Undirbúningur fyrir Interrail Þar sem ég er að stefna á að fara í interrail í sumar þá ákvað ég að taka saman smá upplýsingar hvernig maður fer í svona og hvernig er best að undirbúa sig. Flestar upplýsingarnar eru teknar af www.interrailer.com.

Nú. Til að byrja á byrjuninni þá verður maður að ákveða hvaða svæði maður vill taka. Hvort planið sé að taka fá lönd eða mörg þá er einnig best að fara til landa sem eru nálægt hvor öðrum eða fara í einhvern ákveðinn hring. Því flestir fljúga til t.d. London og fara einnig heim frá London, þá er gott að vera ekki búinn að vera eyða 3 vikum í að fara í einmitt öfuga átt frá London og daginn áður en maður á að fljúga heim þá er maður einhversstaðar í Grikklandi! En þetta er vonandi common sense.

Interrail miðinn skiptist í 3 gerðir. 1 svæði í 16 daga, 2 svæði í 22 daga eða öll svæðin í einn mánuð. Verðið á þessum miðum er frá 21.500 - 42.500 kr. og gilda þeir aðeins um Evrópu.

Svæðin sem eru í boði:
SVÆÐI A: Stóra Bretland, Norður Írland og Írland.?SVÆÐI B: Svíþjóð, Noregur og Finnland.?SVÆÐI C: Þýskaland, Sviss, Danmörk og Austurríki.?SVÆÐI D: Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Bosnía Hersegónía og Króatía.?SVÆÐI E: Frakkland, Belgía, Holland og Lúxemborg.?SVÆÐI F: Spánn, Portúgal og Marokkó.?SVÆÐI G: Ítalía, Slóvenía, Grikkland, Tyrkland og ferjan Ancona/Bari-Patras/Igoumenitsa (athugið að ferjurnar ganga ekki alla daga - hægt að skoða áætlun á þessari síðu:  www.ferries.gr/default.htm).?SVÆÐI H: Búlgaría, Makedónía, Rúmenía, Serbía og Svartfjallaland (Montenegro).
(Tekið af www.exit.is)



Undirbúningur:


Búnaður

Flestir interrailar kaupa búnaðinn sinn yfir mörg ár. Eitt skiptið nýjan svefnpoka, annað betra tjald og svo framvegis. Það er einstaklega kostnaðarsamt að kaupa allann búnaðinn í einu en fyrir fyrstu ferðina er allt í lagi að kaupa ódýrari búnað. Flestir eiga svefnpoka á Ísalandinu en t.d. gott er að kaupa sér fínan bakpoka fyrir ferðalagið. Það er til mjög mikið úrval af bakpokum bæði á Íslandi og úti í heimi þannig það er jafnvel ekki svo vitlaust að taka gamla bakpokann með út og kaupa nýjan úti og henda gamla. En erfitt er að segja hvar best er að gera það því Evrópa er ekki beint ódýr álfa. Að hafa tjald með sér er ekki nauðsynlegt fyrir S-Evrópu en á t.d. Norðurlöndunum er best að hafa með sér tjald enda mikið um tjaldstæði þar sem er töluvert ódýr gisting.

Bakpokar

Það er betra að hafa bakpoka sem er of stór en of lítill því eins og við Íslendingar þekkjum fáum við stundum örlítið kaupæði þegar við erum í útlöndum (Warning: Ef þú ert að fara til útlanda til að versla þá ferðu ekki í interrail.) Sérfræðingarnir á www.interrailer.com mæla með að 75 lítra bakpokar eru passlegir og ekki sniðugt að kaupa sér bakpoka sem kostar minna en ca. 10 þúsund. Ódýrir bakpokar skemmast eftir ca. ár. Góður bakpoki endist í mörg ár.

Flöskur

Mikilvægt er að hafa alltaf a.m.k. eina eins lítra vatnsflösku í bakpokanum, helst meira ef þú ert úti í nátturinni og minni í borgunum. Gott t.d. fyrir að bursta tennurnar og fleira.

Að pakka niður í bakpokann

Allir þungir hlutir eiga að fara í miðju bakpokans, rétt niður fyrir axlirnar og nálægt bakinu. Bakpokinn ætti aldrei að fara yfir 15 kg. Þungir bakpokar skemma allt fjörið.

