Final Fantasy: Advent Children umsögn Eftir að hafa horft á Final Fantasy: Advent Children get ég loksins skilið hvers vegna Square settu þessa mynd ekki í bíó. Henni hefði verið algjörlega slátrað af gagnrýnendum og þeir einu sem hefðu borgað sig inn á hana hefði verið Final Fantasy nördar. Þetta segi ég án þess að hika því Advent Children er í rauninni bara eins og eitt langt myndband úr Final Fantasy leik. Öllum aðal persónunum er troðið í myndina og fullt af litlum bröndurum og dóti sem aðeins FFVII aðdáendur skilja. Þetta er semsagt mynd sem er hönnuð fyrir FFVII fans.

Advent Children byrjar á stuttu atriði sem er í rauninni alveg sama atriðið og FFVII endaði á. Red XIII að hlaupa upp klett með fjölskyldu sinni og svo endar það á því að þau horfa yfir Midgar borgina, sem er orðinn grasi vaxin. Þá koma upp stafirnir “498 árum áður” (semsagt 2 árum eftir atburði FFVII) og byrjar myndin þar. Ég ætla ekki að skemma söguþráðinn, sem þó er næfurþunnur (myndin er eiginlega bara eitt stórt bardagaatriði) fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina og fer þess vegna ekkert nákvæmlega út í það sem gerist. En myndin snýst um það að allt er farið til helvítis í heiminum eftir atburði FFVII og jörðin er farin að snúast gegn fólkinu, plága ríkir og fullt af fólki er veikt. Til að bæta gráu ofan á svart eru þrír bræður með silfurlitað hár, sem eru voðalega einfaldar persónur eitthvað (gefst enginn tími til að byggja upp persónurnar því alltaf þegar þeir eru á skjánum eru þeir að berjast) að reyna að koma af stað einhverju “reunion”, sem ég ætla ekkert að fara nánar út í…en það er allavega ekki gott. Ég get sagt það. Sephiroth er svo að sjálfsögðu hent þangað inn en hlutverk hans er verð ég að segja frekar tilgangslaust og ruglandi. Hann var bara settur í myndina til að valda fanboyunum ekki vonbrigðum.

Hasarinn í myndinni er rosalega flottur og er hún hreinlega full af bardagaatriðum. Lítið er samt notað af göldrum (materia) sem olli mér smá vonbrigðum. Það hefði verið frekar töff. Í einu atriði leiksins summonar vondi kallinn Bahamuth sem ætlar að ráðast á Tifu. Barret kemur allt í einu til hjálpar og fer að skjóta á hann upp úr þurru. Ef ég hefði ekki spilað FFVII hefði ég hugsað “hver í andskotanum er þetta!?” Og svo hefði það bara orðið meira ruglandi þegar Yuffie, Cid, Vincent, Cait Sith og Red XIII komu líka til hjálpar. Fæst þeirra höfðu komið áður fram í myndinni. Þetta er bara gott dæmi um það hvernig þessari mynd er bara beint að FFVII aðdáendum.

Tæknilega séð er myndin aðeins “óraunverulegri” en Spirits Within, hún er meira í stíl við leikina. Ég þarf sennilega ekkert að vera að fara nánar út í það hér því allir vita líklegast hversu flott hún er enda eru Square langt á undan fyrirtækjum eins og Pixar og Dreamworks í þessum málum. Þessi menn kunna sitt fag. Tónlistin er líka alveg frábær. Mörg lög úr leiknum eru notuð en flest með smá breytingum. Það er líka búið að henda smá rokktónlist í þetta. Talsetningin er alveg til fyrirmyndar. Það vill oft verða í svona myndum að einhverjir hljóma kjánalega og þar sem maður hefur spilað FFVII án þess að heyra röddina í neinum, og hefur ímyndað sér hvernig persónurnar hljóma vill maður ekki að þetta verði eitthvað mess. Ég veit samt ekki hvernig enska talsetningin verður, ef hún verður talsett. Ég horfði á hana á Japönsku með enskum texta.

Ég elska Final Fantasy VII. Sá leikur er eitthvað mesta meistaraverk sem ég hef nokkurn tíman spilað. Og það að fá að skyggnast aðeins aftur í heiminn sem hann gerðist í var mjög gaman. Og skemmti ég mér þess vegna mjög vel við það að horfa á þessa mynd.

Niðurstaðan er einfaldlega þessi:

Ef þú hefur ekki spilað FFVII er þetta bara algjört rugl.

Ef þú ert aðdáandi leiksins munt þú hafa gaman að þessu.

Mjög einfalt.