Ferðasaga

Ég hef nú lengi ætlað mér að skrifa þessa ferðasögu og núna er loksins komið að því. Ég efast ekki um að þið eigið eftir að gagnrýna mig fyrir að vera illa skipulagður og óábyrgur ferðalangur….en mér er sléttsama.

Þann 21. október 2004 lögðum við félagarnir 3 af stað til London. Skipulagið var einfalt…það var ekkert skipulag. Við höfðum ekki keypt neina miða í nokkurn skapaðan hlut. Eina áætlunin var að láta sjá sig á októberfest í Munchen. Ég hafði meira að segja haft fyrir því að panta eitt stykki gistingu þar…..sem við á endanum nýttum ekki enda mættum við á allt öðrum tíma þangað en gistingin var bókuð.

London
Við lentum á Stansted-flugvelli um morguninn og tókum lestina inn í London. Þegar þangað var komið vorum við ekki með nein plön um það hvert við ætluðum næst. Ég og félagi minn ferðuðumst báðir með bakpoka en sérvitri vinur minn hann Jói var bara með veskið sitt og tannburstann…gáfulegt. Við ákváðum að rölta og fá okkur að éta og lentum auðvitað á borði við hliðina á Íslending. Á meðan við sátum að snæðingi tókum við þá ákvörðun að fara bara til Parísar, við gætum alltaf skoðað London. Við fórum því á næstu lestarstöð og keyptum miða til Dover. Á þessum tímapunkti var Jói vinur minn orðinn pínufullur og var því hægt að hafa pínugaman af honum.

Dover-Calais
Við tókum ferjuna frá Dover til Calais og gerðist lítið markvert í þeirri ferð. Samt auðvitað gríðarleg stemmning um borð….eða þannig. Við komum til Calais um klukkan 21:00. Það var enginn leigubíll við höfnina og við höfðum ekki hugmynd um hvert við ættum að fara. Þannig að við gengum bara af stað og vonuðumst einfaldlega að við myndum rekast á gistiheimili. Það varð nú meira en að segja það og það endaði á því einhverjum 2-3 tímum síðar að við rákumst á einhverja róna sem gátu sagt okkur hvar gistiheimili var….sem betur fer.
Daginn eftir skoðuðum við Calais. Svo sem ekkert mikið að sjá. Bara týpískur franskur smábær get ég ímyndað mér. Þannig að við keyptum miða með lest til Parísar.

París
Þegar til Parísar var komið vorum við að sjálfsögðu ekki með neina gistingu þannig að það var rölt af stað og stoppað á hverju einasta hóteli sem var á sanngjörnu verði. Við enduðum á fínu hóteli í Indverska hverfi Parísar. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu var áætlunin eingöngu sú að skoða eins mikið og hægt er í París á sem stystum tíma. Þannig að það var hoppað upp í næsta leigubíl og beðið um Eiffel-turninn. Við lentum á fínum leigubílstjóra sem tók að sér hlutverk tour guides. Hann benti okkur á allt hið merkilega sem hann gat á leiðinni og fór meðal annars með okkur í undirgöngin þar sem Díana prinsessa dó í bílslysi.
Við vorum ekki lengi að taka þá ákvörðun að ganga upp Eiffel-turninn þegar við sáum biðröðina í lyftuna. Það reyndist nú lítið mál að rölta upp stigann og það er rosaleg upplifun að standa efst uppi. Gleymi því aldrei.
Um kvöldið ákvað sérvitringurinn Jói að reyna að komast að því hvar hægt væri að komast á flott, franskt veitingahús. Gaurinn á hótelinu sagði okkur frá einu slíku þannig að við fórum þangað og fengum einhvern veginn borð. Ég get ekki ímyndað mér að þjónunum hafi litist á blikuna þar sem að við vorum klæddir eins og ferðalangar….nema Jói sem var klæddur eins og róni. Við fengum okkur snigla og nautakjöt sem var hreint út sagt æðislegt. Við reyndum að djamma eitthvað um kvöldið en það mistókst eiginlega. Enda svo sem nóg af djammi framundan.
Daginn eftir var stefnan sett á Louvre-safnið og Sigurbogann. Tókum strætó í átt að Louvre en okkur tókst að fara alla leiðina í hina áttina fyrst…okkur tókst samt á endanum að komast alla leið að Louvre. Áætlunin inn í safninu var mjög einföld. Að skoða eins mikið og tíminn leyfði og hlaupa síðan að lokum að Monu Lisu….týpískir ferðalangar semsagt. Við ákváðum síðan að rölta að sigurboganum sem er auðvitað dágóður spölur en það var nóg að skoða á leiðinni. Sigurboginn sem slíkur var auðvitað mjög flottur og helvíti skemmtilegt að sjá þetta fræga hringtorg í kringum hann. Get rétt ímyndað mér að íslenskir ökumenn myndu fara yfir um ef þeir þyrftu að glíma við það. Þegar við komum aftur upp á hótel reyndum við að ákveða hvert við skyldum fara næst. Við vorum allir með þá hugmynd að fara til Prag en spurningin var hvort við myndum fara til Amsterdam og þaðan til Prag eða til Sviss og þaðan til Prag. Ég man nú ekki alveg hvernig við komumst að niðurstöðu. Minnir meira að segja að við höfum kastað upp krónu. Daginn eftir var því haldið af stað…..til Zurich í Sviss.