Pokar

Sniðugt er að hafa með sér plastpokarúllu fyrir blautan fatnað/óhreinan því ekki gefst oft tími til að fara á þvottahús. Einnig eru til netpokar sem eru sniðugir til að skipta niður dótinu í bakpokanum svo auðveldara sé að ná hlutunum sem maður er að leita af.

Hreinlætisvörur

Öll höfum við með okkur hreinlætisvörur hvert sem við förum. Stelpurnar hafa með sér snyrtitöskuna og strákarnir rakvélarnar og fleira. Allt svona er best að minnka eins mikið og hægt er. T.d. er sniðugt að láta sjampó og hárnæringu í minni flöskur. Einnig er hægt að kaupa t.d. ferðalinsuvökva svo maður sé ekki að ferðast með þessa stóru sem eru mjög þungir. Mikilvægt er að hafa sólarvörn sem hentar manni, naglaklippur og skæri. Gott er að hafa með sér ca. 2 þvottapoka fyrir sveitta daga.

Annað tengt búnaði

Mikilvægt að taka með sér einhversskonar myndavél. Stafrænu vasamyndavélarnar eru bestar og muna eftir extra minniskortum! Svo er það ipod eða mp3 spilararnir með uppáhalds tónlistinni sinni. Það munu margir tímar fara í að hanga í lestum og þá er gott að hafa eitthvað til að draga athyglina frá t.d. fólki sem maður er með í lestinni. Einnig er mikilvægt að hafa litla hluti eins og töflur fyrir niðurgangi, vítamíntöflur, íbúfen og plástra. Svo er mjög sniðugt að taka með sér 1-2 bækur sem maður getur einnig hugsað sér að skipta við aðra interraila sem maður rekst á.




Peningar

Allir hafa með sér debet og kreditkortið. En það er mjög oft sem hraðbankar taka ekki við öllum kortum eða fleira og þá er mjög sniðugt að hafa með sér ca. 100 evrur faldar á sér, líka ef eitthvað skyldi gerast. Hægt er að fela þær í sokka, í dós í bakpokanum eða inná sér í poka, t.d. hjá beltinu og þar. Annað er gott að muna, að hafa númer bankans sína eða númerið hjá Visa/Mastercard ef eitthvað skyldi koma fyrir kortið þitt.

Hvað þarf ég að eiga mikla peninga fyrir svona ferð?
Á www.interrailer.com er hægt að reikna hversu mikið þú munt þurfa fyrir mat, gistingu og fleira. Þetta er einstaklega sniðugt.




Ferðafélagar

Að ferðast einn:

Þegar þú ert einn ertu þinn eigin herra og getur gert hvað sem þú vilt án þess að ræða það við neinn. Þú munnt hitta mikið af fólki í ferðinni, aðra interraila í lestum og á gistiheimilum og munnt trúlega líka fara gera hluti með þessu fólki sem þú hittir. En ef eitthvað kemur uppá, þá ertu einn sem getur orðið erfitt. Einnig þarftu að versla allt einn eins og mat og þarft alltaf að hafa með þér bakpokann þó þú ætlir bara að skreppa útí sjoppu á lestarstöðinni. Margir vilja fremur ferðast einir því maður er aldrei einn. Maður er alltaf að hitta nýtt fólk.

Að ferðast með einum félaga:

Þú hefur alltaf einhvern til að tala við. Þú ert ekki alveg einn og þið getið skipst á að passa bakpokana ef eitthvað þarf að gera; fara að versla eða kaupa lestarmiða og fleira. Ef þú ert með tjald þá er hægt að skiptast á að bera það. En mikilvægt er að velja félagann vel. Mikilvægt er að tala saman áður en farið er hvert á að fara, hvernig og fleira.

Að ferðast með tveimur félögum:

Hérna geta oft orðið tveir á móti einum í ákvörðunum og þá er oft einn ósáttur. En ef að þú átt tvo mjög góða vini sem ná vel saman gæti þetta virkað vel.

