Laugavatn er ansi skemmtilegur staður, þar er einstaklega skjólgott þannig að yfirleitt þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að tjaldið fjúki af manni.

Tjaldstæðið er í skemmtilegum skógi, en það var áður niður við vatnið, sem var að mínu mati skemmtilegri staður.

Laugavatnið sjálft er frekar lítið, og það rennur í það heitt vatn þannig að það er hægt að synda í því í góðum veðrum. Mér fannst einstaklega gott að fara með vindsængina mína út vatnið í sólbað, einnig ansi gaman að velta stelpunum af sínum sængum.

Við Laugavatn er ómögulegt að láta sér leiðast, einhver veiði er í vatninu en að mínu mati er fiskurinn algjörlega óætur sem kemur upp úr því, en stutt er að fara að Apavatni sem betri veiði er og bragðbetri fiskur.

Hægt er að bregða sér á Svínavatn og fara þar á Jet Ski (íslenskt orð?) og þar er líka hægt að láta draga sig á ofurvaxinni pulsu, en það er tryggt að þú heldur þér ekki lengi á henni í einu.

Þó Laugavatnið sjálft sé mjög fallegur staður, þá er stutt að taka sér bíltúr og skoða Gullfoss, Geysi, Þingvelli, Hekla nýtur sín einnig vel þarna.

Úthlíð er þarna við, en þar er oft glatt á hjalla, bar og skemmtilegheit og oft skemmtileg böll. Ég held að Rúnar Júlíusson sé fastagestur þar.

Auðvitað eru hestaleigur þarna, golfvöllur, tennisvöllur og fleira tengt íþróttum, enda er þarna Íþróttakennaraskólinn.

Stuttur bíltúr er í helli, sem er rétt áður en farið er yfir heiðina yfir til Þingvalla, minnir að sú heiði heiti Lyngdalsheiði, í þessum helli bjó víst fólk nokkuð lengi og höfðu sinn búskap með sér í hellinum. Þar er nauðsynlegt að festa nafnið sitt í hellisvegginn, en hann er mjög mjúkur þannig að létt er að mynda för í hann með steini.