Góðan daginn -

Ég er að fara ásamt tveimur vinum mínum í heilmikla Evrópuferð í sumar. Með tilkomu þessara lággjaldaflugfélaga er búið að opna Evrópu svo sannarlega fyrir ferðalanga.

Við keyptum kort í einn mánuð fyrir 3 svæði:
C: Danmörk, Þýskaland, Sviss, Austurríki
E: Frakkland, Belgía, Holland, Lúxemborg
G: Ítalía, Slóvenía, Grikkland Tyrkland
Samtals borguðum við 34.600 á mann fyrir Interrail kortið hjá www.exit.is.

Gróf ferðaáætlun er einhvern veginn á þessa leið:
Flogið til Kaupmannahafnar. Þar ætlum við að stoppa í 4 daga þar sem ég, sjóaði Danmerkurfarinn, ætla að leiða vin minn um stræti þessarar fornu höfuðborgar Íslands. Þarna ætlum við að vera í 3 daga áður en við höldum af stað til Hamborg.

Hamborg, Amsterdam, Brussel, Lúxemborg, París, Auxerre, Montpellier, Bordeaux, Nice, Mónakó, Mílanó, Genf, München, Vín, Ljubljana, Feneyjar, Bologna, Flórens, Róm, Brindisi, (ferja til Grikklands), Aþena, Istanbúl.

Í Grikklandi er ætlunin að láta Interrailkortið klárast. Það líða síðan 5 dagar frá því að kortið okkar klárast í Grikklandi þar til að við eigum pantað flug með EasyJet (kostaði kr 5000) frá Aþenu til London. Mig langar til að eyða 2-3 dögum af þessum 5 í N-Grikklandi og fara til Búlgaríu og Makedóníu. Bæði langar mig að sjá hvernig Austur-Evrópa var og er í dag, auk þess sem það er cool að geta sagst hafa komið til Makedóníu.

Í London ætlum við síðan að eyða 4 dögum með tjöllunum í góðu chilli.

Samtals ferðakostnaður á mann hjá okkur var:
Flug: Keflavík-Kaupmannahöfn: 7500 kr
InterRail miði: 34.600 kr
Flug: Aþena-London: 4.990 kr
Flug: London-Keflavík: 10.000 kr
_____________________________________
Samtals: 57.000 krónur.

Mér finnst persónulega ekki mikið að borga 60000 krónur fyrir fargjöld í 6 vikur, en það verður þó að taka með í reikninginn að það mun kosta sitt að halda sér uppi dagana í sumar því eitthvað þarf maður víst að borða.

En núna er ég búinn að skrifa öll þessi ósköp þá finnst mér ég nú að ég ætti að fá eitthvað út úr því. Mig langar því að biðja ykkur sem hafið komið til þessara borga eða annarra nálægra borga og héraða að benda mér á eitthvað sem væri áhugavert að skoða í þessari ferð.

Kveðja,
Nonni