Ég var að koma heim frá Spáni, var í brúðkaupi hjá vinkonu minni sem gifti sig á Benidorm. Þetta var ein skemmtilegasta upplifun lífs míns. Ég er lítið fyrir sólarstrandir og túristastaði, og flestir af brúðkaupsgestonum voru á Benidorm í heilar 2 vikur. Hins vegar ég og önnur vinkona mín ákváðum að í staðinn fyrir að fara beint til Spánar og vera þar í 2 vikur að nota frekar aðra vikuna í að húkka far þangað frá Danmörku. Við flugum því til Kaupmannahafnar og gistum þar fyrstu nóttina (eftir sveitt djamm) hjá danskri vinkonu minni, og lögðum svo af stað daginn eftir frá strikinu. Við vorum með lítinn bakpoka og einn whiskypela hvor. Whiskyið keyptum við í flugvélinni og var eingöngu ætlað “special occations” Það er að sega yfir landamæri, nýr bílstjóri, eitthvað spes. Á strikinu töluðum við við austurlenskan íssala sem gaf okkur pappaspjöld sem við gátum skrifað á hvert við ætluðum, og þar vorum við ekki í vafa, á fyrsta spjaldið skrifuðum við “til udlandet”. Fórum síðan að næsta vegi og puttinn og spjaldið útí loft. Ekki leið lengi áðuren fyrst var bitið á, það var ítalskur kokkur sem hafði greinilega ekkert betra að gera helduren að skutla okkur að hraðbrautinni. Þegar við komum þangað notuðum við nokkurn tíma í að pæla í hvora áttina við áttum að fara… ekki með kort og þekktum ekki bæjarnöfnin á skiltonum. Við röltum að næstu bensínstöð til að spurja, og keyptum okkur kort í leiðinni af Þýskalandi. Síðan komum við okkur fyrir á réttum vegarhelmig og puttinn aftur upp. Þar stoppaði fyrir okkur gamall og sveittur hróaskeldu hippi sem bauð okkur uppá bjór, og setti okkur út rétt hjá Hróaskeldu. Þar vorum við í rúmlega 2 tíma og einhvernveginn tókst
okkur alltaf að vera við rangan veg. Oft var stoppað fyrir okkur og þegar við sögðum hvert við ætluðum var okkur bent á að standa annarsstaðar. Við vorum orðnar pínu pirraðar og þreyttar þegar verkamaðurinn stoppaði fyrir okkur. Hann var á leiðinni heim úr vinnuni, en ákvað að keyra úr leið bara til að koma okkur á betri stað til að húkka. Hann keyrði okkur
tæpa 2 klukkutíma úr leið og skildi okkur síðan eftir á vinsælli hraðbrautarbensínstöð. Þarna ákváðum við að við yrðum að næla okkur í trukk ef við ætluðum einhverntíma að komast til Spánar, því þarna vorum við búnar að nota hálfan dag og vorum ennþá á Sjálandi. Við fengum okkur að borða og settumst síðan á bekk, til að ræða málin og njóta góða veðurssins. Ekki sátum við þar lengi áðuren að hippafjölskyldan á tvílitum VW rúgbrauð stoppaði og spurði okkur hvert við vorum að fara, við sýndum þeim skiltið, sem þeim fannst alveg drep fyndið og þau buðu okkur far. Bíllinn var ekki minna hippalegur að innan en utan. Búið var að mála hann grænan og hengja upp fiðrildi í öllum regnbogans litum. Hippamamman var ólétt og voru einnig 3 hálf nakin börn í bílnum hoppandi um. Hippapabbi keyrði bílinn með bjór í hönd, þau voru á leið á einhverja hátíð. Ferðin með þeim var frekar stutt, komumst þó yfir á Fjón en stóðum á alveg fáránlegum stað til að húkka næsta far. Þarna gerðist það sjaldan
að bílar áttu leið hjá, og við biðum, og við biðum. Tæpum klukkutíma síðar stoppar þessi líka flotti Audi. Við setjumst inn og þar situr buisness karlinn og hvít leðuráklæði á sætonum. Þetta var dáldið annað en rúgbrauðinn. Á eftir honum fengum við far með ungum strák (líka Audi) sem var svakalega hress og skemmtilegur. Hann keypti handa okkur kippu af bjór og við
