“Ég sé hann lifandi fyrir hugskotssjónum, þó að nú séu liðin tuttugu ár frá því þessir atburðir gerðust. Þarna stendur hann í glampanum frá varðeldinum, snaggaralegur, unglegur og fullur lífsgleði. Aðra stundina grafalvarlegur, en hina fullur gáska og svarar alls konar spurningum, hermir eftir fuglum, segir skemmtisögur og dæmisögur. Sýnir áheyrendum hvernig á að bera sig að við að elta uppi veiðidýr og rekja slóð þess. Þess á milli syngur hann og dansar umhverfis varðeldinn”.

Sá sem hér hélt á penna var Sir Percy Everett, bókmenntaritstjóri forlagsins Arthur J. Pearson Jr. sem var á ferð að undirlagi forstjóra síns á lítilli eyju við Poole Harbour, Brownsea eyju, í síðustu viku júlímánaðar árið 1907. Þarna hitti Sir Percy fyrst Sir Robert Baden-Powell hershöfðingja og þjóðhetju í afar óvenjulegum félagsskap, í hópi 22 stráka á aldrinum 13-16 ára, sem fylktu sér undir fánum í fjóra flokka sem þeir kölluðu Úlfa, Uxa, Spóa og Hrafna.

<b>Baden-Bowell</b>
B-P stóð á fimmtugu, herforingi sem starfað hafði nær allan starfsaldur sinn á Indlandi og í Afríku. Hann stóð þá á hátindi frægðar sinnar eftir að hafa stjórnað hetjulegri vörn Mafekingborgar í Suður-Afríku. Við heimkomuna varð hann þjóðhetja og eftirsóttur gestur á fundum félaga og samtaka. Má miða vinsældir hans við vinsælustu hljómsveita- eða kvikmyndastjörnur samtímans.

B-P hafði hrifist af uppeldismálum og vildi leysa börn og unglinga úr viðjum stórborganna og kynna þeim náttúruna. Hann vildi einnig efla sjálfstraust og ábyrgðartilfinningu þeirra, þar taldi hann að frelsi og sjálfsábyrgð sem felst í skátastarfi skilaði meiri árangri en strangur skólaagi.

B-P sagði að hættulegast væri að flestir væru aðeins áhorfendur að lífinu, hann taldi nauðsynlegt að allir væru virkir þjóðfélagsþegnar. Hann beið ekki boðanna, ræddi hugmyndir sínar við marga málsmetandi menn og undirbjó sig vandlega, síðan bauð hann til útilegunnar á Brownsea eyju og reyndi hugmyndir sínar í verki.

<b>Útilegan á Brownsea</b>
Í þessari fyrstu skátaútilegu komu saman níu drengir úr helstu menntaskólum Englands; Eaton, Charterhouse, Harrow, Cheltenham, Repton og Wellington og níu strákar úr Drengjasveitinni (Boys Brigade) í Poole og Bornemouth. Auk þeirra nokkrir synir vinafólks B-P. “Þetta var eins og að vera boðið í konungshöllina, ekkert undanfæri að taka þátt í útilegunni”: sagði einn drengjanna frá Poole. Hugsið ykkur útilegu á sjóræningjaeyju, Gulleyjan og Robinson Krúsó svifu fyrir hugskotssjónum.

Meðal verkefnanna var kennsla og æfingar í að reisa og fella tjald, búa til einfalt skýli og vefa sér mottu til að liggja á og brauð var hnoðað með þeim nýstárlega og örugga hætti að hver og einn setti hveiti, salt og ger í buxnavasann og síðan var bleytt í þessu og hnoðað í vasanum. Margir voru skammaðir duglega þegar heim kom fyrir útlitið á buxunum. Þetta er samt ágæt aðferð sagði B-P. Um kvöldið stjórnuðu B-P og aðstoðarmaður hans MacLaren varðeldinum. Þeir sögðu sögur, fræddu og glöddu áhugasama drengi, sem létu sér vel líka þrátt fyrir flugnabit. Þarna kannaði B-P áhrif kennsluaðferðar sinnar sem hann nefndi “learning by doing” - athafnanám - og sá hvernig skátaflokkurinn fæddist. Skátastarfið er bæði persónuleg þjálfun og vinna í samstilltum flokkum. Allir flokksmenn höfðu ákveðin skylduverk.

Útilegan tókst framar vonum, það var auðvitað að þakka hæfileikum hans, en engu að síður aðferðunum sem hann beitti. Síðar ritaði hann um útileguna: “Manni gafst best að kenna erfiða hluti með því að segja frá viðfangsefninu við varðeldinn, greina atriðin vel í sundur og krydda efnið með sögum og leikjum. Morguninn eftir var tekið til óspilltra málanna og strákarnir reyndu sig við verkefnin”. Venjuleg skólakennsla er leiðigjörn og aðferðin við að þjálfa sig var fólgin í því að læða verkefnunum að þeim í leikjum, æfingum og keppni milli flokkanna sem drengirnir skiptust í.

<b>Scouting for boys</b>
Að útilegunni lokinni ritaði B-P bók sína “Scouting for boys”, sem kom út á íslensku árið 1948 undir nafninu “Skátahreyfingin”. Hún varð metsölubók í tæpa sjö áratugi. “Hvernig verður þú skáti?” spyr B-P. Þú færð með þér félaga þína (5-6 saman) og þið myndið skátaflokk. Ef tveir eða fleiri flokkar eru í nágrenninu þá fáið þið einhvern fullorðinn til að hjálpa ykkur og hann verður sveitarforingi.

Sannarlega var það einfalt, skátaflokkar drengja og stúlkna spruttu upp víðs vegar um Bretlandseyjar. B-P varð fljótlega að gera störf fyrir skátahreyfinguna að öðru ævistarfi sínu. Hér sannaðist sem oftar að mjór er mikils vísir og nú rúmum 90 árum síðar eru starfandi skátar um 35 milljónir en nærri 300 milljónir manna hafa verið félagar í skátahreyfingunni.

Skátahreyfingin miðar stofndag sinn við þessa fyrstu útilegu. Skátastarfið náði til barna og unglinga fyrirhafnarlaust. Skátahreyfingin lét heldur ekki staðar numið á Bretlandseyjum heldur barst undraskjótt til nágrannalandanna og hingað til lands sumarið 1911 aðeins réttum fjórum árum eftir útileguna frægu á Brownsea eyju.
kv. Sikker