Zurich
Þegar komið var til Zurich eftir laaaaanga lestarferð var sú ákvörðun tekin að fá sér að borða sérsvissneskan mat. Þannig að við fórum á Pizza Hut. Skemmst frá því að segja að á Pizza Hut í Sviss er fremur slæmur matur. Eftir þessa frábæru máltíð fórum við á röltið.
Zurich er alveg ótrúlega falleg borg. Þar virðist velmegunin líka vera gríðarleg enda mikið af sportbílum á götunum og ekkert nema Gucci og Rolex búðir á aðalgötunni. Þarna er líka allt svo hreint og kyrrlátt miðað við stórborg. Við kvöddum því Zurich með það í huga að þangað myndum við koma aftur seinna á lífsleiðinni!

Prag
Jæja…þá er komið að aðalstaðnum. Eftir mjög erfiða lestarferð þá komum við loksins dauðþreyttir á lestarstöðina í Prag. Við vorum eins og áður ekki með neina gistingu pantaða. Hinsvegar gaf miðaldra kona sig á tal við okkur á lestarstöðinni og spurði hvort okkur vantaði gistingu. Við vorum 90% vissir um að þetta væri líffærasali en þar sem við vorum þreyttir þá ákváðum við að taka áhættuna. Við eltum konuna á gistiheimili rétt hjá lestarstöðinni. Allan tíman hélt hún á pínulitlum hundi. Þegar við vorum að ganga upp stigann þá var konan farin að svitna alvarlega mikið og náði varla andanum. Hún stoppaði því, sneri sér að vini mínum og sagði „I am sorry. I have asma…do you have asma?”….bara eins og ekkert væri sjálfsagðara en að hann væri líka með asma. Hann svaraði því neitandi og við héldum áfram upp stigann. Þegar að þangað var komið sýndi hún okkur herbergið sem reyndist vera alveg ágætt eftir allt saman. Eftir smá tíma fór konan að velta því fyrir sér hvar hundurinn sinn væri. Vinur minn Jói reyndi þá útskýra fyrir henni á ensku að hundurinn hennar hefði sennilega farið út. Konan öskraði þá upp fyrir sig ”You think dog outside?!”….og svo gjörsamlega sturlaðist hún….úr hlátri! Hún ætlaði bara ekki að jafna sig á því hversu fyndið henni fannst þetta.
Við síðan fórum að skoðuðum Prag. Alveg yndisleg borg með frábæra sögu. Við skoðuðum Karlsbrúnna, höllina og fórum líka upp í mini-útgáfu af Eiffel-turninum. Um kvöldið svo farið á djammið. Við vorum varla búnir að vera lengur en 10 mínútur á aðalgötunni á leiðinni á einhvern skemmtistað áður en það var búið að bjóða okkur kynlíf tvisvar og eiturlyf einu sinni. Við fórum síðan inn á nokkra skemmtistaði sem áttu það allir sameiginlegt að bjóða upp á ódýrt áfengi og léttklæddar meyjar dansandi upp á borðum. Á endanum fórum við á stærsta skemmtistaðinn í Prag sem er á 5 hæðum. Við skemmtum okkur konunglega þar nema að Jói var orðinn eitthvað slappur og ákvað að rölta heim á gistiheimilið. Ég og hinn vinur minn dönsuðum hinsvegar til fimm um morguninn og ég var örugglega búinn að drekka svona eins og 7 vodka í red bull (sem að ég veit að er ekki gáfulegt!). Á þessum tímapunkti var vini mínum farið að langa að sjá eitthvað af nöktu kvenfólki. Ég var reyndar orðinn alveg blindfullur þarna.
Við römbuðum inn á einhvern strippstað þarna og horfðum á föngulegar meyjar flétta sig klæðum. Vini mínum fór síðan að hungra í eitthvað meira…enda framboðið af vændi þarna alveg gríðarlegt. Ég ákvað nú að elta hann en sagði strax við hann að hann myndi einn fá sér hóru þar sem að ég ætti kærustu heima og hefði minnstan áhuga á því að borga fyrir kynlíf. Hann samþykkti það…..
Fyrir utan strippstaðinn töluðum við við dyravörðinn sem sagðist aldeilis ætla að redda okkur mellum. Hann hringdi í leigubíl sem að keyrði okkur eitthvert lengst út í úthverfi Prag. Mér var nú hætt að lítast á blikuna. Hann stoppaði loksins fyrir utan eitthvert hús og sagði okkur að ganga í bæinn. Við gerðum það……og á móti okkur tóku fjölmargar léttklæddar meyjar og félagi minn gat bara valið úr. Hann gerði það og fór með eina stelpuna upp á efri hæðina. Á meðan á þessu stóð settist ég í sófann og reyndi að útskýra fyrir stelpunum að ég ætti kærustu og hefði ekki áhuga á þeim. Þær reyndu samt allt til að koma mér til og fóru meira að segja í sleik fyrir framan mig. Allt kom fyrir ekki og ég drapst áfengisdauða í sófanum! Eftir um það bil hálftíma kom vinur minn niður og við gengum út. Því miður vorum við það vitlausir að biðja ekki fólkið á hóruhúsinu að hringja í leigubíl fyrir okkur því að við vorum rammvilltir. Eftir tveggja tíma labb vorum við loksins farnir að kannast við okkur og við urðum fyrstu viðskiptavinirnir á Mcdonalds þennan morguninn kl. 9. Svo fórum við á gistiheimilið og fórum að sofa.
Daginn eftir skoðuðum við eins mikið og við gátum. Kynntumst meira að segja 2 bandarískum stelpum sem að vildu meina að félagi minn væri líkur Jon Bon Jovi. Ég hélt ég myndi kafna úr hlátri. Við tókum síðan næturlestina til Munich og sváfum fast í kojunum okkar. Það var eins gott að við nutum svefnsins…því að við áttum ekki eftir að koma dúr á auga fyrr en sólarhring síðar….

