Ég hef verið spænskuóð síðan ég man eftir mér. Fór í fyrsta skipti til Spánar þegar ég var 5 ára (ef ég man rétt). Ég hef farið nokkrum sinnum til Spánar (6 sinnum) en ég lærði ekki spænsku fyrr en ég ákvað að fara sem skiptinemi til Venezuela, þá 15 ára gömul.

Venezuela er æðislegt. Það er reyndar frekar spillt land. Vinur minn þarna úti sagði mér t.d. frá því þegar hann var stoppaður á bílnum sínum. Hann sýndi ökuskírteinið sitt en löggan var með eitthvað vesen. Hann lét lögguna fá einhverja peninga og hún rétti honum ökuskírteinið og kvaddi.
Einnig vorum ég og þáverandi kærasti minn stoppuð af nokkrum hermönnum. Það varð svaka vesen þar sem ég var ekki með nein skilríki en þáv. kærasti minn náði að redda þessu (NB. ég talaði bara nokkur orð í spænsku á þessum tíma).

Venezuela er líka mjög fallegt land. Ég fór í nokkrar ferðir og þar standa upp úr tvær ferðir.
(1) Caracas. Ég fór ásamt einum félaga mínum til Caracas. Við gistum hjá mömmu hans og þau keyrðu mig í tvö lítil þorp sem eru fyrir ofan Caracas - La colo~a Tovar og El Hatillo (ég er ekki viss með nöfnin en þau voru eitthvað í þessa áttina). El Hatillo var borg með fullt af húsum sem minntu mig mikið á tilbúið þorp - þau voru í öllum litum og rosalega krúttleg. La Colo~a Tovar var í þýskum stíl - rosalega krúttlegt líka. En við vorum þar um kvöld og þó það væri 12°C og ég í peysu og með vettlinga skalf ég af kulda enda vön 25°C-40°C (fer eftir því hvenær sólarhringsins maður mælir).
(2) Ferð um óbyggðirnar. Við skiptinemarnir fórum saman í ferð að Amazon-skóginum á vegum AFS. Það var rosalega gaman. Við sváfum í hengirúmum með flugnanet yfir okkur. Auk þess böðuðum við okkur í vötnum og fossum. Mér er mjög minnisstætt eitt kvöld þegar ég fór og lagðist í sandinn hjá rútunum. Ég horfði upp í himininn og þar var allt troðið af stjörnum. Ég sá þónokkur stjörnuhröp og þetta var æðislegt. Alveg þangað til mér fannst ég vera svo rosalega lítil að ég varð að standa upp og fara aftur til krakkanna.
Við máttum líka velja á milli þess að fara yfir landamærin til Brasilíu eða að sjá hæsta foss í heimi (Salto Angel). Við kusum frekar að sjá hæsta foss í heimi. Þetta er allt rosalega fallegt.

Ég bý enn að einhverri spænskukunnáttu en henni hefur farið hrakandi síðustu ár. Þó stendur það upp úr að ég eignaðist fullt af vinum þarna úti sem ég tala við enn í dag (þó eru samt komin allavega sex ár síðan ég sá þá síðast) - msn er yndislegt.

Ég mæli með því að fólk sem hefur áhuga fari út sem skiptinemar því þetta er reynsla sem maður býr að alla ævi. Þetta kennir manni að standa á eigin fótum og þó kynni mín af AFS í Venezuela hafi ekki verið góð þá er alltaf gott að trúa á sjálfan sig og finna að maður plummar sig alveg án mömmu og pabba.

Persónulega langar mig til að flytja til Venezuela, ég kann miklu betur við mig í hitanum en í kuldanum á Íslandi. En ég trúi samt að Ísland sé eitt besta ríki í heimi, það er bara of kalt fyrir minn smekk.

Fyrir verðandi skiptinema vil ég segja: “Ekki vera hrædd við að tjá ykkur á tungumálinu sem talað er í landinu sem þið farið til. Þið lærið mun hraðar þegar þið farið að tala.”