Þeir sem hafa áhuga á að byrja að ferðast innanlands, en eru ekki vissir um hvert skal halda í sína fyrstu útileigu, þá get ég hiklaust mælt með Húsafelli.

Þar eru frábær tjaldstæði og öll aðstaða til fyrirmyndar, enda með stærstu tjaldsvæðum landsins. Þó vil ég vara þá við sem vilja eiga rólega stund á fallegum stað að forðast Húsafell fyrstu helgina í Júlí, en það virðist vera regla að unglingar hópi sig saman þarna þá helgi með tilheyrandi hávaða og skrílslátum. Samt hafði ég mjög gaman að þeim þegar ég var þarna á þessum tíma, nema strákurinn minn átti svolítið bágt með að sofa.

Í Húsafelli eru nánast ótakmarkaðir möguleikar á afþreyingu, þarna er ágætis golfvöllur við tjaldstæðið, frábær sundlaug, yndislegur skógur sem gaman er að fá sér göngutúr í. Svo er stutt í ýmsa merka staði, t.d. Hraunfossar sem eru einstaklega fallegir fossar sem frussast undan hrauninu skammt frá Húsafelli, þar rétt hjá er foss sem ég þekki undir nafninu Barnafoss, en þar var fyrir löngu síðan steinbrú yfir ánna, sagan segir að þegar fjölskyldufólkið á bæ einum fór í messu að mig minnir, þá fóru krakkarnir eitthvað að leika sér þarna við fossinn. Þeir sáust aldrei framar eftir það og ákvað þá húsfreyjan að brjóta brúnna, ætli það hafi farið í umhverfismat?

Einnig er stuttur bíltúr niður að Reykholti þar sem hann Snorri Sturluson bjó, þar er skemmtilegt safn, einnig standa yfir fornleifarannsóknir þar af því sem menn telja að hafi verið bærinn hans Snorra. Það er hreint ótrúlegt að skoða hann, en þar sjást vel tröppurnar sem hann hafi niður í göngin sem lágu í tjörnina, sem er kölluð snorralaug, merkilegt finnst mér hvað þessi göng hafa verið mjó, menn hafa líklega ekki verið mjög feitir á þessum tíma.

Þar rétt hjá, eða við Kleppjárnsreyki, sem flokkast líklega undir þorp, er Deildartunguhver, en sá hver gefur mesta vatnsmagn á sekúndu af öllum hverum landsins.

Frá húsafelli er líka hægt að komast í vélsleðaferðir upp á Langjökul og er það alveg hrikalega gaman fyrir þá sem vilja smá action í lífið.

Þaðan er einnig stutt að fara í Surtshelli, sem er að ég held stærsti hraunhellir landsins, allavega sá lengsti. Hann er mjög skemmtilegt að skoða. Einnig er annar svipaður hellir þar rétt hjá, mig minnir að hann heiti Víðgeymir en ég er ekki alveg klár á nafninu, en það er búið að friða hann og loka honum fyrir almenna umferð til að vernda einstaklega fallega dropasteina sem í honum er. En starfsmenn tjaldstæðisins í Húsafelli aðstoða fólk sem vill komast í að skoða hann.

Auðvitað er svo hestaleiga þarna á staðnum eins og á flestum öðrum vinsælum útileigustöðum landsins, og getur verið mjög gaman að fara í hestaferð um nágrennið.

Einnig er hægt að komast í veiði á Arnarvatnsheiði, en ég veit ekkert meira um það, enda ekki mikill veiðimaður sjálfur.