Munich
Við vorum mættir til Munich klukkan 9 um morguninn og höfðum, eins og áður, enga gistingu. Það átti eftir að koma okkur í koll þar sem að Oktoberfest var í gangi og öll hótel uppbókuð. Við gengum hinsvegar í átt að svæðinu þar sem að Oktoberfest var í gangi og um leið og bjórtjöldin opnuðu þá byrjuðum við að þamba bjór.
Restin af deginum er í hálfgerði móðu. Ég man eftir því að hafa sungið með einhverjum Austurríkismönnum inn í tjaldinu. Ég man eftir því að hafa farið í rússíbana. Ég man eftir því að hafa farið á ólympíuleikfanginn í Munich og keypt miða á Bayern Munich-Ajax í meistaradeildinni. Við síðan drukkum meira og meira og tókum síðan leigubíl ásamt einhverjum pólverja á völlinn. Jói lenti í þvílíku rifrildi við Pólverjann sem hélt því statt og stöðugt fram að Hitler hefði verið góður maður sem hefði staðið sig með sóma þegar hann var að útrýma gyðingum.
Þegar að við komum á völlinn ældi síðan félagi minn fyrir utan hann. Við komumst nú samt allir inn á völlinn og horfðum á Bayern rústa Ajax 4-0. Síðan var haldið aftur á lestarstöðina þar sem við vissum að það yrði eina von okkar á gistingu. Á þessum tímapunkti var ég hinsvegar orðin fárveikur af áfengisdrykkju og eyddi restinni af nóttinni ælandi inn á klósetti á einhverju netkaffi fyrir utan lestarstöðina sem var opið allan sólarhringinn.
Daginn eftir ákváðum við að nú væri nóg komið. Við vorum búnir að eyða alltof miklu af pening og við vorum dauðþreyttir. Við tókum því lestina til Kaupmannahafnar og gistum þar hjá vinafólki Jóa. Morguninn eftir flugum við heim….


Jæja…ég vona að þetta hafi verið áhugaverð lesning. Við komunst yfir allt þetta svæði á aðeins 10 dögum. Enda svaf ég í næstum sólarhring þegar heim var komið….
Will there ever be a boy born who can swim faster than a shark?