Ivan Ivankov *Greinakeppni*
Ivan Ivankov er 167 cm á hæð, fæddist 10. apríl 1975 í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Faðir hans sem vinnur núna í Ólympíusambandi Hvíta-Rússlands, svipað og ÍSÍ hérna. Móðir hans vinnur í búð og yngri bróðir hans á heima í Oklahoma.

Ivan byrjaði í fimleikum árið 1981 þegar hann var 6 ára, þegar þjálfarar komu á leikskólan hans. Hann æfði stíft og komst í landsliðsæfingabúðir sovéska junior landsliðsins við Round Lake, sem var alls ekkert auðvelt, því framboðið á fimleikamönnum í þáverandi sovétríkjunum var gríðarlegt og maður þurfti að berjast fyrir sætinu sínu á hverjum degi.

Árið 1989 lenti hann í 4. sæti á fyrsta stórmótinu sínu. Hann fór ásamt sovéska landsliðinu á Evrópumót juniora árið 1990 í Austurríki en það var bara liðakeppni. Árið 1991 var hinsvegar einstaklingskeppni á Evrópumóti juniora sem var haldin í Grikklandi, en þangað fór hann án þjálfaranna sinna því það var bara nægur peningur fyrir aðallandsliðsþjálfarann. Keppendurnir þurftu að hlaupa á milli upphitunarstaðarins og keppnishallarinnar á milli áhalda, svo að þeir gátu ekki fylgst mikið með einkunnunum sínum, né annarra. Þegar Ivan kláraði hringina, sem voru seinasta áhaldið hans, óskaði aðstoðarþjálfarinn honum til hamingju með að vera orðinn Evrópumeistari. Daginn eftir keppti hann á öllum áhöldum aftur og vann gull á bogahesti, hringjum, var jafn Vasilenko á stökki og vann svifrána og sigraði samanlagt. Hann kom heim með 5 gullmedalíur og þjálfarinn hans trúði því ekki. Árið 1992 keppti hann á Evrópumóti Seniora í Ungverjalandi og gerði m.a. Kolman á svifrá.

Á heimsmeistaramótinu í Brisbane í Ástralíu árið 1994 kom Ivan Ivankov, lítið þekktur í alþjóðlega fimleikaheiminum mjög á óvart með því að sigra liðsfélaga sinn, heims og ólympíumeistarann Vitaly Scherbo. En í einstaklingskeppninni lenti hann Yurchenko með tvöfaldri skrúfu aðeins meira vinstra megin og það snappaði eitthvað í hásininni á honum, hann hristi það af sér og kældi það niður og fékk reglulegar cortisone sprautur í hana. Sama ár vann hann Evrópumótið en þá var verkurinn kominn aftur. Svo lenti hann í 18. sæti á heimsmeistaramótinu 1995.

Hann varð Evrópumeistari í annað sinn árið 1996 en gat varla labbað útaf hásininni þegar hann kom til Atlanta til að keppa á Ólympíuleikunum þar. Tveimur vikum fyrir mótið, sprautaði bandarískur læknir verkjaeyðandi lyfinu Lidocaine í hásinina á honum, hann hreyfði ökklann smá og átti að taka smá labb á bílastæðinu, en í þriðja skrefi snappaði hásinin alveg svo að það leið næstum því yfir Ivankov. Ólympíuleikarnir voru búnir fyrir Ivan, áður en þeir byrjuðu. Hann gekkst undir skurðaðgerð sama dag en hásinin var svo illa farin eftir allar cortisone sprauturnar svo að í annarri skurðaðgerð þurfti að færa vöðva úr kálfanum í hælinn á honum til að búa til nýja hásin. Hann fór stífa endurhæfingu hjá Keith Kleven, sem hefur einnig séð um Tiger Woods, Mike Tyson og hafnaboltamanninn Greg Maddux.

Ivankov náði sér að fullu á innan við ár eftir seinni skurðaðgerðina og varð þriðji maðurinn í heiminum til að sigra einstaklingskeppnina á heimsmeistaramóti í annað skipti en gerði það í Lausanne í Sviss árið 1997. Hann gerði það þrátt fyrir fall af bogahestinum og endaði með því að vinna Alexei Bondarenko frá Rússlandi.

Hann missti af heimsmeistaramótinu í Kína vegna bakmeiðsla, en það hafði ekki áhrif á hann, hann hafði allan hug sinn við Ólympíuleikana í Sydney 2000. Á Evrópumótinu í Bremen, Þýskalandi, lenti hann í öðru sæti og fékk í kjölfarið gullmynd af sér á forsíðu Sports Illustrated’s Olympics issue og var titlaður ‘besti fimleikamaður í heimi’. En dómararnir í Sydney voru ekki alveg sammála því og hann endaði 4. í einstaklingskeppninni. Hann var næstum því hættur útaf þessum árangri, en kom aftur þökk sé vinum hans, sem sögðu honum að koma og æfa smá með þeim og hafa gaman, sem þróaðist svo aftur útí alvarlegar æfingar

Hann sneri aftur og keppti á heimsmeistaramótinu í Ghent, Belgíu með það í huga að verða þrefaldur heimsmeistari í einstaklingskeppni, en hann datt aftur á bogahestinum og varð í 28. sæti eftir 2 áhöld, en náði að vinna sig uppí annað sætið þar sem hann þurfti 9,688 á seinasta áhaldinu til að vinna, en náði einungis 9,600 svo hann varð að sætta sig við annað sæti. En Hvíta-Rússland varð í fyrsta skipti heimsmeistari í liðakeppni

Ivankov keppti á Ólympíuleikunum í Aþenu en ekki á öllum áhöldum og náði best 9,762 á tvíslá sem skilaði honum 4. sæti. Og hann komst ekki á blað á heimsmeistaramótinu 2005 í Ástralíu

Hann keppti samt á heimsmeistaramótinu í Árósum í Danmörku 2006 sem ég fór að horfa á, og sá hann keppa, svakalega flottur fimleikamaður. Hvíta-Rússland lenti í 5. sæti eftir harða keppni við Rúmena. Ivankov náði 5. sæti á hringjum og á tvíslá, 9. sæti á svifrá og 39. sæti á bogahesti. En það var mjög gaman að horfa á hann á þessum 4 áhöldum sem hann keppti á.

Núna er Ivankov giftur Suzi, sem er eróbik/yoga/pilates kennari. Ivankov er guðfaðir Alexei Nemov yngri og getur talað rússnesku og ensku. Honum finnst gaman að veiða, hlustar á pop-tónlist og finnst kappakstur skemmtilegur. Hann lítur upp til körfuboltamannanna Michael Jordans og Shaquille O’Neal. Hann og gömlu liðsfélagarnir í gamla sovéska og hvíta-rússneska liðinu halda ennþá sambandi við hvorn annan, þótt að þeir séu fluttir sitt á hvað um heiminn.
Þjálfararnir hans hafa verið: Vladimir Vatkin, Viktor Doylidov en núverandi þjálfari hans heitir Yuri Koval


Heimildir: http://www.intlgymnast.com/interview/ivankov_ivan.html
http://en.wikipedia.org/wiki/2006_World_Artistic_Gymnastics_Championships
http://en.wikipedia.org/wiki/2005_World_Artistic_Gymnastics_Championships
http://en.wikipedia.org/wiki/Gymnastics_at_the_2004_Summer_Olympics
http://abc.net.au/olympics/2004/profiles/ivanivankov.htm
http://www.worldchampgym2003.com/athletes/intlbios_m.html#ivankov
http://www.fig-gymnastics.com