Að ferðast með þremur eða fleirum:

Getur verið brjálað fjör eða algjör andstæða. Mjög erfitt að halda öllum saman og á sama plani. Getur tekið langan tíma að ákveða hvert á að fara og fleiri ákvarðanir. En allt er hægt.




Skjöl

Interrail miðinn á alltaf að vera á öruggum stað. Ef þú missir hann er ferðin eiginlega búin. Mikilvægt er að hafa afrit af vegabréfinu sínu, skilríki og staðfestingu á heimili (residence permit) en best er að hafa bara vegabréfið með sér hvert sem maður fer. Einnig er sniðugt að láta ferðafélaga manns hafa afrit af vegabréfinu sínu ef því er stolið eða eitthvað gerist.




Heilsa

Á Íslandi getur maður fengið Evrópskt sjúkratryggingarkort hér: http://www.tr.is/sjalfsafgreidsla/evropskt-sjukratryggingakort/ og það er alveg möst ef þú skyldir þurfa að fara á sjúkrahús. Fleiri upplýsingar um kortið fást á síðunni. Því sunnar sem þú ferðast í Evrópu þarftu að vera varkárari. Alltaf bara að kaupa vatn í lokuðum flöskum, aldrei drekka úr krana og alltaf þrífa ávexti og grænmeti áður en þú borðað það. Annars ertu in for a treat (niðurgangur eða matareitrun).




Öryggi

Vertu varkár og ekki treysta neinum fyrir einhverju mikilvægu. Ef peningar, þín eigin skjöl eða eitthvað tengist málinu og manneskjan getur ekki sýnt þér skilríki þá skaltu ekki gera neitt. Aldrei fara með ókunngum manneskjum sem vilja sýna þér borgina og ekki lána neinum peninga sem þú ekki þekkir. Skjölin skulu alltaf vera í litlum poka nálægt líkamanum og best er ef enginn getur séð þau. Svo er líka hægt að hafa svona túristapoka en það sem ferðasnillingurinn í Eurotrip myndinni var með er það sniðugasta sem til er fyrir interraila þó það sé lúðalegt!




Svefn/Gisting

Tjaldsvæði:

Mjög ódýr leið til að eiga rólega nótt og aðgangur að sturtum er nær alltaf á tjaldstæðum en oftast kostar það ca. 1 evru. Á tjaldsvæðum er líka hægt að þvo þvott og kostar það ca 3-5 evrur. Til að finna gott tjaldsvæði er best að hafa “guidebook” mér sér.

Næturlestir:

Ef þú ert að fara langar leiðir þá eru næturlestir bestar. Oftast þarftu að panta fyrirfram og borga fyrir það (þó þú sért með interrail passa). Einnig eru til svokallaðir “sleeping cars” í Austur og Suður-Evrópu. Alltaf er best að hafa með sér lás svo maður getur fest t.d. bakpokann sinn við sætið sitt til öryggis. Öll skjöl skulu vera inná þér þegar þú sefur í næturlestum. Oftast ertu með öðrum í klefa og eru þeir ekki alltaf læstir. Algengast er 4-6 rúm í hverjum klefa í næturlestum.

Gistiheimili:

Gistiheimili geta verið einstaklega mismunandi. Sum er lítið of kósí, önnur eru stór og ópersónuleg. Áður en þú ferð út er gott að vera með einhverja upplýsingar um gistiheimili og hvar þau eru. Stundum getur tekið langan tíma að leita af gistiheimili og ef þú ert ekki búinn að panta geturðu þurft að bíða í nokkra tíma. Ef þú ert að koma til nýs lands er best að vera búinn að panta a.m.k. eina nótt á gistiheimili. Á gistiheimilum muntu hitta marga sem eru að ferðast eins og þú.

Hótel:

Dýrasta leiðin til að sofa á ferðalagi. Hentar ekki þeim sem ætla að ferðast ódýrt en kannski gott ef maður vill njóta þess að slappa af eina nótt.




Þá er þetta komið hjá mér í bili. Það er endalaust hægt að nefna hluti sem þarf að muna í sambandi við ferðalög og var þetta bara lítill hluti af því en ég vona samt sem áður að lesturinn hafi verið áhugaverður og að þið lærðuð eitthvað nýtt á honum! (Ég vona bara að þetta sé ekki of langt!)