spjölluðum mikið. Hann skildi okkur eftir á góðum og líklegum stað fyrir trukkafar, líka bensínstöð, og trukkacenter. Við fórum þar beint í málin, gengum á trukkana og spurðum um far, en enginn virtist vera á leiðinni til Þýskalands. Allir annaðhvort að fara að sofa, eða heim. Eftir smá rölt þarna um ráfuðum við að trukkaþvottastöð og hittum á einn sem var að
bíða eftir að fá trukkinn sinn þveginn. Hann var frá Lithauen og skildi enga ensku og við skildum hann ekki. En eftir smá international mál komumst við að því að hann var að fara til Padborgar, sem var akkurat það sem okkur vantaði. Við brostum sætt til hans og sögðum “please please” og hann samþykkti að lokum að taka okkur með. Á meðan við biðum eftir að trukkurinn var þveginn kom til okkar karl sem var greinilega einhver spes þarna á stöðinni og spurði okkur hvert við værum að fara, og við
fundum um leið að hann var staðráðinn í að redda málonum hvernig sem þau nú væru. Við sögðum honum að við værum að fara til spánar, og hann lét alla hringja í kringum sig í þennan og hinn, kom síðan 5 mínútum seinna og sagði okkur að hann
væri búinn að finna einn sem væri að fara til Spánar frá Padborg eftir 3 tíma. Þetta passaði allt mjög vel saman þar sem Lithaueninn reiknaði með að vera í Padborg eftir 3 tíma og allt gekk eftir planinu. Við hittum Spánartrukkinn okkar í Padborg reyndar alveg 5 tímum seinna, eða klukkan 2 um nóttina (og ennþá í Danmörku). Þessi trukkur var rosaflottur, alveg risastór,
hvítur, og framaná honum stóð nafnið, eða “The White Bitch” alveg alltof töff!!! Bílstjórarnir voru tveir, og heitir annar þeirra Bent og hinn var kallaður Kúrekinn, enda mjög kúrekalegur og mjög fyndin týpa. Þessir gaurar voru sem sagt hressir og skemmtilegir, og við fengum að njóta mikils lúksuss, sérstaklega miðað við það ef við hefðum farið með lest eða rútu.
Í trukknum voru þægilegar kojur, flatskjár, DVD, kaffivél og öskubakki þannig að við gátum ekki gert annað en að liggja í leti og njóta þess alveg til Frakklands þar sem var gist auðvitað í trukknum við einhvern trukkaraveitingastað in the
middle of nowhere. En þar hittum við fleiri trukkara og fengum okkur allmarga bjóra með þeim og fundum okkur far frá grensunni á spáni til Benidorm. Daginn eftir héldum við ferðinni áfram með Hvítu tíkinni til Spánar og skiptum þar um trukk. Sá trukkur var því miður nafnlaus, og ekki eins flottur og Hvíta tíkin, en hins vegar var bílstjórinn Kent mjög skemmtilegur. Eftir
dágóðan spöl í nafnlausa trukknum á Spáni komum við að næsta gistingarstað, aftur einhver trukkaraveitingastaður in the middle of nowhere og aftur fyllerí með trukkurunum. Þetta var ódýr og góður staður, hóruhús hinummegin við götuna, annars ekkert svo langt sem augað eygði nema bara vegur og kaktusar. Daginn eftir sváfum við nánast alla leið til Benidorm, enda var sofið lítið um nóttina og áfengið ennþá í blóðinu. Við náðum semsagt Benidorm, eftir 3000km ferðalag á 3 sólahringum, fórum beint á ströndina og fundum vinkonu okkar sem átti alls ekki von á okkur svona snemma og komum henni á óvart. Röltum síðan um bæinn í hitanum með bakpokana búnar með whiskyið og fundum hótel sem við vorum á afgang frísins. Það sem var svo magnað við þessa ferð var hvað það var mikið af yndislegu og góðhjörtuðu fólki sem gerði ferðina okkar að algjöru ævintýri. Þetta er auðvitað ferðamáti sem getur verið hættulegur, og vonda fólkið er þarna úti, en við vorum bara ótrúlega heppnar og þessi ferð var virkilega eitthvað sem ég á alltaf
eftir að minnast með risa bros á vör…