Já hversu oft hefur maður ekki látið sig dreyma um það að komast til framandi landa, kynna sér aðra menningu og sjá stórkostleg mannvirki eins og píramídana, meyjarhofið, skakka turninn o.s.frv.
Jú jú mjög oft. En ég er með smá sögu að segja.
Ég hef farið til annara landa, skoðað manningu þeirra og slíkt og jú jú þetta er allt flott en það er ekkert, enn sem komið er, slegið út þá upplifun að vera bara hér á Íslandi og skoða sig um.
Ég bý út á landi umlukinn sjó og fjöllum og fer eins oft og ég get labbandi, siglandi og hjólandi um þetta svæði sem er ekki í meira en 15km radíus frá mér. Það sem ég sé, uppgötva á þessum ferðum er hreint stórkostleg upplifun, mun sterkari en t.d. að labba upp á Acropolis (sem er samt mjööög flott).
Það eru engin stórkostleg náttúru undur sem maður er að uppgötva á þessum ferðum heldur bara einföld, falleg, róandi svæði sem eru laus við öll fingraför mannsins, þessi svæði sem maður vissi aldrei af en talar kannski ekkert sérstaklega um heldur. En tilfinningin sem kemur yfir mann þegar maður labbar fyrir tilviljun á svona stað er frábær. Maður bara sest niður og glápir út í loftið og nýtur lífsins. Þetta finnst mér vera meira virði heldur en allt það sem er verið að auglýsa í fjölmiðlum, bæklingum og slíku.
En ég er samt á engan hátt að tala illa um þessar ferðir og staði sem verið er að bjóða upp á. Þvert á móti. Það sem ég er að segja með þessu er að maður leitar oft langt fyrir skammt.
Maður er ekkert alltaf að átta sig á því en stundum er kannski eitt eftirminnilegasta ferðalag ævi manns bara steinsnar frá útidyrahurðinni. Ein sem maður þarf að gera er bara að leggja af stað.