Jæja, nú kemur að því að ég er að fara í tvö samfelld kórferðalög í júní. Þetta verður rosaleg törn en efalítið alveg ofboðslega skemmtilegt. Mig langaði bara að deila þessu með ykkur.

FYRRI FERÐIN
-Við fljúgum út að morgni 2. júní til Kaupmannahafnar og lendum um hádegisbilið að staðartíma. Þar tekur frænka mín á móti mér og förum við að dúlla okkur bara á Strikinu eða eitthvað og svo gisti ég hjá henni um nóttina en restin af kórnum gistir á einhverju Danhostel.
-Að morgni 3. júní fljúgum við til Helsinki, syngjum þar og gistum svo um nóttina.
-4. júní tökum við rútu til Tampere og gistum í eins konar sumarbústöðum eiginlega rétt fyrir utan bæinn. Við höldum fullt af tónleikum þar og svo keppum við í kórakeppni 6. júní.
-9. júní ætla allir að fara heim, en þar sem það skarast á við seinni ferðina mína þarf ég að fara fyrr heim og tek ein rútu frá Tampere að morgni 8. júní til Helsinki og missi þar með af verðlaunaafhendingunni, en það er allt í lagi. Ef við vinnum eitthvað þá bið ég bara stelpurnar um að geyma verðlaunapening, ef við fáum slíkan, handa mér.
-Semsagt, 8. júní tek ég rútu eða lest frá Tampere til Helsinki, flýg frá Helsinki til Kaupmannahafnar, bíð í einn og hálfan tíma og flýg svo til Keflavíkur.

SEINNI FERÐIN
-Ég næ að vera á Íslandi í heilar 4 klst ef engin seinkun verður! Ég hitti bara hinn kórinn á flugvellinum og saman fljúgum við síðan út til München kl.1 um nóttina.
-Við lendum í München um kl.6 um morguninn og keyrum þaðan gegnum Austurríki og Slóvakíu til Tékklands þar sem við verðum í Prag í 4 daga.
-Í Prag syngjum við í Nikulásarkirkju sem mig minnir að sé á torginu í miðbænum. Svo förum við í brúðuleikhús og í óperuna að sjá Tosca.
-Eftir þetta keyrum við til Búdapest, siglum á Dóná og gerum margt sniðugt og skemmtilegt. Við syngjum í Mattheusarkirkju, sem er víst rosalega stór, fræg og vinsæl kirkja. Maður þarf að borga aðgangseyri til að fá að koma inn!! Við máttum ráða hvort við myndum syngja á meðan túristar eru að skoða eða hvort við vildum syngja í messu. Okkur langaði að prófa að syngja í messunni þar sem við fáum að syngja fyrir aðra túrista í Prag. En þetta er svo rammkaþólsk kirkja að við megum bara syngja einhverja trúarsöngva og svoleiðis. Sem betur fer erum við með 3 ave mariur og eina ave verum corpus auk íslenskra trúarlaga. Mér finnst samt dáldið kaldhæðið að heiðinginn ég fái að syngja sóló í svo rammkaþólskri kirkju… en hey! Það veit það enginn þarna úti hvort eð er!
-Ég man ekki hversu marga daga við erum í Búdapest, ég held fimm, en 18. júní keyrum við til Vínar, verslum þar og gistum í eina nótt. Við ætluðum að gista í München en við fengum ekki hótel þar.
-19. júní keyrum við frá Vín til München og fljúgum heim.

Þetta verður alveg rosaleg törn, sérstaklega ferðalagið frá Tampere til Prag! Ég meina…. Tampere-Helsinki-Kaupmannahöfn-Keflavík-München-og svo akstur alla leið til Prag! Hugsa að ég verði einn og hálfan sólarhring á leiðinni! Ég hefði viljað fljúga beint til München eða Prag frá Helsinki, en þá hefði ég þurft að borga MINNST 30-40 þúsund extra! Af því það kostar nebbla tvöfalt meira að fara bara aðra leiðina og ég hefði þurft að kaupa miða fram og til baka frá Helsinki til annarrar hvorrar borgarinnar og SAMT borga fyrir ferðina til Köben og Keflavíkur og Keflavíkur til München! Svo ég ákvað að leggja þetta bara á mig, fara degi fyrr og borga bara uppsett verð fyrir það. Ekkert smá asnalegt með þessi flugfélög! Hafið þið lent í þessu? Svo fékk ég einhverja ferðaávísun frá Íslandsbanka af því ég fékk mér kreditkort og gat svo ekki notað hana því hún er BARA fyrir pakkaferðir frá flugfélögunum og það var ekkert verið að hafa fyrir því að segja mér það. Meira ruglið! En ég ætla ekki að láta það mikið á mig fá og hlakka bara til ferðarinnar. Ég vona bara að ég eigi nógan pening!

Kveðja,
Divaa