Aðeins eitt spili getur verið “í gangi” í einu, og þ.a.l. verður maður stundum að bíða eftir að óvinur er búinn að nota sína ótrúlega kröftugu árás, áður en maður gerir eitthvað aumt, því annars myndi árásin manns brotna áður en maður gæti actually notað hana.

Svo getur maður ýtt á tvo takka í einu og sent eitt spil í einu í svokallaðan bunka, en í þennan bunka komast þrjú spil. Þegar þú ert búinn að fylla bunkann geturðu notað öll spilin þrjú í einu, og gildir þá heildarsumma spilanna, og leiðir þetta að mun kröftugri árás fyrir vikið. Eins og að nota þrjú Cloud spil í einu leiðir að Omnislash, í staðin fyrir að einn Cloud leiði að Cross slash.

Svo ertu ekki svo heppinn að njóta aðstoðar Andrésar og Guffa og Alladíns og fleiri eins og í fyrri leiknum, ekki aldeilis. Hjálpin frá þeim berst í formi spila sem koma skoppandi inná skjáinn með reglulegu millibili með andlitsmyndum hvers og eins. Þú verður að hlaupa þau uppi, ná þeim og þá getur summonað þá, en þá koma þeir og gera einhvern óskunda, mismikinn að sjálfsögðu. Guffi er vita gagnslaus þar sem hann hleypur yfir skjáinn með skjöldinn sinn, hittandi ekki skapaðann hlut, en Andrés er þægilegur, þar sem hann notar eldingu og læknar mann og hvaðeina.

Þetta er allt gott og blessað, nema það að þú getur bara verið með ákveðið mörg spil á hendi þegar þú ferð inn í bardaga, og þegar þú ert búinn að nota spil þá hverfur það. Hvað á þá að gera þegar þú ert búinn með öll spilin? Jú, þú “hleður” stokkinn þinn upp á nýtt. Það tekur eina sekúntu í fyrsta skiptið sem þú hleður í bardaga, tvær í næsta og þrjár í öll skiptin þar á eftir. Þetta væri ekkert mál ef það væri ekki þannig að í hvert skipti sem þú hleður þá færðu færri spil til baka en þú bjóst yfir fyrst. Þar af leiðir að ef þú ert í mjög löngum bardaga, t.d. við Darkside sem er með viðbjóðslega mikið líf, og notar öll spilin þín trekk í trekk og hleður reglulega, þá kemur að þeim tímapunkti í bardaganum að þú stendur uppi með tvö spil, eitt magic og eina árás, sem þú neyðist til að eyða þremur sekúntum í að hlaða Í HVERT EINASTA SKIPTI þegar þú ert búinn að nota þau. Það er ólýsanlega leiðinlegt að taka brotabrot af lífi óvinarins, hlaða í þrjár sekúntur, taka annað brotabrot, hlaða, o.s.frv. Það er helsti gallinn við leikinn. Og það er þetta sem hindrar mig í að vinna leikinn, þó að ég sé næstum því kominn í síðasta endakallinn.

Söguþráður: Það eina sem hífir þennan leik upp af einhverju viti er söguþráðurinn. Jújú, hann virðist vera næfurþunnur í byrjun leiksins (“Við erum í kastala sem er að sjúga úr okkur minningarnar, og því lengra sem við förum því meira gleymum við, og úps, hvað er hérna nema allir heimarnir úr fyrsta leiknum, en við munum einmitt ekki eftir þeim þannig að vinnum þá aftur!”) en hann þéttist þegar líður á. Mjög töff pæling með ljóshærðu stelpuna sem Sora man ekki hvað heitir.

Extras: Svo er reyndar svona aukadót sem þú færð þegar þú vinnur leikinn, en það er önnur útgáfa af leiknum. Þ.e. þú spilar sem annar en Sora og spilar aðra sögu. Mér hefur enn ekki tekist að sigra þennan leik og veit þ.a.l. ekki hvernig þessi útgáfa er, en ég leyfi mér að giska á að hún sé svipuð hinum, nema aðeins meira dark. Ég ætla ekki að spoilera hver þessi leynikarakter sem maður spilar er.

Niðurstaða: Allt í allt er þetta ekkert sérstakur leikur, fyrir utan söguna. Ég mæli samt með honum við KH aðdáendur sem vilja fá smá nostalgíu áður en KH2 kemur, en fyrir utanaðkomandi, sleppið þessu.

Kingdom Hearts: Chain of Memories: 6,5