Hvers vegna þykir svo mörgum Íslendingum svo leiðinlegt að ferðast innanlands en fara svo aftur á móti allavega einu sinni á ári til útlanda?
Jú, það er vegna þess að þegar þessi venjulega íslenska vísitölu fjölskylda ferðast innanlands fer hún ekki í ferðalag, heldur í bíltúr. Það er þrumað úr bænum eldsnemma á laugardagsmorgni, svona uppúr hádegi þegar konan er búin er að pakka niður fatnaði og vistum fyrir einn dag sem gætu dugað í hálfan mánuð. Kallinn keyrir á 100-140 yfir Hellisheiðina, vegna þess hve seint lagt var af stað og blótar kellingunni fyrir allan farangurinn. Það er keyrt að Gullfossi þar sem stoppað er í 10mín og teknar myndir, stoppað í yfirfullri sjoppu til að kaupa ís en maður kemst ekki að vegna þess að rúta, full af Þýsku millistéttarpakki var að koma rétt á undan. Svo er keyrt og keyrt og keyrt á milli þessara helstu ferðamannastaða, stoppað í 10 mín, teknar myndir og ekið aftur af stað. Svo er komið snemma heim aftur, svona 3-4 um nóttina eftir að allir eru búnir að æla vegna bílveiki. Seinna þegar myndirnar eru skoðaðar er ekkert nema sömu myndir og má sjá í öllum kynningarbæklingum um Ísland.

Þeir sem fara í ævintýraferðir um framandi lönd kaupa sér ferð með leiðsögumanni þar sem gengið er um frumskóga, eða gengið um fræga sögustaði eða gengið einhvert annað, ekki keyrt. Og það er ofsa gaman.
Þetta er líka hægt á íslandi, þótt ótrúlegt megi virðast. Það er hægt að kaupa sér ævintýraferðir, með leiðsögumanni Þar sem ferðast er um gljúfur, sanda og fjöll, sem má líkja við ævintýrafrumskógarferð í útlandinu. Líka er hægt að fá leiðsögn um sögufræga staði hér á landi eins og í útlöndum, t.d um á Njáluslóð.

Endapunkturinn er sá að ef maður ætlar að ferðast innanlands á maður ekki að fara í bíltúr, heldur að ferðast. Vera vakandi fyrir leiðsögn og hugsa hvað myndi maður gera við svipaðar aðstæður í útlöndum. Þá verður gaman að ferðast á Íslandi.